Aðfararnótt næstkomandi mánudags verða óskarsverðlaunin veitt og kvikmyndaárið 2015 þar með gert upp. Árið hefur verið einstaklega gott á flestum sviðum líkt og árið 2014 og má segja að kvikmyndagerð sé að rísa úr öskustónni eftir mörg mögur ár þar áður. Lítum á rjómann af bíóárinu 2015.
10. Grandma
Grandma er með snjöllustu gamanmyndum seinustu ára. Myndin fjallar um unglingsstúlkuna Sage og ömmu hennar sem rúnta um í leit að 630 dollurum svo hin fyrrnefnda komist í fóstureyðingu. Hún er stutt og gerð fyrir lítinn pening en segir þó heilmikla sögu. Þetta er mynd sem fjallar í raun um þrjár kynslóðir kvenna og þrjár mjög ólíkar týpur. Sage er sjálfhverfur unglingur sem hugsar lítið um framtíðina og reiðir sig alfarið á aðra. Móðir hennar er dæmigerð framakona, ákveðin og hvöss. Amman er svo fyrrum hippi og feminískur fræðimaður með kjark á við hnefaleikamann. Á ferð þeirra í leit að peningunum hitta þær margar skrautlegar persónur en engin þeirra er þó skrautlegri en amman sjálf sem leikin er óaðfinnanlega af Lily Tomlin. Myndin fjallar að miklu leyti um kvenréttindi og fóstureyðingar en samkynhneigð er einnig mikilvægt þema í henni. Tomlin, sem er samkynhneigð sjálf, hefur einmitt verið virk í baráttu samkynhneigðra í gegnum tíðina. En þó að viðfangsefni myndarinnar séu þung og mikilvæg þá er Grandma fyrst og fremst gamanmynd og kjánaskapurinn aldrei langt undan.
9. Le Tout Nouveau Testament
Glænýja testamentið er belgísk mynd þar sem ímyndunaraflið fær að leika lausum hala. Myndin fjallar um Eu sem er dóttir guðs almáttugs og býr með honum og móður sinni (sem er ekki nefnd á nafn) í annarri vídd. Ea er einungis barn að aldri og ekki mikils metin á heimilinu enda hafði hitt barnið (Jésú Kristur) einungis skapað vandamál fyrir guð. Myndin kann að stuða marga þar sem sjálfur guð er settur fram sem hálfgerður skíthæll. Hann er ofbeldisfullur keðjureykingarmaður sem kemur illa fram við fjölskyldu sína og jafnvel verr fram við gjörvallt mannkynið. Ea ákveður því að hrista upp í veröldinni með því að senda öllum jarðarbúum SMS með áætluðum dánardegi þeirra. Svo flýr hún til jarðar í gegnum þvottavél til að finna nýja lærisveina og skrifa glænýtt guðspjall. Eðlilegt, ekki satt? Myndin er vissulega frumleg en þrátt fyrir atburðarrásina verður hún aldrei óskiljanleg. Handritið er gott og leikararnir afbragð, sérstaklega franska stórleikkonan Catherine Denevue sem leikur einn af lærisveinum Eu (….og er ástfangin af górilluapa). Myndin er einnig algert augnakonfekt. Hún er litrík, falleg, vel tekin og ákaflega skemmtilega klippt.
8. Sicario
Sicario er spennumynd af bestu sort sem gerist í miðju eiturlyfjastríðinu á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Sagan er séð frá sjónarhorni hinnar ungu lögreglukonu Kate Macer sem starfar fyrir alríkislögregluna í Arizona en er fengin til þess að fara í sérverkefni með leyniþjónustunni CIA yfir landamærin til Mexíkó. Ástandið er hrikalega í mexíkósku borginni Juárez, rétt sunnan við Texas, sem virkar á mann eins og hersetin borg. Hrottaskapur er stundaður af bæði eiturlyfjahringjunum og lögreglunni og lagabókstafurinn er að engu hafður. Leikkonan Emily Blunt stendur sig með prýði sem Macer en bestu frammistöðu myndarinnar á Benicio Del Toro sem virðist loksins kominn aftur í sitt besta form. Drungalegt og þrúgandi andrúmsloft einkennir myndina ásamt löngum spennuþrungnum atriðum. Þetta andrúmsloft er magnað upp með frábærri tónlist Jóhanns Jóhannssonar sem er tilnefndur til óskarsverðlauna annað árið í röð. Annars lagið eru sýnd atriði sem fjalla um mexíkóska lögreglumanninn Silvio, sem vinnur á laun fyrir eiturlyfjahring, og fjölskyldu hans. Þessi atriði virðast í fyrstu alls ótengd söguþræði myndarinnar en þau gefa henni mannlegan tón.
