Mikið hefur mikið verið rætt um uppgang þess sem kallað er öfga-íslam undanfarið. Þar hefur hið svokallaða Íslamska ríki verið tiltekið sérstaklega og nefnt sem helsta ógn Vesturlanda. Ófriðarbálið sem logað hefur undanfarna áratugi í ríkjunum fyrir botni Miðjarðarhafs og víðar er jafnframt tengt við átök á milli tiltekinna trúarhópa. Talað er um að þar takist á innbyrðis, heittrúaðir sía og súnni múslímar sem síðan hatist í sameiningu við gyðinga í Ísrael – þeir al-öfgafyllstu við heimsbyggðina eins og hún leggur sig.
Þá er jafnan gengið út frá því að átakalínur séu í samræmi við tiltekna trú sem skapi samstöðu meðal trúbræðra. Stjórnvöld í löndum þar sem trú er ríkjandi þáttur í stjórnarfarinu hljóti því að styðja fylgismenn sömu trúar í öðrum ríkjum möglunarlaust. Þetta er sérstaklega mikilvægt að skoða nú í ljósi breyttrar stöðu Írans í kjölfar kjarnorkusamkomulagsins við Vesturveldin. Landið mun væntanlega leika lykilhlutverk í því hvernig til tekst með friðarumleitanir í Mið-Austurlöndum. Íran er í raun eina ríkið á svæðinu þar sem guðræði (e. theocracy) ríkir en hófsamari borgaralegir stjórnarhættir eiga þó einnig sína málsvara í írönsku stjórnkerfi.
Íran og Sádi-Arabía, sem voru handbendi stórveldanna á tímum kaldastríðsins, eru nú orðnir sjálfstæðari gerendur en áður og helstu keppinautarnir um völd í Mið-Austurlöndum. Eins og innrás Bandaríkjamanna í Írak lagði grunninn að tilurð Íslamska ríkisins varð brotthvarf Saddams Hússeins af valdastóli í Írak einnig til þess að valdajafnvægið sem ríkti á svæðinu raskaðist. Um leið og Bandaríkjamenn hafa dregið úr stuðningi við Sádí-Arabíu hefur þíða myndast í samskiptum þeirra og Írana – sem hafa haft tækifæri til stíga inn í tómarúmið sem myndaðist, gera bandalag við Írak og náð að styrkja stöðu sína sem ráðandi afl á svæðinu.
Þegar gripið er til þeirrar útskýringar að ófriðurinn í Mið-Austurlöndum sé afsprengi aldagamalla trúarerja yfirsést mönnum ýmsir mikilvægir þættir sem eiga a.m.k. jafn ríkan þátt í að ýta undir núverandi ástand. Vissulega getur trú átt þátt í að skerpa þær andstæður sem auka á átök og opinber trú viðkomandi ríkis haft áhrif stefnu og stuðning í ríkjasamskiptum. Einnig hafa heittrúaðir öfgahópar verið notaðir sem verkfæri eins og Íran gerði með stofnun Hezbollah samtakanna í Líbanon til að berja á Ísraelsmönnum.
Klassískir valdahagsmunir sem byggja á landfræði-pólitískum og efnahagslegum forsendum, bæði innan ríkis og utan, eiga hins vegar stóran þátt í ólgunni og þeim átökum sem eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs. Rannsóknir fræðimanna sýna einmitt fram á að þegar á reynir eru það efnahagslegir þættir og landfræðileg lega sem skipta mestu. Jafnvel þar sem heittrúaðir bókstafstrúarmenn eru við völd eru það efnahagslegir hagsmunir sem ráða endanlegri stefnu fremur en trúarbrögð og tengsl við trúbræður – og þetta á sérstaklega við um Íran.
Íran og stuðningur við harðlínusamtök
Íranskir leiðtogar eru þekktir fyrir afdráttarlausar yfirlýsingar gagnvart Ísrael eins og frægt er orðið. Íran hefur auk stuðnings við Hezbollah í Líbanon, m.a. beitt Hamas-samtökunum í Palestínu í þeirri baráttu. Í fyrstu mætti ætla að stuðningur Írans við slík trúbræðrasamtök, sem byggja á íslömskum grunni, væri óskoraður. En þegar betur er að gáð kemur í ljós að hann hefur verið mjög ótryggur. Ýmist eru Hamas, Hezbollah eða önnur herská samtök ein á báti þar sem ekki er einu sinni reynt að sýna móralskan stuðning – yfir til þess að Íran tekur ákveðna ábyrgð á þessum hópum. Þar ræður miklu að stjórnin í Teheran hefur verið að reyna að leggja áherslu á forystuhlutverk sitt til að skapa frið á svæðinu.
