Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði í gærkvöldi að hann ætli sér að tilnefna dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna til að taka sæti Antonin Scalia, sem lést á laugardag 79 ára aldri. Hann svaraði því ákalli úr herbúðum repúblikana um að það yrði eftirlátið næsta forseta Bandaríkjanna, sem tekur við embætti eftir eitt ár, að skipa næsta dómara við réttinn.
Um risastóra, og afdrifaríka, ákvörðun verður að ræða. Hæstiréttur Bandaríkjanna er gífurlega valdamikill og hefur mikil áhrif á þær línur sem dregnar eru í bandarísku samfélagi. Í réttinum sitja níu dómarar sem skipaðir eru til lífstíðar, eða þangað til að þeir ákveða sjálfir að hætta. Tímamótadómar réttarins falla oft þannig að fimm dómarar eru þeim fylgjandi en fjórir andsnúnir.
Í ljósi þess að gjá er á milli frjálslyndra viðhorfa demókrata og íhaldsamari viðhorfa repúblikana þá skiptir miklu máli hvor flokkurinn er við völd þegar skipa þarf nýjan dómara. Og hvort sá dómari túlki stjórnarskrá og lög landsins á íhaldssaman og bókstaflegan hátt eða hvort hann sé framsýnni og líti á stjórnarskránna sem dýnamíska og undirorpna túlkunum sem taki mið af samtímanum hverju sinni.
Obama hefur þegar skipað tvo hæstarréttardómara síðan að hann tók við embætti. Það kom mjög í ljós í fyrra, þegar Hæstirétturinn komst að þeirri niðurstöðu með fimm atkvæðum gegn fjórum, að samkynheigðir Bandaríkjamenn ættu rétt á því að giftast, hversu miklu máli það skiptir hvort skipaðir séu frjálslyndir eða íhaldsamir dómarar í réttinn. Báðir dómararnir sem Obama hefur skipað, þær Sonia Sotomayor og Elena Kagan, voru á meðal þeirra fimm sem greiddu atkvæði með hjónabandi samkynhneigðra.
Scalia var bæði hataður og virtur
Scalia var einn þeirra fjögurra sem var á móti þeirri ákvörðun. Hann var skipaður dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna af Ronald Reagan árið 1986. Þegar hann lést hafði Scalia setið lengst allra dómara í Hæstarétti Bandaríkjanna. Hann var fyrsti ítalski-Bandaríkjamaðurinn sem tók sæti í réttinum og vakti fljótlega athygli fyrir skoðanir sínar og ekki síður vilja sinn til þess að takast á um þær út á við. Scalia, sem var flugbeittur og eldklár, er talinn hafa veitt þeim sem hafa íhaldsamari stjórnmálaskoðanir og túlka stjórnarskrá landsins á þrengri hátt en margir aðrir mikið sjálfstraust með framgöngu sinni. Áhrif hans teygja sig því langt út fyrir setu hans í Hæstarétti.
Scalia var bókstafstrúarmaður á stjórnarskrá Bandaríkjanna. Þ.e. hann trúði því að hún ætti að standa eins og hún væri skrifuð en ekki túlkuð í samræmi við samtímann hverju sinni. Hann var andstæðingur fóstureyðinga, stóð gegn auknum réttindum samkynhneigðra sem hann taldi ekki samrýmast stjórnarskrá og var fylgjandi dauðarefsingu. Þá stóð hann líka vörð um rétt Bandaríkjamanna til að bera vopn.
Vegna harðrar afstöðu í þessum miklu deilumálum, sem snúa mörg hver að grundvallarmannréttindum, var Scalia beinlínis hataður af mörgum frjálslyndum Bandaríkjamönnum. En hann var einnig mjög virtur í mörgum kreðsum, bæði á meðal kollega sinna í lögmannastétt, í fræðasamfélaginu og á meðal frjálslyndari samstarfsmanna innan Hæstaréttar Bandaríkjanna sem höfðu framsæknari sýn á hvernig ætti að túlka lög og stjórnarskrá landsins en Scalia. Elena Kagan, sem Obama skipaði sem Hæstaréttardómara árið 2010 og þykir afar frjálslynd, og Scalia urðu til að mynda miklir vinir. Þau fóru meira að segja á veiðar saman, en Kagan hafði aldrei áður veitt með skotvopnum áður en hún kynntist Scalia.
Rétturinn til að eiga byssur tryggður
Frægasti dómurinn sem Scalia skrifaði, og var felldur með samþykki fimm hæstaréttardómara gegn andstöðu fjögurra, var í málinu District of Columbia gegn Heller og féll árið 2008. Þar komst rétturinn að þeirri niðurstöðu í fyrsta sinn að annar viðauka stjórnarskráar Bandaríkjanna veiti landsmönnum rétt til að eiga byssur án þess að sú eign sé tengd herþjónustu af einhverjum toga.
Síðasti dómurinn sem féll með Scalia innanborðs sem vakti mikla athygli féll í síðustu viku, þegar hömlur sem settar eru á í stefnu Obama í loftlagsmálum var úrskurðuð í andstöðu við stjórnarskrá.
Mun hafa áhrif á forsetakosningarnar
Þótt Obama hafi sagt að hann ætli sér að tilnefna næsta dómara við réttinn, og með því tryggja frjálslyndari armi hans stöðugan meirihluta í Hæstarétti, þá er alls ekkert víst að það takist hjá honum. Öldungardeild Bandaríkjaþings þarf nefnilega að samþykkja þann dómara sem er tilnefndur áður en hann getur tekið sæti í Hæstarétti. Þar eru repúblikanar með meirihluta og erfitt verður fyrir Obama að koma tilnefningu sinni í gegnum hana. Raunar gerðist það síðast árið 1895 að forseti demókrata tilnefndi dómara við Hæstarétt á sama tíma og repúblikanar voru með meirihluta í öldungardeildinni. Það er því ljóst að mikil barátta er framundan að koma tilnefningunni í gegn. Sérstaklega þar sem repúblikanar hafa þegar skorað á forsetann að eftirláta eftirmanni sínum ákvörðunina.
Andlát Scalia mun einnig hafa mikil áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Repúblikanamegin mun Ted Cruz, sem er mjög hægrisinnaður, líkast til hagnast mest á stöðunni sem upp er komin. Fréttaskýrendur í Bandaríkjunum segja að hann muni nú leggja mikla áherslu á að hann muni skipa mjög íhaldsaman aðila í réttinn til að standa vörð um ýmis grundvallargildi sem hann, og fylgismenn hans, telja að séu hornsteinn bandarísks samfélags.
Ótrúlegt en satt þá er einnig talið að Hillary Clinton gæti grætt á málinu. Hún hefur verið að tapa mörgum ungum konum úr stuðningsliði sínu yfir til Bernie Sanders vegna þess að henni hefur ekki tekist að sannfæra þær um að baráttan fyrir auknum rétti kvenna standi enn sem sem hæst. Í ljósi þess að breytingar á samsetningu Hæstaréttar geti breytt túlkunum hans á ýmsum grundvallarmannréttindum þá ætti skipan nýs dómara við réttinn að færa Clinton byr í seglin.