Hinn alræmdi nasistaforingi Hermann Göring var einn af valdamestu mönnum þriðja ríkisins. Hann stofnaði leynilögregluna Gestapo, leiddi flugherinn Luftwaffe, tók þátt í helförinni og var um tíma næstráðandi þýska ríkisins á eftir Adolf Hitler. Bróðir hans Albert Göring hefði varla getað verið ólíkari. Albert fyrirleit nasismann og barðist gegn honum bæði leynt og opinberlega. Með hjálp bróður síns bjargaði hann fjölmörgum gyðingum og öðrum fórnarlömbum úr klóm nasista.
Ólíkir bræður
Albert Günther Göring var fæddur árið 1895 í Berlín. Hann var yngstur fimm barna hjónanna Heinrich og Fanny Göring, en faðir hans átti fimm uppkomin börn úr fyrra hjónabandi. Heinrich starfaði sem lögfræðingur og diplómati fyrir Þýskaland víða um heim. Hann hafði t.a.m. verið landsstjóri Þýsku Suð-vestur Afríku sem í dag heitir Namibía. Í Afríku kynntist Heinrich hinum vellauðuga Herrmann von Epenstein, lækni sem var af gyðingaættum en þó kaþólikki sjálfur. Hann bauð Göring fjölskyldunni að búa hjá sér í kastala sínum í Veldenstein í Bæjaralandi.
En það sem Heinrich vissi kannski ekki var að eiginkona hans hélt við von Epenstein um áraraðir. Heinrich var mikið í burtu frá fjölskyldunni og þegar hann var til staðar var hann þunglyndur og afskiptalaus. Grunsemdir hafa vaknað um það að Albert Göring hafi verið sonur von Epensteins. Samkvæmt viðtali við dóttur Alberts, Elísabetu, þá hélt hann því víst sjálfur fram. En það er þó óstaðfest og skiptir kannski ekki miklu máli í stóra samhenginu en með tengslum sínum við von Epenstein kynntist Albert Göring efri stéttar lífi og blómlegri menningu bæði í Þýskalandi og í Austurríki þar sem fjölskyldan dvaldi einnig.
Næst yngsta barnið í fjölskyldunni var Hermann Göring, tveimur árum eldri en Albert. Hermann og Albert voru ákaflega ólíkir bæði í útliti og í fasi. Hermann var með blá augu og germanskt útlit en Albert með brún augu og dekkri á hörund. Hermann var uppreisnargjarn og gaslaralegur og kunni vel við sig í margmenni þar sem hann talaði yfirleitt hæst allra. Albert var hann ófélagslyndur, neikvæður og lét lítið fyrir sér fara. Hermann átti erfitt með bóknám en fann sig aftur á móti í hernum. Hann hóf feril sinn þar í fótgönguliðinu í fyrri heimsstyrjöldinni en flutti sig snemma yfir í flugherinn, þar sem hann var orrustuflugmaður.
Alla tíð var Hermann tengdur flugi og flughernum. Þegar Nasistaflokkurinn komst til valda árið 1933 var hann gerður að flugmálaráðherra og hélt þeirri stöðu allt til stríðsloka. Bóknám hentaði Albert Göring betur. Hann hafði engan áhuga á stjórnmálum eða hernum en var þó vitaskuld kvaddur í herinn í fyrri heimstyrjöldinni og starfaði þar sem skeytamaður. Eftir stríðið lærði hann verkfræði í Tækniháskóla München. Þrátt fyrir að vera eins ólíkir og þeir voru kom bræðrunum ágætlega saman í upphafi. En eftir að Hermann tók þátt í hinni misheppnuðu bjórkjallaruppreisn Hitlers árið 1923 versnaði samband bræðrana til muna og um margra ára skeið töluðust þeir lítið við.
