Þegar Bandaríkjamenn kjósa sér þjóðarleiðtoga fylgist heimsbyggðin með. Forseti Bandaríkjanna er líklega valdamesti maður heims, m.a. sem yfirmaður langöflugasta heraflans. Stóryrtar og öfgafullar yfirlýsingar mögulegra frambjóðenda um utanríkismál, sér í lagi Donalds Trump og Teds Cruise, vekja því upp ýmsar spurningar. Þar er eðlilegt að velta fyrir sér hvort fólk sem þannig talar sé hreinlega hæft til að gegna svo valdamiklu embætti.
Stóra spurningin er hvernig frambjóðendunum með slíkar hugmyndir reiðir af þegar þeir hafa tekið við embætti. Getur nýkjörinn forseti komið eins og stormsveipur og gjörbreytt utanríkisstefnu Bandaríkjanna eftir eigin geðþótta? Getur sitjandi forseti aukið völd embættisins, eins og t.d. núverandi forseti Íslands hefur mótað sitt embætti?
Staðan er ekki svo einföld að Bandaríkjaforseti, valdamikill sem hann er, sé einráður um bandaríska utanríkisstefnu. Stjórnkerfið er talsvert flókið og forsetinn þarf að hafa ríkt samráð við ýmsa aðila, mál þurfa t.d. að fara í gegnum tvær þingdeildir sem flokkur hans hefur ekkert endilega meirihluta í. Staða forsetans snýst því að einhverju leiti um stöðuga valdabaráttu og samninga við þingið. Stefna og ákvarðanir ráðast af því enda er embættið og stjórnkerfið í raun hugsað þannig í samræmi við stjórnarskrána.
Forsetinn sem einvaldskeisari
Þó virðist það vera tilhneiging hjá sitjandi forsetum að safna að sér völdum. Það á einnig við um Barack Obama sem hafði uppi yfirlýsingar um mikilvægi hins gagnstæða þegar hann sóttist eftir embætti. Hefur hugtakið Imperial Presidency verið notað þegar vald forsetans er farið að ógna því jafnvægi sem stjórnarskráin tilgreinir.
Bandaríkjaforseti getur t.a.m. styrkt verulega stöðu sína takist honum að selja almenningi þá hugmynd að ógnir séu yfirvofandi – ef ekki hrein og klár innrás, þá alla vega ógnir gagnvart vestrænum eða bandarískum gildum. Því má halda því fram að forseti sem situr á stríðstímum geti aukið vald sitt umtalsvert.
Dæmi um forseta sem einvaldskeisara eru frá valdatíð Lyndons B. Johnsons og Richards Nixons sem stóðu einmitt í ströngu í Víetnamstríðinu. Þá má segja að þingið hafi í raun einungis verið þeim til stuðnings og aðstoðar við að framfylgja stefnu forsetaembættisins í utanríkismálum. Þessu var ekki snúið við fyrr en í kjölfar afsagnar Nixons árið 1974.
Sagan endurtók sig að einhverju leyti í valdatíð Georges W. Bush í kjölfar atburðanna þann 11. september 2001. Þá færði hann ýmis mál í hendur forsetaembættisins á kostnað þingsins í krafti þjóðaröryggis. Hins vegar hefur verið bent á að Bush-stjórnin hafi bæði gefið út yfirlýsingar og haft tilburði í þá átt að færa til sín meira vald talsvert fyrir atburðina þann 11. september.
Væntanlegir frambjóðendur
Hvernig stefna væntanlegra frambjóðenda mun í raun líta út, skýrist væntanlega betur þegar úr því fæst skorið hver verður fyrir valinu sem forsetaefni flokkanna. Þá munu frambjóðendurnir væntanlega þurfa að draga talsvert í land með yfirlýsingarnar og leggja til grundvallar einhver haldbær rök. Slíkt þarf þó ekkert endilega að verða raunin og vitað mál að það virkar vel til að afla fylgis að ala á ótta og gera sem mest úr meintum óvinum Bandaríkjanna. Þetta munu frambjóðendurnir væntanlega gera, sérstaklega forsetaefni Repúblíkana.
Auðvelt er að kortleggja Hillary Clinton, hún var utanríkisráðherra í eitt kjörtímabil, auk þess sem hún var forsetafrú í tvö kjörtímabil. Hún gjörþekkir því aðstæður frá fyrstu hendi og veit hvað mætir nýkjörnum forseta. Það kann að draga úr óraunhæfum yfirlýsingum og um leið gera hana að þeim frambjóðanda sem flestir vita hvað muni standa fyrir.
