Stefnutillaga um stóriðju og þunna eiginfjármögnun var samþykkt á félagsfundi Pírata þann 10. janúar síðastliðinn með 33 atkvæðum getgn 24. Samkvæmt stefnunni vilja Píratar endurskoða fjárfestingasamninga við stóriðjufyrirtæki og láta þau borga „eðlilega“ tekjuskatta í ríkissjóð. Semjist ekki um endurskoðun samninganna innan sex mánaða frá því að viðræður hefjist vilja Píratar leggja sérstakan orkuskatt á þau sem skila á ríkissjóði sömu eða hærri upphæðum og stóriðjan myndi greiða ef hún væri ekki undanþegin almennum reglum um tekjuskatt. Píratar vilja auk þess festa í lög takmörk á vaxtagreiðslum sem fyrirtæki geta dregið frá skattstofni sínum.
Píratar mælast langstærsti stjórnmálaflokkur landsins og fylgi þeirra hefur mælst yfir 30 prósent í flestum könnunum frá því í byrjun árs 2015. Í nýjustu könnun MMR, sem framkvæmd var dagana 12-20 janúar 2016, mældist fylgi flokksins 37,8 prósent og hefur aldrei mælst hærra.Meira en helmingur ungs fólks, á aldrinum 18 til 29 ára segjast myndu kjósa Pírata í næstu Alþingiskosningum, eða 54 prósent.
Kostar ríkissjóð 3 til 5 milljarða á ári
Þunn eiginfjármögnun snýst um það þegar fyrirtæki er fjármagnað að mestu, eða öllu leyti, með lánsfé. Eigið fé fyrirtækisins er lítið eða ekkert. Lánin sem fyrirtæki sem þessi fá eru oft frá tengdum fyrirtækjum, þ.e. innan sömu samstæðu. Fyrirkomulagið er þekkt og víða notað. Tilgangur þess er að koma í veg fyrir að það myndist tekjuskattstofn þar sem allur hagnaður fer í vaxtakostnað af lánum.
Þunn eiginfjármögnun er víðast hvar bönnuð í iðnvæddum ríkjum. Í greinargerð sem fylgir ályktuninni sem Píratar hafa nú samþykkt er rifjað upp að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi lagt til við íslensk stjórnvöld eftir hrunið að tekið yrði fyrir hana „en af einhverjum ástæðum sáu stjórnvöld ekki ástæðu til að fara að þeirri ráðleggingu, og hefur ríkissjóður orðið af miklum tekjum vegna þessa eða milli 3 og 5 milljarða á ári“.
Fá sex mánuði til að semja, annars leggst á orkuskattur
Í stefnu Pírata er lagt til að lögfest skuli takmörk á þær vaxtagreiðslur sem fyrirtæki geti dregið frá skattstofni við 30 prósent af hagnaði fyrir fjármagnsliði, skata, afskriftir fastafjármuna og um niðurfærslur. „Þannig verði 70 prósent af EBITDA ávallt skattstofn, óháð vaxtagreiðslum fyrirtækisins“.
Einnig vilja Pírata að leitað verði endurskoðunar fjárfestingasamninga við þau fyrirtæki sem „með slíkum samningum hafa undanþegið sig eðlilegum tekjuskattsgreiðslum“. Í endurskoðuðum samningum verði eðlilegar skatttekjur tryggðar og einnig séð til þess að uppsafnað tap fyrri ára verði ekki notað til að koma í veg fyrir eðlilegar tekjuskattsgreiðslur fyrirtækjanna framvegis.
Í stefnu Pírata segir að ef samningar takist ekki um endurskoðun fjárfestingasamninga innan sex mánaða frá upphafi viðræðna verði lagður á sérstakur orkuskattur sem skili þjóðfélaginu sömu eða hærri upphæðum og ef fyrirtækin væru ekki undanþegin almennum reglum um tekjuskatt.
Sú aðferðarfræði minnir nokkuð á þá sem sitjandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks beitti í áætlun sinni um losun hafta. Þar var kröfuhöfum föllnu bankanna boðið að semja um stöðugleikaframlag innan tiltekins tímaramma. Ef samningar tækjust ekki, og slit búa þeirra í kjölfarið kláruð, myndi leggjast á stöðugleikaskattur.
Ekki að finna upp hjólið
Píratar eru ekki að finna upp hjólið með því að leggja til að lögum verði breytt til að taka á þessari stöðu.
Í október 2013 lögðu Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og þingmennirnir Svandís Svavarsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon fram frumvarp um breytingar á lögum um tekjuskatt „í þeim tilgangi að lögfesta reglur um þunna eiginfjármögnun og að auki eru lagðar til nokkrar nauðsynlegar breytingar á tekjuskattslögunum svo taka megi reglurnar upp í lögin“. Á meðal þeirra breytinga sem lagðar voru til í frumvarpinu er sama breyting og nú er orðin að stefnu Pírata, um að vaxtagreiðslur sem fyrirtæki geti dregið frá skattstofni við 30 prósent af hagnaði fyrir fjármagnsliði, skata, afskriftir fastafjármuna og um niðurfærslur. Í frumvarpi þeirra var hins vegar engin tillaga um orkuskatt.
Vert er að taka fram að öll þrjú höfðu setið í ríkisstjórn fram á vordaga 2013. Sú ríkisstjórn beitti sér ekki fyrir breytingu á lögum um tekjuskatt til að koma í veg fyrir að þunn eiginfjármögnun.
Málið fékk efnislega meðferð í þinginu og hefur farið í gegnum tvær umræður. Föstudaginn 16. maí 2014, fyrir einu og hálfu ári síðan, kusu þingmenn um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar til frekari meðferðar, að lokinni annarri umræðu. 53 þingmenn samþykktu þá ráðstöfun. Enginn var á móti.
Síðan hefur lítið heyrst af framvindu málsins. Katrín Jakobsdóttir beindi fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um málið í lok árs 2015. Þar spurði Katrín hvort unnið væri að breytingum á lögum um tekjuskatt varðandi þunna eiginfjármögnun á grundvelli frumvarpsins sem vísað var til ríkisstjórnarinnar og ef svo er, hvenær ráðherrann ætlaði að kynna tillögur á grundvelli vinnunnar.
Í svari Bjarna kom fram að ráðuneytið fylgdist grannt með sérstöku verkefni sem unnið er á vegum OECD undir enska heitinu Base Erosion and Profit Shifting sem á íslensku gæti lagst út sem Rýrnun og tilfærsla skattstofna. „Sú vinna miðar meðal annars að því að leita leiða til að hamla gegn misnotkun skattareglna til undanskota frá skatti, þar með talið óhóflegum eða jafnvel óeðlilegum frádrætti vaxtakostnaðar,[...] þess er þó vart að vænta að frumvarp um mögulega takmörkun vaxtafrádráttar eða þunna eiginfjármögnun liggi fyrir á þessu þingi nema þá til kynningar.“