Stórliðið Paris Saint-Germain hefur ekki tapað leik síðan í mars á síðasta ári. Ósigraðir í alls 34 leikjum sem er met í Frakklandi. PSG leiðir frönsku deildina með 24 stiga forystu og hefur náð slíkum yfirburðum að ekkert annað franskt lið er með tærnar þar sem það er með hælana. Stóra stundin er hinsvegar framundan: Í næstu viku tekur PSG á móti Chelsea í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Það ríkir mikil spenna og eftirvænting fyrir þennan leik. Gamli rígurinn milli Englendinga og Frakka tekur sig upp að nýju. Mikill viðbúnaður er hjá lögreglunni vegna ýmissa vandræða sem sköpuðust þegar liðin mættust á síðasta ári. Eða eins og aðalframherji liðsins, Zlatan, orðar það: Það er stríð framundan!
PSG – Chelsea
Liðin mætast á þriðjudaginn, 16. febrúar, í París og síðan aftur í Lundúnum, miðvikudaginn 9. mars. Á síðasta ári sló PSG Chelsea úr keppni með eftirminnilegu jafntefli á Stamford Bridge þar sem jöfnunarmörkin komu á lokamínútum leiksins. PSG voru einum manni færri eftir að Zlatan Ibrahimovic fékk að líta rauða spjaldið eftir að einungis hálftími var liðinn af leiknum.
Það er á ákveðinn hátt táknrænt að þessi tvö lið skuli eigast við í Meistaradeildinni. Bæði forrík og umdeild höfuðborgarlið sem hafa skapað sér miklar óvinsældir með miklum og dýrum leikmannakaupum. Fá lið hafa eytt jafn miklum peningum í leikmannakaup og PSG síðast liðin ár. Og það er ekkert lát á! Gert er ráð fyrir því liðið ætli að festa kaup á nýjum leikmönnum fyrir alls 300 milljónir evra á þessu ári. Kaupin á Angel di Maria frá Manchester United vöktu mikla athygli á síðasta ári, en svo virðist sem þau kaup hafi margborgað sig því Maria hefur verið allt í öllu síðan hann kom til PSG og virðist leggja upp flest mörk liðins; hann hefur hreinlega blómstrað í París. Þessa dagana eru margir leikmenn orðaðir við liðið: Eden Hazard, Pierre-Emerick Aubameyand og síðast en ekki síst Cristiano Ronaldo.
Laurent Blanc verður áfram þjálfari
Samningurinn við þjálfarann, Laurent Blanc, var nýlega framlengdur um tvö ár. Þar með gufuðu upp þær sögusagnir að José Mourinho væri á leið til Parísar. Enda vildu allir hafa Laurent Blanc áfram. Hvað annað? Þessi fimmtuga knattspyrnugoðsögn, sem er stundum kallaður forsetinn, þykir hafa náð einstökum árangri með Parísarliðinu. Blanc var þekktur sem útsjónarsamur varnarjaxl sem lék m.a. með Napoli, Barcelona, Manchester United og fleiri stórliðum á sínum yngri árum og fagnaði svo heimsmeistaratitli með Frökkum 1998. Síðan tóku við þjálfarastörf, hann stýrði m.a. franska landsliðinu til 2012 og kom liðinu í undanúrslit á EM 2012 eftir mikil hrakfallaár á undan. Hann byggði upp nýja kynslóð franska landsliðins þangað til að hann var ráðinn til PSG.
Eigendur liðsins, fjársterkir aðilar frá Katar, hafa eytt milljörðum í þetta lið, gerðu allt til þess að halda Blanc hjá PSG. Hann tók við liðinu 2013, af Carlo Ancelotti, og mun nú stýra liðinu allt fram til ársins 2018. „Það er mikil ábyrgð að stýra PSG; mikilvægast er að huga að framtíðinni. Ævintýrið heldur áfram. Ég er mjög ánægður hjá PSG og þakka traustið sem mér er sýnt.“
Eftir að hafa unnið allt sem hægt er að vinna í Frakklandi er markmiðið einfalt: Vinna Meistaradeildina. Það er krafa klúbbsins, eigandanna og ekki síst krafa Zlatans Ibrahimovic sem hefur aldrei unnið þann titil og hefur látið í veðri vaka að hann yfirgefi liðið – náist ekki það markmið. Undir stjórn Blanc hefur liðið unnið alla titla sem hægt er að vinna í Frakklandi, en aldrei komist lengra en í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Í bæði skiptin verið stöðvaðir af Barcelona. Það er alveg ljós hvað hann ætlar sér með liðið: „Leikmenn liðsins hafa sýnt það og sannað að þeir eru heimsklassaleikmenn sem geta sigrað hvaða lið sem er. Þetta er leikmenn sem vilja vinna titla. Stóra markmiðið er auðvitað að vinna Meistaradeildina. Þetta er afar erfið keppni en einn daginn mun PSG vinna Meistaradeildina.“
Vandræði með fótboltabullur
Heimavöllur PSG, Parc de Prince, var um árabil mikill vandræðastaður. Áhangendur liðsins voru þekktar bullur um allt Frakkland sem lögðu allt í rúst hvert sem þeir fóru. Eftir stór ofbeldismál, m.a. morðmál, var allt tekið í gegn, margir þekktir ofbeldisseggir voru settir í ævilangt bann og öll öryggismál á vellinu hert. Sömuleiðis, eins og víða annars staðar í fótboltaheiminum, var sett af að stað mikið átak til að uppræta kynþáttafordóma. Sama hefur raunar verið uppi á teningnum hjá Chelsea; ýmiskonar vandræði hafa fylgt liðinu.
Á síðasta ári þegar þessi lið mættust í París skapaðist mikið vandræðaástand eftir leik þegar stuðningsmenn Chelsea veittust að þeldökkum manni í neðanjarðarlest. Sungu og kölluðu ýmiskonar rasistabull. Eins og: „We’re racist, we’re racist and that’s the way we like it.”
Þetta atvik fór fyrir brjóstið á mörgum og var rannsakað af lögreglunni. Kynþáttafordómar eru bannaðir með lögum í Frakklandi og þetta er raunar í fyrsta og eina skiptið sem frönsk yfirvöld hafa þurft að skipta sér af erlendu fótboltaliði vegna kynþáttafordóma.
Enskar fótboltabullur hafa lengi haft slæmt orð á sér. Svona atvik gætu haft afar alvarlegar afleiðingar í för með sér, bæði fyrir sakamenn og sömuleiðis liðið sjálft. Knattspyrnusamband Evrópu íhugar nú að herða enn frekar reglurnar varðandi þessu mál. Því gætu svona atvik leitt til að áhofenda- og leikjabanns. Það er ekki langt síðan að John Terry, leikmaður Chelsea, var sektaður um 220.000 þúsund pund fyrir að kynþáttaníð. Stuðningsmenn Chelsea verða því undir sérstakri smásjá yfirvalda á þriðjudaginn kemur þegar liðin mætast í París.