Hið góða líf í Vín
Árin eftir bjórkjallarauppreisnina voru Hermanni Göring erfið. Hann hafði fengið skot í nárann í uppreisninni og ánetjaðist morfíni eftir sjúkraleguna. Illa haldinn af fíkn flakkaði hann um Evrópu þar sem hann var eftirlýstur í Þýskalandi. Um tíma var hann vistaður á geðsjúkrahúsi í Svíþjóð en fékk að snúa aftur heim til Þýskalands árið 1927 þegar honum voru gefnar upp sakir. Þetta var aftur á móti tíminn þar sem Albert blómstraði. Eftir útskrift úr háskóla vann hann fyrir Junckers og hannaði ýmis hitunartæki og ofna. Hann var svo fenginn til að selja vörur fyrir fyrirtækið víða um Evrópu. Best leið honum í Mið-Evrópu og þá sérstaklega fjölmenningarborgum eins og Vín, Prag og Búdapest. Í kringum 1930 höfðu nasistar náð aftur vopnum sínum og juku fylgi sitt með hverjum deginum.
Hermann stóð þétt við hlið Hitlers í þessari uppbyggingu sem lauk með valdatöku flokksins árið 1933. Albert fyrirleit nasismann og alla þá kúgun og ofbeldi sem fylgdi honum. Honum hugnaðist ekki þjóðernis eða kynþáttahyggja, í hans augum voru allar manneskjur jafn réttháar. Þegar nasistarnir tóku völdin í Þýskalandi flutti Albert til Vínarborgar. Þar stýrði hann kvikmyndaveri fyrir bræðurna Kurt og Oskar Pilzer sem voru gyðingar. Mikið af gyðingum og öðru „óæskilegu“ fólki úr þýska skemmtanaiðnaðinum flúði til Vínarborgar og fékk atvinnu þar. Albert kunni vel við sig í Vín og þeirri menningu sem borgin er fræg fyrir, svo vel reyndar að hann gerðist austurrískur ríkisborgari. Í eitt skipti gerðist það að Hermann Göring leitaði til bróður síns til að fá hjálp. Góð vinkona Emmy Göring, eiginkonu Hermanns, var gift gyðingi og hrökklaðist úr landi. Albert útvegaði henni kvikmyndahlutverk í Austurríki. Þetta var greiði sem Albert átti eftir að innheimta margoft til baka.
Þegar Austurríki var innlimað inn í Þýskaland árið 1938, í hinu svokallaða Anschluss, umturnaðist veröld Alberts og hann fór að berjast beint gegn ofbeldi og kúgunum nasismans. Á þessum tíma voru völd Hermanns meiri en nokkru sinni fyrr. Hann var óumdeilanlega næstráðandi í þriðja ríkinu á eftir sjálfum Adolf Hitler og Albert ákvað að nýta sér það til góðs. Annar vinnuveitandi hans Oskar Pilzer var handtekinn skömmu eftir Anschluss af Gestapo-mönnum. Albert hringdi í bróður sinn og Pilzer var strax látinn laus. Pilzer fjölskyldan komst að lokum til Bandaríkjanna fyrir tilstilli Alberts. Albert lét sér það þó ekki duga að bjarga nánustu vinum sínum. Við Anschluss var kanslari Austurríkis Kurt Schuschnigg handtekinn. Schuschnigg sem hafði barist hart fyrir sjálfstæði landsins var geymdur í einangrunarvist og hann pyndaður með ýmsum aðferðum. Albert sendi bróður sínum bréf um hvers lags hneisa þetta væri fyrir Þýskaland að koma svona fram við fráfarandi leiðtoga og hvort hann gæti ekki hjálpað honum. Í kjölfarið var Schuschnigg leystur úr einangrun og sendur í vinnubúðir í Sachenhausen.
Skoda og andspyrnuhreyfingin
Eftir Anschluss missti Albert Göring áhugan á að starfa fyrir kvikmyndaverið. Eftir að Pilzer bræðrum var bolað í burtu voru einungis áróðursmyndir fyrir Nasistaflokkinn framleiddar þar. Þá bauðst honum staða útflutningsstjóra hjá bíla og vélaframleiðandanum Skoda í Tékkóslóvakíu. Albert flutti þangað árið 1939 og má segja að andspyrnustarfsemi hans hafi hafist að alvöru. Tékkóslóvakía var hersetin af Þjóðverjum og verksmiðjur Skoda sáu um að afla þýska hernum vélarhluti. En í verksmiðjum Skoda störfuðu mikið af mönnum sem unnu á laun fyrir tékknesku andspyrnuhreyfinguna. Albert Göring vissi af þessu og aðstoðaði þá með ýmsum hætti, t.d. veitti hann upplýsingar, aðstoðaði og hvatti til skemmdarverka og hjálpaði handsömuðum andspyrnumönnum að sleppa úr haldi. Hann nýtti sér tengsl sín við bróður sinn og falsaði jafnvel undirskrift hans.
