Ekki eru haldbærar ástæður til að ætla að hvalveiðar
Íslendinga muni hafa meiri áhrif á samskipti Íslands við önnur ríki en verið
hefur fram að þessu. Hins vegar má draga þá ályktun að að seint skapist sátt um
hvalveiðar Íslendinga á alþjóðavettvangi miðað við óbreytt ástand. Þetta er
meðal þess sem kemur fram í skýrslu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra
um áhrif hvalveiða á samskipti Íslands og annarra ríkja sem birt var í dag. Skýrslan var unnin að
beiðni Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, og annarra
þingmanna stjórnarandstöðuflokka. Beiðnin var lögð fram í október í fyrra.
Í skýrslunni segir einnig að ekki sé „loku fyrir það skotið að með því að draga saman í veiðum á stórhvelum náist aukin sátt um stefnu Íslendinga í þessum málaflokki á alþjóðavettvangi á yfirstandandi kvótatímabili. Þá má ætla að efnahagslegar forsendur og aðgangur að erlendum mörkuðum verði hafður til hliðsjónar við mat á framhaldi stórhvalaveiða þegar núverandi kvótatímabili lýkur.“
Skýrslan tekur til þeirra atriða er nefnd eru í skýrslubeiðninni þ.á m.: Áhrif ákvarðana forseta Bandaríkjanna um að beita Ísland diplómatískum refsiaðgerðum vegna hvalveiða í atvinnuskyni; mat á þeim lagaramma sem gildir um hvalveiðar í Bandaríkjunum; mat á stefnu núverandi Bandaríkjaforseta gegn alþjóðlegri verslun með dýr í útrýmingarhættu; upplýsingar um hvaða ríki heims hafa opinberlega mótmælt veiðum á hrefnu og langreyði við Ísland; mat á því hvort alþjóðleg verslun Íslands með hvalaafurðir hafi haft áhrif á sölu og markaðssetningu íslenskra gæðamatvæla í verslunum erlendis; og mat á því hvort orðspor Íslands í ríkjum sem eru aðilar að CITES-samningnum hafi skaðast vegna alþjóðlegrar verslunar með hvalaafurðir.
Hægt er að lesa hana í heild sinni hér.
Eitt dýrasta áhugamál sem hægt er að eiga
Hvalveiðar voru bannaðar árið 1986 á Íslandi en ákveðið var að hefja þær aftur í vísindaskyni árið 2003 þrátt fyrir mikla andstöðu alþjóðasamfélagsins. Hvalveiðar hófust síðan aftur í atvinnuskyni árið 2006. Hvalveiðar á Íslandi hafa aðallega verið stundaðar af fyrirtækinu Hvali hf., sem á og rekur hvalstöðina í Hvalfirði og heldur úti hvalveiðibátum. Stærsti eigandi Hvals hf. er Fiskveiðihlutafélagið Venus sem er að stórum hluta í eigu Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals. Fyrirtækið veiddi 134 langreyðar árið 2013 og 137 árið 2014. Ársreikningur þess fyrir árið 2015 hefur ekki verið birtur en á árinu 2014 tapaði Hvalur hf. um einum milljarði króna á hvalveiðum sínum. Félagið skilaði hins vegar þriggja milljarða króna, sem að mestu er tilkomin vegna eignarhlta Hvals hf. í einus stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, HB Granda.
Vegna þess að hvalveiðarnar hafa ekki skilað Hvali hf.
neinum hagnaði, heldur þvert á móti kostað fyrirtæki gríðarlega háa fjármuni ár
eftir ár, hafa hvalveiðar fyrirtækisins verið kallaðar eitt dýrasta áhugamál
sem nokkur gæti haft.
Fyrir helgi tilkynnti Kristján Loftsson svo í Morgunblaðinu að Hval hf. verði að óbreyttu lokað í sumar. Ástæðan sem hann gaf var þó ekki alþjóðleg andstaða við hvalveiðar eða slælegar rekstrarforsendur. Hann hafi einfaldlega gefist upp í baráttunni við skrifræði embættismanna í Japan, sem er aðalmarkaður Hvals fyrir afurðir sínar. Utanríkisráðherra sagði á sama stað að ráðuneyti hans hafi reynt það sem það gat til að gæta hagsmuna Hvals í Japan, en að það hafi lítið þokast.
Naumur meirihluti styður hvalveiðar
Íslendingar hafa lengi verið litnir hornauga af alþjóðasamfélaginu vegna hvalveiða landsins Gunnar Bragi sagði til að mynda frá því í viðtali við Skessuhorn í fyrra að gagnrýni alþjóðasamfélagsins væri sett fram á fundum sem starfsmenn stjórnarráðsins og fulltrúar Íslands sækja erlendis. „Við hér í utanríkisráðuneytinu verðum vör við það frá fyrstu hendi á fundum sem við sækjum að Ísland er stundum litið hornauga vegna þessara veiða.“
Kannanir hafa sýnt að stuðningur við hvalveiðar á meðal íslensku þjóðarinnar hefur einnig farið hratt minnkandi á undanförnum misserum. Í könnun sem Gallup gerði í október 2015 fyrir Alþjóðadýravelferðarsjóðinn(IFAW) í samstarfi við Náttúruverndarsamtök Íslands kom fram að mjög naumur meirihluti Íslendinga styður veiðar á hrefnu og 42,6 prósent þeirra styðja veiðar á langreyði. Stuðningur við hvalveiðar hefur dregist mjög saman á síðustu tveimur árum en er samt sem áður enn meiri en andstaða við þær. Einungis 18,3 prósent Íslendinga segjast andvígir veiðum á hrefnu og 23,3 prósent eru andvígir veiðum á langreyðum. Alls segjast 31,6 prósent landsmanna hvorki vera andvígur né fylgjandi veiðum á hrefnum. 34,1 prósent segjast ekki hafa neina sérstaka skoðun á veiðum á langreyðum.
Þótt fleiri Íslendingar styðji hvalveiðar en eru á móti þeim hefur orðið marktæk breyting á hlutfalli þeirra á síðustu tveimur. Þegar Gallup spurði sömu spurninga í október 2013 sögðust 56,9 prósent vera fylgjandi því að veiða langreyði og 65,7 prósent fylgjandi hrefnuveiðum. Stuðningur við veiðarnar hefur því farið hratt minnkandi. Sá hópur sem styður hvalveiðar síst eru yngstu íbúar höfuðborgarsvæðisins og konur.
Anonymous hefur ítrekað gert árásir vegna hvalveiða
Undanfarna mánuði hafa meðlimir í aðgerðarhópnum Anonymous gert árásir á vefsíður íslenska stjórnarráðsins og annarra innlendra aðila til að mótmæla hvalveiðum Íslendinga. Í janúar tókst hópnum til að mynda að loka heimasíðum allra ráðuneyta um stund. Á Twitter kom fram að árásin var hluti af svokallaði #OpWhales herferð, sem meðlimir í Anonymous standa á bak við. Á Twitter-reikningnum fyrir aðgerðina var mikið fjallað um Ísland og hvalveiðar. Þar mátti meðal annars sjá mynd af Kristjáni Loftssyni og hann sagður andlit skammarinnar á Íslandi. Þá voru birtar upplýsingar um fyrirtækið Hval og fólk er hvatt til að senda því línu.

Árásin var samskonar og tvær tölvuárásir sem gerðar voru í nóvember. Í annarri þeirra var vefsíðum fimm ráðuneyta lokað og í hinni var ráðist ávefsíðu forsætisráðuneytisins, Símans og Morgunblaðsins, meðal annars.