Ríkissjóður Íslands greiddi á síðasta ári upp 33,8 milljarða króna af lánum hjá Íbúðalánasjóði vegna leiðréttingarinnar, aðgerðaráætlunar ríkisstjórnarinnar til handa hluta þeirra heimila sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009. Þessar uppgreiðslur höfðu neikvæð áhrif á vaxtatekjur Íbúðalánasjóðs, sem er að fullu í eigu íslenska ríkisins og á ábyrgð þess. Ríkisstjórnin hafði þegar tekið ákvörðun um að bæta sjóðnum upp þessar töpuðu vaxtatekjur. Það framlag átti að nema mismuni þeirrar ávöxtunar sem Íbúðalánasjóður gat vænst að ná á lánin sem ríkissjóður greiddi upp með leiðréttingunni og vaxta sömu lána. Í ársreikningi Íbúðalánasjóðs segir að „Fyrir liggur ákvörðun um að bæta sjóðnum neikvæð áhrif á vaxtamun sem nemur 1.240 millj.kr. á árinu 2015. Er það gert með afhendingu verðtryggðrar kröfu á ríkið sem bókast meðal krafna á ríkissjóð. Sjóðnum hefur ekki verið bætt það tap sem myndaðist við uppgreiðslu á lánasafninu og hefur það tap verið fært yfir virðisrýrnun á árunum 2013 til 2015 og er áætlað að fjárhæð 1.362 millj.kr.“
Því er ljóst að Íbúðalánasjóður ber umtalsverðan kostnað vegna leiðréttingarinnar. Þetta kemur fram í ársreikningi Íbúðalánasjóðs sem birtur var á föstudagskvöld.
Forsvarsmenn sjóðsins hafa lengi gert sér grein fyrir að staða hans myndi laskast vegna leiðréttingarinnar. Í ársreikningi hans 2014 sagði að „tjón vegna úrræða stjórnvalda mun að óbreyttu hafa mikil áhrif á grunnafkomu sjóðsins og valda því að sjóðurinn verður hér eftir rekinn með tapi sem á endanum fellur á ríkissjóð. Ljóst er að slík umgjörð rekstrar kann að valda því að ýmsir aðrir áhættuþættir sjóðsins, svo sem uppgreiðsluvandi, geta magnast upp og vafi kann að leika á rekstrarhæfi sjóðsins. Við þessar aðstæður er það markmið stjórnenda að lágmarka tjón sjóðsins.“.
Minnkandi virðisrýrnun skilar hagnaði
Afkoma Íbúðalánasjóðs var um margt jákvæð á síðasta ári. Sjóðurinn skilaði 1,8 milljarða króna rekstrarhagnaði á árinu 2015, og er það annað árið í röð sem hann skilaði hagnaði eftir að hafa grætt 3,2 milljarða króna árið 2014. Árin þar á undan höfðu hins vegar verið afar slæm. Alls tapaði sjóðurinn tæpum 58 milljörðum króna frá árslokum 2008 og út árið 2013. Ríkissjóður þurfti að leggja honum til 53,5 milljarða króna á árinu 2009 til að halda sjóðnum gagnandi.
Á árinu 2014 var þorri þess hagnaðar sem Íbúðalánasjóður sýndi vegna breytinga á virðisrýrnun útlána. Þ.e. innheimtanleiki lána hans jókst um 2,5 milljarða króna. Sama var upp á teningnum í fyrra. Virðisrýrnun útlána lækkaði um 4,4 milljarða króna og útskýrir því vel rúmlega allan hagnað Íbúðalánasjóðs á síðasta ári líka. Í tilkynningu vegna ársreiknings sjóðsins segir: „Breyting virðisrýrnunar tengist umtalsverðri lækkun vanskila heimila og sterkari tryggingarstöðu lánasafnsins vegna hækkana á fasteignamarkaði.“
Útlán sjóðsins héldu hins vegar árfram að lækka á síðasta ári líkt og árin á undan. Þau lækkuðu um tæpa 80 milljarða króna í fyrra. Þar af voru, líkt og áður sagði, 33,8 milljarðar króna vegna leiðréttingarinnar. Íbúðalánasjóður er samt sem áður langstærsti íbúðalánaveitandi á landinu, þrátt fyrir litla útlánaveitingu og miklar uppgreiðslur árum saman. Markaðshlutdeild hans, samkvæmt útreikningum Kjarnans, er rúmlega 40 prósent á íbúðalánum til einstaklinga.
Framtíðarhlutverkið í óvissu
Íbúðalánasjóður náði líka þeim árangri, í fyrsta sinn frá árinu 2007, að eiginfjárhlutfall hans er yfir lögbundnu lágmarki. Það lágmark er 5,0 prósent og eiginfjárhlutfall fé sjóðsins um síðustu áramót var 5,5 prósent.
Framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs er þó enn óljóst. Í ársreikningi sjóðsins segir að vaxtamunur sjóðsins, sem er einungis 0,28 prósentm dugi ekki fyrir virðisrýrnun sambærilegri þeirri sem átti sér stað við efnahagshrunið. Slíkt hefði legið fyrir lengi. „. Nokkurar óvissu gætir um framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs. Fyrir vikið hefur stefnumótandi ákvörðunartaka í nánasta umhverfi sjóðsins verið sett á bið en slíkt hefur neikvæð áhrif á rekstur sjóðsins. Upplýsingar um mikilvæg atriði, þar sem óvissa í mati hefur mest áhrif á skráðar fjárhæðir í reikningsskilunum, er að finna í eftirfarandi skýringum: Lítil útlánaaukning og auknar uppgreiðslur viðskiptavina hafa neikvæð áhrif á vaxtamun sjóðsins þar sem sjóðnum er óheimilt að greiða skuldir sínar fyrir gjalddaga þeirra. Því er stærra hlutfall fjármuna í ávöxtun utan hefðbundinna veðlána til heimila og leigufélaga. Því getur dregið út jöfnuði milli eigna og skulda sjóðsins.“