Það eru til margar sögur af hetjudáðum Alberts, þar sem hann setti sig jafnvel opinberlega í hættu. Frægasta atvikið var sennilega þegar hann hjálpaði nokkrum gyðingakonum sem voru neyddar af SS-liðum til að skrúbba gangstétt. Albert sá atvikið og hófst handa við að skrúbba með þeim. Þegar SS-liðarnir stöðvuðu hann og báðu um skilríki sýndi hann þeim að hann væri bróðir Hermanns. Alberti og konunum var í kjölfarið sleppt þar sem þeir vildu ekki niðurlægja hann og þar með Hermann sjálfan. Sams konar atvik átti sér stað í Vín þegar SS-liðar neyddu aldraða gyðingakonu til að sitja í búðarglugga með skilti um hálsinn sem á stóð „ég er skítugur gyðingur“. Albert leiddi konuna í burtu og SS-liðarnir þorðu ekki að stöðva hann. Hann bjargaði mörgum frá því að verða sendir í útrýmingarbúðir, hann kom fjölda fólks úr landi, keyrði þeim jafnvel sjálfur. Hann bjargaði líka eigum fólks sem höfðu verið gerðar upptækar og sendi gjaldeyri til fólks í gegnum svissneskan bankareikning sem hann átti.
Hann hjálpaði fólki úr útrýmingarbúðum t.d. með því að biðja um vinnuafl fyrir Skoda verksmiðjuna. Föngunum var síðan öllum sleppt lausum. Eftir að Reinhard Heydrich, landstjóri Tékkóslóvakíu, var myrtur af tékknesku andspyrnuhreyfingunni lét yfirmaður hans, Heinrich Himmler, sverfa til stáls og mikill fjöldi Tékka voru aflífaðir eða fangelsaðir. Albert bjargaði mörgum frá þessari hefnd Þjóðverja. Hann var handtekinn alls fjórum sinnum í stríðinu en alltaf kom Hermann honum til bjargar. Himmler, sem átti sjálfur í innri valdabaráttu við Hermann Göring, mislíkaði framferði Alberts sérstaklega en sá sér þó ekki fært að beita sér frekar gegn honum. Þó er ljóst að Albert var í eiginlegri lífshættu.
Það kann að koma á óvart hversu mikla þolinmæði Hermann hafði gagnvart bróður sínum. En samband þeirra var sérstakt. Þeir töluðust lítið við og hittust nær einungis á fjölskyldumótum. Albert var ekki viðstaddur skírn Eddu Göring, dóttur Hermanns, þar sem Adolf Hitler var guðfaðirinn. Þeir töluðu aldrei um stjórnmál og má vera að þeir hafi viljað vernda hvorn annan frá sannleikanum um gjörðir hvors annars. En þrátt fyrir þann mikla mun á afstöðu og gjörðum bræðranna þá kom þeim ágætlega saman. Það virðist einnig sem Hermann hafi verið hændari að Alberti en öfugt, sennilega vegna þess hversu mikill fjölskyldumaður hann var. Alberti mislíkaði gjörðir Hermanns ákaflega en hann þurfti á honum að halda, hann hefði aldrei getað hjálpað öllu þessu fólki án Hermanns. Hermann lét alla vita, bæði Gestapo-menn, SS-liða og aðra að fjölskyldu hans mætti ekki snerta.
