„Ógnin sem stendur af öfgahægrihópum fer vaxandi. Þeim fjölgar sem aðhyllast hugmyndafræðina, án þess þó að tilheyra skipulögðum hópum öfgahægrimanna. Ástæðan fyrir aukningunni er umræðan um vaxandi fjölda flóttamanna og hælisleitenda.”
Þetta er kalt mat norsku öryggislögreglunnar PST þegar nýtt hættumat var gefið út fyrir skemmstu. - Hröð fjölgun í hópnum Hermenn Óðins þessa dagana rennir stoðum undir matið.
„Fjölgun öfgahægrimanna eykur einnig líkurnar á ofbeldisaðgerðum”, bætir PST við. „Líkur eru á að reynt verði að kveikja í eða eyðileggja athvörf hælisleitenda á annan hátt.” Þetta hefur þegar komið fyrir í Noregi og oftar en einu sinni í Svíþjóð.
Þetta er í fyrsta skipti sem formlegt, árlegt hættumat öryggislögreglu á Norðurlöndum hefur varað við aukinni hættu vegna öfgahægrimanna, með beinni vísan í aukinn flóttamannastraum, eftir því sem Kjarninn kemst næst.
Soldiers of Odin
Eftir því sem sólin sökk lengra niður fyrir sjóndeildarbauginn síðasta haust fóru að berast fréttir frá Finnlandi af fólki í svörtum hettupeysum merktum Soldiers of Odin. Svartklædda fólkið gerði sosum ekkert af sér, sagði það, gekk bara um göturnar og passaði að þessi innflytjendaskríll væri ekki að nauðga og drepa eins og þeir gera hvar sem þeir koma. Eða eitthvað á þá leið. Blótsyrði og skoðanir í boði þeirra, ekki mín.
Álíka hópar hafa nú skotið rótum í fleiri Evrópulöndum, þar á meðal í Noregi, þar sem hóparnir spretta upp eins og gorkúlur. Um þarseinustu helgi gengu Óðinsmenn um götur Tønsberg, í fyrsta skipti sem hópurinn sýnir sig á götum Noregs. „Sérð þú ekki að ólöglegir innflytjendur standa í skipulagðri glæpastarfsemi, selja eiturlyf og káfa á norskum konum?” svarar forsprakkinn Ronny Alte blaðamanni norska blaðsins VG á næturröltinu.
„Þá þarf nú fyrst að senda Svíana úr landi”, kallaði fullorðinn maður sem stóð og fylgdist með hópnum, viðstöddum til nokkurrar kátínu. Í þó nokkur ár hafa ungir Svíar í atvinnuleit verið einn stærsti innflytjendahópurinn í Noregi.
Og svo Loldiers of Odin
Hermenn Óðins eru eitt heitasta umræðuefnið í norskum stjórnmálum þessa dagana. Eftir að þeir gengu um götur Stafangurs á laugardagskvöldið var, kærði borgarstjórnarfulltrúi þá til lögreglu, fyrir að taka að sér opinbert vald sem þeir ekki hafa.
Af hinum væng stjórnmálanna hefur hópurinn fengið skýran stuðning frá Jan Arild Ellingsen, dómsmálatalsmanni Framfaraflokksins Frp, sem er lengst til hægri í norskum stjórnmálum. Þetta er ekki í fyrsta skipti og eflaust ekki í síðasta sem reynir á þanþol ríkisstjórnarsamstarfsins. Erna Solberg forsætisráðherra sá sig tilneydda að undirstrika að þetta frumhlaup samstarfsflokksins væri ekki í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar.
En besta svarið við Óðinsmönnunum kom upp í Finnlandi fyrr í vetur. Það er andstæður hópur, sem mætir svörtu hettupeysunum með furðubúningum og trúðslátum. Sá hópur, Loldiers of Odin, reynir að drepa niður boðskap Óðinsmanna með því að gera grín að að þeim. Þeir sem eru ekki búnir að sjá myndband af útkomunni á Facebook nú þegar ættu að gera það hið snarasta.
Mótast af forsögunni
Það er ekki skrýtið að það skuli einmitt vera norska öryggislögreglan sem varar fyrst við aukinni hættu. Flest eiga löndin eiga sinn ellefta september, þ.e. eina eða fleiri árásir sem móta hættumat þjóðarinnar. Skotrásirnar í Kaupmannahöfn fyrir ári síðan og misheppnuð sprengjuárás í Stokkhólmi árið 2010 voru á ábyrgð öfgafullra íslamista. En í Noregi lærðu menn árið 2011 að vera á varðbergi gagnvart fleiri hættum.
Velflestir Norðmenn, og án efa hver einasti meðlimur öryggislögreglunnar, muna eflaust eftir tilfinningunni þegar ljóst varð að árásarmaðurinn í Osló og á Útey væri ekki múslimi, heldur þvert á móti. Að hann væri ljóshærður, kristinn, öfgahægrisinnaður Norðmaður, uppalinn í ríkmannabænum Bærum í útkanti Oslóar.