Þetta styður enn frekar það sjónarmið að utanríkisstefna Írans og hin trúarlega orðræða er langt frá því að vera einróma eða afdráttarlaus. Það gefur til kynna að stuðningur Írans, þar sem sía-trú er ríkjandi, við samtök eins og súnni sinnað Hamas sé frekar byggður á því hvort og hvernig það þjónar pólitískum hagsmunum Írans. Ein ástæðan fyrir því er að Íranar vilja ekki að sía-trú nái undirtökum á svæðinu sem kæmi í veg fyrir að þeir verði breiðvirkt íslamskt afl. Stuðningur jöfnum höndum við Hamas, öfgasinnuð íslömsk samtök og málstað Palestínumanna er því góð leið til að yfirstíga klofning og undirstrika þannig forystuhlutverk Íran.
Einnig þarf að taka með í reikninginn að hógvær stefna hentar ekki harðlínuöflum í Íran því völd þeirra byggjast á því að skerpt sé á trúarlegum átakalínum. Aðgerðir eins og innrásin í sendiráð Sádí-Arabíu í Teheran, í kjölfar aftökunnar á síaklerknum Sheikh Nimr al-Nimr, eru því til þess gerðar að grafa undan trúverðugleika hins hófsama arms, fremur en að þær séu byggðar á ígrundaðri stefnu íranskra stjórnvalda.
Skortur á pólitískri umræðu og lögmæti stjórnvalda
Um sextíu prósent Írana eru Persar sem eru ráðandi í samfélaginu. Vestrænir fjölmiðlar afgreiða gjarnan pólitískan óstöðugleika í Íran sem uppreisn súnníta minnihlutans. Þar yfirsést mönnum að málið snýst miklu fremur um undirokaða hópa af mismunandi kynþáttum í Íran. Þetta eru hópar Asera, Kúrda, Túrkmena og Araba auk annarra smærri brota og uppreisn þeirra er það sem raunverulega gæti valdið óstöðugleika og ófriði í landinu. Jafnvel lýðræðissinnaðir Persar eru hikandi við að auka lýðréttindi þessara minnihlutahópa því það gæti leitt til endaloka persneskra yfirráða í Íran.
Þetta leiðir okkur að þeim undirliggjandi grundvallarvanda sem hrjáir ríki Mið-Austurlanda, hversu mikið Vesturveldin, sér í lagi Bandaríkin, Frakkland og Bretland, hafa ráðskast með þau síðastliðin eitthundrað ár. Afleiðingarnar eru að pólitísk umræða hefur ekki náð að þróast og móta umhverfi hvar valdhafar hafa öðlast pólitískt lögmæti, m.a. meðal ólíkra þjóðarbrota, sem er frumskilyrði fyrir raunverulegri sjálfstjórn ríkjanna. Þar hafa fremur setið einræðisherrar, gjarnan í skjóli Vesturlanda, en þeim sem hafa verið þrándur í götu er gjarnan komið frá með undirróðri, skipulögðum byltingum og innrásum. Í slíku umhverfi er leiðin til að tryggja pólitíska hagsmuni og völd einmitt að kynda ófriðarbál með því að skerpa trúar- og þjóðernislegar átakalínur.
Niðurstaðan er því sú að varasamt er að ganga út frá því að trúarbrögð séu megin skýring á stefnu eða gjörðum ríkja, eða þegar orsaka átaka og stríða er leitað, þó vissulega geti þau átt ríkan þátt. Almennt gildir það um ríkjasamskipti að þar ráða efnahagslegir hagsmunir mestu og ríki reyna fyrst og fremst að tryggja öryggi sitt í hvívetna. Því er hægt að gera ráð fyrir að einhverskonar hugmyndafræðilegur eða trúarlegur samhljómur meðal þjóða dugi skammt þegar á reynir. Þegar stefnumótun sem varðar öryggi ríkisins er annars vegar eru það oftar en ekki hreinir og klárir efnahagslegir- eða pólitískir hagsmunir sem ráða för.