Erfiðleikar eftir stríð
Þegar stríðinu lauk gáfu báðir Göring bræðurnir sig fram við hersveitir bandamanna. Hermann hafði fallið úr náð Hitlers og eyddi seinustu dögum stríðsins í stofufangelsi í kastala sínum í Austurríki. Hann var hæst setti liðsmaður Nasistaflokksins sem bandamenn handsömuðu og réttað var yfir honum í Nuremberg á árunum 1945 og 1946. Hann var dæmdur til dauða, m.a. fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni en framdi sjálfsvíg í klefa sínum rétt fyrir aftökuna. Albert var einnig yfirheyrður í Nuremberg og bandamenn sökuðu hann um að taka þátt í glæpum bróður síns.
En Albert lýsti gjörðum sínum í stríðinu, hvernig hann hefði aðstoðað andspyrnuhreyfinguna og hjálpað gyðingum og öðrum fórnarlömbum nasista. Hann skrifaði upp lista 34 helstu manna og kvenna sem hann hafði hjálpað, þar á meðal Oskar Pilzer og Kurt Schuschnigg. Saksóknarar trúðu þessu tæplega en það breyttist þó þegar fólk sem hann hafði hjálpað sendi vitnisburð um hetjudáðir hans til Nuremberg, þar á meðal Pilzer bræður sem þá bjuggu í Bandaríkjunum.
Saksóknarar urðu nú að taka mark á Alberti en þeir vildu þó ekki sleppa honum lausum. Hann var því framseldur árið 1947 til Tékkóslóvakíu þar sem hann var eftirlýstur. Þar var réttað yfir honum og hann hefði átt dauðadóminn vísan ef ekki hefði verið fyrir aðstoð þeirra sem hann hafði hjálpað í gegnum tíðina og þá sérstaklega andspyrnumanna úr verksmiðjum Skoda sem vitnuðu til um gjörðir Alberts. Hann var sýknaður af dómstól í Prag og var nú loks frjáls maður.
Þó að Albert hafi sloppið við fangelsis eða dauðadóm eftir stríð þá átti eftirnafnið Göring eftir að reynast honum erfitt allt til dauðadags. Margir nasistar og skyldmenni þeirra breyttu um nafn eftir stríð en þar sem hann var mikill hugsjónamaður fannst honum það aldrei koma til greina. Hann leit á það sem svik við föður sinn og ætt sína. Enginn vildi þó ráða mann með eftirnafnið Göring í vinnu eftir stríðið. Hann fékk einstaka verkefni sem þýðandi þangað til hann fékk loks fasta vinnu árið 1955 hjá byggingarfyrirtæki í München. Samstarfsmenn hans komust þó fljótt á snoðir um tengsl hans við Hermann og hótuðu að hætta allir sem einn. Albert var því látinn fara og hann bjó í fátækt í borginni seinustu ár ævi sinnar. Fáir vissu af hetjudáðum hans í stríðinu og hann þáði mataraðstoð frá þeim sem hann hafði hjálpað í gegnum tíðina. Albert Göring lést árið 1966.
Það var ekki fyrr en á tíunda áratug seinustu aldar, rúmum 30 árum eftir dauðadag Alberts að sagnfræðingar fóru að gefa honum gaum. Skrifaðar voru greinar, bækur og heimildarmyndir um hann og honum jafnvel líkt við hinn fræga Oscar Schindler. Breski sagnfræðingurinn William Hastings Burke hefur tekið mál Alberts sérstaklega að sér og reynt að koma honum á framfæri. Hann fór til Ísrael til þess að kynna málið og athuga hvort Albert kæmi til greina til að fá Yad Vashem orðuna, en það er heiður sem Ísraelsríki veitir þeim sem hættu lífi sínu til að hjálpa gyðingum í helförinni en voru ekki gyðingar sjálfir. Það er ennþá til skoðunar að veita Albert þennan heiður. [http://www.thejewishweek.com/news/new-york/will-yad-vashem-honor-goering] Irena Steinfeldt hjá Yad Vashem segir að það verði erfitt vegna þess hve langt er liðið frá atburðunum en viðurkennir þó að það myndi senda sterk skilaboð ef Ísraelsríki viðurkenndi „góðan Göring“. Illska er ekki meðfædd, hún er val. Talið er að þeir sem Albert Göring bjargaði úr klóm Nasista hafi skipt hundruðum.