7. Going Clear: Scientology and the Prison of Belief
Alex Gibney er einn besti heimildarmyndagerðarmaður samtímans. Hann hefur á seinasta áratug gert myndir á borð við Enron: The Smartest Guys in the Room, Taxi to the Dark Side og Client 9: The Rise and Fall of Eliot Spitzer. Í Going Clear skyggnist hann inn í heim hinnar umdeildu vísindakirkju. Það er farið yfir sögu kirkjunnar frá upphafi og einblínt á tvo mikilvægustu mennina sem hafa verið tengdir henni. Annars vegar stofnandann L. Ron Hubbard sem þekktur var fyrir að skrifa lélegan vísindaskáldskap og að vera úr tengslum við raunveruleikann. Hins vegar núverandi leiðtogann, David Miscavige , sem breytti illa stæðum og lítilmegnugum sértrúarsöfnuði í fjármálaveldi sem hefur veruleg ítök í samfélaginu þrátt fyrir tiltölulega fáa safnaðarmeðlimi. Í myndinni fær maður að fylgjast með hvernig sértrúarsöfnuðir ná taki á meðlimum sínum og hvernig sálfræðin á bak við þá virka. Myndin er að miklu leyti byggð upp á viðtölum við fyrrum safnaðarmeðlimi sem sluppu úr kirkjunni. Þeir hafa þurft að sæta ofsóknum og hótunum af hálfu kirkjunnar og hafa misst tengsl við fjölskyldumeðlimi og vini sem ennþá eru virkir. Það kemur því ekki á óvart að vísindakirkjan hefur beytt sér af hörku gegn dreifingu myndarinnar.
6. The Big Short
The Big Short er gamanmynd byggð á samnefndri metsölubók hagfræðingsins Michael Lewis. Handrit myndarinnar eru í raun þrjár samhangandi sögur sem fjalla allar um sama hlutinn, fasteignabóluna á mánuðunum og árunum fyrir hrunið 2008. Myndin er einnig sannsöguleg eða að minnsta kosti að einhverju leyti byggð á alvöru fólki, fyrirtækjum og atburðum. Sögurnar þrjár fjalla allar um menn sem sáu hvað var í vændum og tóku stöðu gegn fasteignamarkaðinum, þ.e. veðjuðu á að markaðurinn myndi á endanum hrynja. Munurinn á sögunum felst því aðallega í peningamagninu sem mennirnir hafa til umráða. The Big Short sýnir glöggt sturlunina og meðvirknina sem átti sér stað á þessum tíma og fyrirlitning kvikmyndargerðarmannana á öllu fjármálakerfinu leynir sér ekki. Það fólk sem tók þátt í hrunadansinum er sýnt sem heimskt, hrokafullt, hégómafullt og montið. Engu að síður virðast aðalpersónur myndarinnar heyja óvinnanlegt stríð gegn kerfinu. Myndin hefur súran undirtón en er þó bráðfyndin. Hún skartar einnig einvala liði leikara á borð við Brad Pitt, Ryan Gosling og Christian Bale. Það er þó gamanleikarinn Steve Carell sem skarar algjörlega fram úr, hann virðist vera á barmi taugaáfalls alla myndina.
5. Room
Kanadíska myndin Room hefur komið mörgum á óvart í ár. Hún er byggð á samnefndri skáldsögu eftir írska rithöfundinn Emmu Donoghue sem fékk hugmyndina eftir að hafa fylgst með hinu hryllilega máli mannræningjans Josefs Fritzl í Austurríki. Room fjallar um Joy, unga konu sem hefur verið læst inni í mörg ár með syni sínum Jack í kofa sem þau kalla “herbergið” og mannræninginn er faðir drengsins. Hún hefur gert margar tilraunir til þess að sleppa úr prísundinni og leyfir mannræningjanum ekki að koma nálægt Jack. Það sem er athyglisverðast við kvikmyndina er sálfræðin á bak við hana. Bæði hvernig Joy bregst við því að vera tekin úr blóma lífsins og haldið í ánauð og hvernig Jack upplifir veröld sína sem er einungis örfáir fermetrar að flatarmáli. Myndin er að vissu leyti heillandi en hún vekur einnig hjá manni verulegan óhug. Fyrir utan söguna sjálfa er helsti styrkur myndarinnar leikurinn. Brie Larson sem fer með hlutverk Joy er ákaflega sannfærandi og hefur bæði unnið Golden Globe og BAFTA verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki. Hún þykir langsigurstranglegust til að hreppa óskarsstyttuna. En hinn ungi Jacob Tremblay sem fer með hlutverk Jacks á ekki síður heiður skilin. Það er ekki oft sem maður sér barn leika svona vel.
4. Krigen
Danska kvikmyndin Krigen (Stríðið) fjallar um danska liðsforingjann Claus M. Pedersen sem stýrir herdeild í suðurhluta Afghanistan. Þema myndarinnar er fyrst og fremst ábyrgð hermanna í stríðsátökum og gerist myndin bæði á vígstöðvunum í Afghanistan og í réttarsal í Danmörku. Pedersen lendir í vanda þegar hann tekur ranga ákvörðun í miðjum bardaga. Ýmsum siðferðilegum spurningum er varpað fram í myndinni og ekkert virðist algerlega svart eða hvítt. Til að mynda veltir maður því fyrir sér hvort að dómstólar séu yfir höfuð færir um að skera úr um mál sem koma upp í stríðsátökum. Að auki er fylgst með fjölskyldu Pedersens og hvaða áhrif fjarvera hans og lífshætta hefur á hana. Pedersen er lystilega leikinn af Pilou Asbæk sem er Íslendingum að góðu kunnur úr sjónvarpsþáttum á borð við Forbrydelsen, Borgen og 1864. Krigen var ein af þeim kvikmyndum sem sýnd var á RIFF-hátíðinni nú í haust þar sem sérstök áhersla var lögð á danska kvikmyndagerð. Myndin er einnig tilnefnd til óskarsverðlauna nú í ár sem besta kvikmyndin á erlendu tungumáli.
