Staða aðstoðarmanna ráðherra hefur verið í umræðunni á Íslandi undanfarið, líkt og reyndar gerist reglulega. Fyrir skömmu fjallaði Kjarninn um reynslu núverandi aðstoðarmanna ráðherra hér á landi og um helgina var viðtal við Sölku Margréti Sigurðardóttur, sem er aðstoðarmaður ráðherra í Bretlandi.
Aðstoðarmenn ráðherra á Íslandi teljast til pólitískra ráðgjafa eða pólitísks aðstoðarfólks í aðþjóðlegu samhengi. Þegar titlar þeirra eru þýddir yfir á ensku er enda iðulega talað um political advisor, pólitískan ráðgjafa. Samkvæmt athugun OECD frá árinu 2011, sem vitnað er til í fræðigrein Gests Páls Reynissonar og Ómars H. Kristmundssonar, sinna pólitískir ráðgjafar meðal annars ráðgjöf vegna stefnumála, almannatengslum og fjölmiðlasamskiptum, samskiptum við hagsmunaaðila og flokksmenn ráðherra. Það fer svo eftir reglum og hefðum á hverjum stað hvaða verkefni eru fyrirferðamest.
Kjarninn kannaði hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndunum Danmörku og Noregi.
Blaðamenn og stjórnmálafræðingar áberandi í Danmörku
Í Danmörku hafa ráðherrar sérstaka ráðgjafa, særlige rådgivere, sem eru fyrst og fremst pólitískir ráðgjafar. Að öðru leyti hefur ekki verið mikið um pólitískt starfslið í ráðuneytum þar. Flestir ráðherrar hafa einn ráðgjafa, en utanríkisráðherra hefur tvo, sem gerir samtals sautján ráðgjafa, samkvæmt samantektum danska stjórnarráðsins og fjölmiðilsins Altinget.dk. Þá hefur kirkju- og menningarmálaráðherrann Bertel Haarder ákveðið að vera ekki með aðstoðarmann.
Stjórnmálafræðingar og blaðamenn eru áberandi meðal aðstoðarmannanna, auk þess sem margir hafa starfað í stjórnmálum og fyrir stjórnmálaflokka. Þeir hafa líka margir verið sérlegir ráðgjafar ráðherra í fyrri ríkisstjórnum, og eiga því margir sameiginlegt að vera nokkuð reynslumiklir.
Jacob Bruun, ráðgjafi forsætisráðherra, er með tíu ára reynslu sem pólitískur ráðgjafi hjá Venstre og er stjórnmálafræðingur. Søren Møller Andersen, ráðgjafi fjármálaráðherra, hefur fjögurra ára reynslu sem pólitískur ráðgjafi, meðal annars hjá fyrrverandi fjármálaráðherra. Hann hefur einnig mikla reynslu í ráðuneytum og hefur starfað að upplýsinga- og fjölmiðlamálum fyrir fyrirtæki og fyrir Venstre.
Eini ráðherrann sem hefur tvo ráðgjafa er utanríkisráðherrann Kristian Jensen. Christopher Arzrouni, annar aðstoðarmannanna, er stjórnmálafræðingur og starfaði sem umræðuritstjóri hjá Børsen frá 2011 og þar til hann tók við starfi aðstoðarmanns. Hann hefur líka starfað fyrir ráðuneyti og verið aðstoðarmaður ráðherra áður, auk þess sem hann hefur starfað fyrir Venstre. Peter Høyer er menntaður blaðamaður og kom í ráðuneytið frá menntamálaráðuneytinu, þar sem hann var upplýsingafulltrúi. Hann var líka aðstoðarmaður skattamálaráðherra frá 2004 til 2011. Áður var hann almannatengill og ráðgjafi. Upplýsingar um aðra ráðgjafa má finna hér.