Um áraraðir óðu nýnasistahópar uppi í Noregi, með ofbeldi og hótunum gegn fólk sem hafði annan húðlit en hvítan. Fyrir fimmtán árum urðu hins vegar þáttaskil, þegar tveir menn réðust að hinum hálfnorska, hálfganverska Benjamin Hermansen og réðu honum bana með hnífi í úthverfi Oslóar. Morðingjarnir voru meðlimir í nýnasistahópi. Við réttarhöldin þótti hafið yfir allan vafa að morðingjarnir hafi ráðist á Benjamin eingöngu vegna húðlitar hans.
Morðið leiddi af sér mikil mótmæli og vitundarvakningu gegn rasisma og nýnasisma í Noregi. 40.000 manns tóku þátt í mótmælagöngu í miðborg Oslóar eftir morðið, til að mótmæla rasisma og nýnasisma. Spurningin sem nú vaknar, er sú hvort rasistarnir hafi virkilega látið af skoðunum sínum, eða hvort þeir hafi bara farið í felur og eygi nú sóknarfæri á ný.
“Godhetstyranniet” – þöggun hinna rétthugsandi
Þeir sem vilja halda útlendingum utan Noregs eiga sér kröftugan málsvara í hinni orðhvössu Sylvi Listhaug. Hún er rísandi stjarna innan Framfaraflokksins, sem liggur lengst til hægri í norskum stjórnmálum. Dagbladet skrifar: „hún passar inn í lýsinguna á amerískum erkirepúblikana, nema í Noregi.”
Hún er höfundurinn að orðinu godhetstyranniet á norskri tungu. Hún er þeirrar skoðunar að sá hluti þjóðfélagsins sem vill strangari innflytjendalöggjöf sé stimplað vont fólk, af hinum pólitískt réttþenkjandi, sem upphefji sjálfa sig sem hina góðu. Góðmennskan sé komin út í þvílíkar öfgar að “hinir góðu” minni mest á einræðisherra sem vilja þagga niður skoðanir hinna sem hafa efasemdir um skynsemi óhindraðra fólksflutninga.
“Godhetstyranniet tröllríður Noregi”, sagði hún í viðtali við NRK í nóvember síðastliðnum, þegar gagnrýnendur hökkuðu í sig tillögur ríkisstjórnarinnar að hertri innflytjendalöggjöf. Nokkrum vikum síðar tók hún við embætti ráðherra innflytjendamála!
Fleiri Norðmenn eru henni sammála um að þöggun efasemdaraddanna sé yfirdrifin. Hin 20 ára Mina Gjerde er eitt dæmi. Hún segist hafa verið stimpluð sem rasisti, eftir lesendabréf í haust um að þorpið hennar, Bolkesjø, væri ef til vill ekki í stakk búið til að taka á móti 680 hælisleitendum á hótelið í bænum. 40 manns bjuggu fyrir í bænum.
Nýjar hugmyndir um flóttamannapólitík
Orðræðan í Noregi, og víðar, ber þess merki að hugmyndir um hertar takmarkanir á fólksflutningum eru að verða meira “mainstream”. Það eru ekki bara öfgahægrimenn sem finnst kerfið búið að sprengja þanþolið.
Hugmyndir um róttæka endurskipulagningu flóttamannakerfisins eru nú settar fram í fullri alvöru, af aðilum sem sitja nærri kjötkötlunum. Hugveitan Civita, sem er nátengd Høyre, flokki Ernu Solberg forsætisráðherra, birti í árslok 2015 tillögur sem ganga í raun út á að hugmyndinni um pólitískt hæli verði skipt út fyrir fleiri kvótaflóttamenn:
Hæliskerfið virkar ekki og þarfnast endurnýjunar. Status quo getur ekki haldið áfram. Við þurfum heildstæða flóttamannapólitík sem kemur fleiri flóttamönnum til góða, á sama tíma sem maður takmarkar vandamál sem tengjast ótakmörkuðum fólksflutningum. Móttaka flóttamanna ætti að byggja í stærra mæli á kvótakerfi S.þ. og í minna mæli á tilviljanakenndum fólksflutningum og hælisumsóknum við ytri landamæri Schengen-svæðisins.”
Forstjóri norsku útlendingastofnunarinnar viðraði svipaðar hugmyndir á bloggi stofnunarinnar. Þar ýjaði hann að því að núverandi flóttamannasáttmálar, og þá sérstaklega ákvæðin um pólitískt hæli, hefðu misst marks. Annað kerfi myndi vera réttlátara og einfaldara í framkvæmd.
Og nú hafa ungliðar Høyre tekið hugmyndina upp á sína arma. Þeir hvetja móðurflokkinn til að beita sér fyrir endalokum hælishugmyndarinnar, loka á komu hælisleitenda og taka í staðinn inn fleiri kvótaflóttamenn.
Það er augljóst að Norðmenn eru bundnir af alþjóðasáttmálum, sem þeir breyta ekki upp á sitt einsdæmi. Hitt er annað mál, að ef pólitískur vilji er fyrir hendi, þá geta Norðmenn beitt sér innan Sameinuðu þjóðanna. Þar hafa þeir mun meiri áhrif en stærð ríkisins og fólksfjöldi segir til um.
Þegar svona sterkar raddir eru farnar að hafa
orð á kerfisbreytingum, þá verður ekki hjá því komist að taka umræðuna. Það er
vel. Allt er betra en þöggun.