3. The Walk
Þann 6.ágúst árið 1974 laumuðust hinn franski Philippe Petit og samverkamenn hans upp á efstu hæðir tvíburaturnanna svokölluðu í New York sem þá voru nýbyggðir og ekki opnaðir. Þeir strengdu vír á milli turnanna um nóttina og um morguninn gekk Petit á milli turnanna án öryggiskapals í um 400 metra hæð yfir malbikinu. Þessu afreki (eða fífldirfsku) var gerð góð skil í heimildarmyndinni Man on a Wire sem kom út árið 2008 og hlaut sú mynd óskarsverðlaun það árið. The Walk er leikin mynd um gönguferðina frægu og þykir nokkuð sögulega rétt enda var Petit sjálfur þáttakandi í gerð hennar. Hann þjálfaði aðalleikarann Joseph Gordon-Levitt í að ganga á vír en hefði reyndar mátt taka hann í talþjálfun líka því að franski hreimurinn er hreint út sagt skelfilegur. Myndin hefur langan aðdraganda þar sem þjálfun og undirbúningur Petits er sýndur og maður getur hreinlega ekki beðið eftir göngunni sjálfri. Gangan sjálf er svo hreinn kvikmyndagaldur þar sem maður heldur niður í sér andandum og getur vart blikkað augum. Myndin var sérstaklega gerð fyrir þrívíddar og IMAX áhorf og fregnir hafa borist af því að víða hafi fólk kastað upp í bíósölum. The Walk er ekki bara hefðbundin kvikmynd um sögulegt afrek, að horfa á hana er reynsla.
2. Mad Max: Fury Road
Fury Road er fjórða innleggið í áströlsku seríunni Mad Max en fyrstu þrjár myndirnar komu út á árunum 1979-1985 og skörtuðu Mel Gibson sem hinum brjálaða Max. Myndin gerist í áströlsku eyðimörkinni í hörmulegri framtíð þar sem fólk lifir við ánauð og skort og vatn er verðmætasta auðlindin sem til er. Söguþráður myndarinnar er ekki flókinn, hún fjallar um herforingjann Furiosu, sem leikin er af Charlize Theron, sem stelur eiginkonum stríðsherrans Eilífa Joe til þess að frelsa þær. Furiosa flýr með þær á brynvörðum vörubíl en Joe og bandamenn hans elta. Hinn brjálaði Max, nú leikinn af Tom Hardy, flækist svo inn í eltingaleikinn. Myndin er hörkuspennandi frá fyrstu mínútu og áhorfendur hafa fá augnablik til að ná andanum. En helsti styrkur myndarinnar er hversu glæsileg hún er. Leikmyndin, búningarnir, förðunin, kvikmyndatakan og fleiri þættir eru óaðfinnanlegir og ákaflega frumlegir. Myndin tekur það útlit sem var skapað í annarri og þriðju myndinni og færir það upp á annað plan. Jafnvel hræðilegur ljótleiki verður augnakonfekt í Fury Road.
1. The Revenant
Mexíkóski leikstjórinn Alejandro González Inárritu var sigurvegari seinustu óskarsverðlauna þegar mynd hans Birdman var valin besta myndin og hann besti leikstjórinn. Inárritu er nú aftur líklegastur til að vinna tvennuna fyrir The Revenant sem er mun betri kvikmynd. Einnig þykir stórleikarinn Leonardo DiCaprio líklegastur til að verða valinn besti leikarinn en hann hefur 5 sinnum áður verið tilnefndur sem leikari en aldrei unnið. The Revenant er byggð á óförum felddýraveiðimannsins Hugh Glass snemma á 19. öld sem var skilinn eftir af félögum sínum í óbyggðum Montana eftir bjarnarárás. Myndin er dimm og harðneskjuleg og líkt og í Birdman einkennist hún af löngum samfelldum tökum. Kvikmyndatakan sem hinn margverðlaunaði Emmanuel Lubezki stýrði er einmitt einn helsti styrkur myndarinnar. Myndin hefur tvö megin þemu. Annars vegar er það viljinn til þess að lifa af og þar koma hæfileikar DiCaprio best í ljós þar sem hann túlkar raunir Glass af stakri snilld, mestmegnis án þess að segja stakt orð. Hins vegar er það hefndin eins og titill myndarinnar gefur til kynna. Þar koma hæfileikar leikarans Tom Hardy, sem fer með hlutverk illmennisins, bersýnilega í ljós. Hardy fékk einnig tilnefningu til óskarsverðlauna sem kom mörgum á óvart en er engu að síður verðskuldað.