Ungur aldur vakti athygli í Noregi
Staða pólitísks ráðgjafa í norska stjórnarráðinu varð til úr tveimur störfum, annars vegar einkaritara og hins vegar aðstoðarmanns ráðherra. Árið 1992 var búin til staða pólitísks ráðgjafa í stað hinna tveggja starfanna. Þar tíðkast hins vegar að pólitískir aðstoðarráðherrar eða ráðuneytisstjórar séu í starfsliði ráðherra.
Ráðgjafarnir hjá norsku ríkisstjórninni eru nítján talsins, og eru allir pólitískir. Greint er frá því hvaða flokki þau tilheyra á vefsíðum ráðuneyta. Margir aðstoðarmannanna hafa auk þess fyrri reynslu af pólitískri ráðgjöf, en segja má að ungir og reynslumeiri aðstoðarmenn séu í bland í hópnum.
Erna Solberg forsætisráðherra hefur tvo pólitíska ráðgjafa, Hans Christian Kaurin Hansson og Benedicte Staalesen Nilsen sem er í hlutastarfi í forsætisráðuneytinu og hinn hlutann í utanríkisráðuneytinu. Hins vegar eru sjö pólitískir aðstoðarráðherrar, eða ráðuneytisstjórar, einnig í ráðgjafarteymi forsætisráðherrans. Hansson tók við starfinu í fyrra eftir að hinn ungi Rolf Erik Tvedten hætti, en aldur Tvedten hafði vakið athygli þegar hann var ráðinn til aðstoðar við Solberg eftir kosningar. Hann var m.a. kallaður undrabarnið hennar.
Hansson hafði starfað um stutta hríð í samskiptamálum fyrir Hægriflokkinn áður en hann var ráðinn aðstoðarmaður. Hann var áður blaðamaður um margra ára skeið, lengst af hjá VG.
Siv Jensen fjármálaráðherra er með fjóra aðstoðarráðherra og einn aðstoðarmann í sínu ráðuneyti. Petter Kvinge Tvedt er aðstoðarmaður hennar en hann hafði verið pólitískur ráðgjafi á ýmsum sviðum í borgarstjórn Bergen í átta ár áður en hann fluttist í fjármálaráðuneytið. Hann hefur starfað fyrir Framfaraflokkinn og hefur setið í bæjarstjórn fyrir flokkinn.
Í utanríkisráðuneytinu eru tveir ráðherrar. Børge Brende er utanríkisráðherra og Elisabeth Aspaker er ráðherra EES og Evrópusambandsmála. Þau hafa þrjá undirráðherra og svo sitt hvorn pólitíska ráðgjafann. Benedicte Staalesen Nilsen hefur starfað sem ráðgjafi borgarstjóra í Stavanger og einnig sem ráðgjafi hjá Statoil og Nordic Energy Research auk þess sem hún hafði verið starfsnemi í sendiráðinu í London. Hún hefur bæði BA og meistaragráðu í evrópskum fræðum. Peder Weidemann Egseth hafði líka verið ráðgjafi innan Hægriflokksins og starfað hjá Danske bank áður en hann tók við starfi aðstoðarmanns.
Pólitískt starfslið mjög lítið á Íslandi
Pólitísk forysta í ráðuneytum er ólík eftir löndum. Víða annars staðar en á Íslandi tíðkast að hafa aðstoðarráðherra, sem eru pólitískir, pólitíska ráðgjafa eða aðstoðarmenn og pólitíska ráðuneytisstjóra. Á Íslandi er pólitískt starfslið ráðherra mjög lítið í samanburðinum.
Í Svíþjóð og Noregi eru pólitískir ráðuneytisstjórar, eða aðstoðarráðherrar, sem eru skipaðir af forsætisráðherra. Í Noregi eru einnig embættismenn sem fara með stjórn ráðuneytanna, en í Svíþjóð eru þessir aðstoðarráðherrar með stöðu svipaða ráðuneytisstjórar á Íslandi og í Danmörku. Þetta kemur fram í grein Ómars H. Kristmundssonar prófessors um bakgrunn aðstoðarmanna.