Það má jafnframt gera ráð fyrir að Hillary yrði á svipaðri línu og Barack Obama nema væntanlega talsvert herskárri. Hún hefur stutt hernaðaraðgerðir sem Bandaríkjamenn hafa staðið í undanfarin ár, eins og innrásina í Írak og þegar Gaddafí var steypt af stóli í Líbýu. Einnig má gera ráð fyrir að Bandaríkjamenn væru komnir í meiri ógöngur í Sýrlandi ef hennar ráðum hefði verið fylgt.
Reynsla Hillary Clinton kann þó um leið að vera ákveðinn galli því hún er líkleg til að fylgja eftir hefðbundnum leiðum í utanríkismálum, sem Bandaríkjamenn eiga erfitt með að koma sér frá og sem hefur leitt þá í öngstræti. Þær leiðir byggja á því að Bandaríkin leiki forystuhlutverk í heiminum og séu ómissandi þegar leysa eigi úr þeim alþjóðlegu vandamálum sem upp komi.
Þegar kemur að utanríkismálum er Bernie Sanders hins vegar að mörgu leyti óskrifað blað. Kosningabarátta hans hefur að mestu snúist um baráttu gegn ofurvaldi fjármálakerfisins sem koma þurfi böndum á. Til að reyna að fá einhverja mynd af Sanders má benda á að hann var mótfallinn innrásinni í Írak á sínum tíma, en hefur hins vegar stutt stórverkefni í vígbúnaði Bandaríkjanna eins og hina umfangsmiklu og jafnframt umdeildu F-35 áætlun.
Repúblíkanar
Frambjóðendur í forvali Repúblíkanaflokksins eiga það flestir sameiginlegt að nýta sér hina þekktu óttaaðferð í baráttu sinni. Þeir reyna að telja fólki trú um að Bandaríkin séu búin að missa forystusætið í alþjóðasamfélaginu vegna veiklulegra stjórnarhátta Baracks Obama, sem hafi beinlínis eyðilagt Bandaríkin, m.a. með því að draga úr framlögum til hersins. Klifað er á allri þeirri hættu sem að Bandaríkjunum steðji, hvort sem það eru hryðjuverkamenn frá Mið-Austurlöndum, ógnandi ríki eins og Íran eða N-Kórea, eða bara nágrannar í Mexíkó.
Óhætt er að fullyrða að flest af því sem sagt er í þeirri umræðu er stórlega ýkt ef ekki beinlínis logið. Vissulega eru þar ákveðin vandamál í spilinu, Bandaríkin hafa orðið fyrir hryðjuverkaárásum og það er ekki sjálfgefið hvernig takast á við ógnvald eins og ÍSIS. Þær lausnir sem boðaðar eru af frambjóðendum Repúblíkana eru þó sjaldnast í neinu samræmi við raunveruleikann. Þær öfgafyllstu ógna stöðu Bandaríkjanna jafnvel enn meira, fyrir utan að ganga jafnvel í berhögg við stjórnarskrána.
Á það ber að líta að ekki er hægt að leggja að jöfnu yfirlýsingar frambjóðenda í kosningabaráttu, þar sem talað er til fólks innan flokkanna í kjöri til útnefningar, og það hvernig stefnan verður þegar á hólminn er komið. Það er t.d. ekki hægt að taka yfirlýsingar Donalds Trumps um byggingu múrs milli Bandaríkjanna og Mexíkó, eða að múslimum verði bannað að koma til landsins, alvarlega.
Keppni í djörfung og hug
Það virðist eins og það sé undirliggjandi krafa að forsetinn sýni ákveðni og styrk sem yfirmaður heraflans og því er þeim forseta vandi á höndum sem vill gæta hófsemi í utanríkismálum. Repúblíkanar gagnrýna Demókrata gjarnan fyrir að sýna linkind í utanríkismálum, sem verður til þess að til verður ákveðin samkeppni þar sem Demókratar sýna kjósendum sem annars myndu halla sér að Repúblíkönum að þeir geti nú líka verið herskáir. Þegar þessi vígamóður kemur saman við þá tilhneigingu forseta í embætti að auka völd sín, m.a. með tilvísun til þjóðaröryggis, er hætta á að útkoman verði slæm, ekki bara fyrir bandarísku þjóðina heldur heiminn allan.