Fyrrum fjölbragðaglímukappinn Bret “The Hitman” Hart greindist nýlega með krabbamein í blöðruhálskirtli. Í stað þess að fela sjúkdóminn fyrir umheiminum ákvað hann að lýsa reynslu sinni opinberlega og beita sér fyrir vitundarvakningu um þennan mikla vágest sem herjar aðallega á karlmenn á efri árum.
Flugumaður í bleiku og svörtu
Bret Hart er fæddur árið 1957 í borginni Calgary í Albertufylki í Kanada. Hann er eitt af 12 börnum glímufrömuðsins Stu Hart og ólst upp á heimili þar sem lítið annað var gert en að glíma og fljúgast á. Bret þótti strax efnilegur og keppti í áhugamannaglímu á unglingsárum. En leiðin lá snemma í atvinnumennskuna og árið 1978 keppti hann í fyrsta skipti í glímudeild föður síns. Hann keppti í ýmsum smærri deildum til ársins 1984 þegar hann fékk samning hjá stærsta fjölbragðaglímusambandi heims WWF. Það var þá sem Bret tók upp viðurnefnið Hitman (flugumaðurinn) og skapaði ímynd sína. Hann varð þekktur fyrir að klæðast bleikum og svörtum spandex-galla, stórum speglagleraugum og svörtum leðurjakka. En hann átti yfirleitt í erfiðleikum með viðtöl og að rífa kjaft utan vallar eins og lenskan er í fjölbragðaglímu. Bret þurfti því að skapa sig í hringnum og það gerði hann með stæl. Fimi hans og frumleiki þóttu einstök og frægðarsól hans reis hratt. Til að byrja með glímdi hann aðallega í teymi með mági sínum Jim Neidhart og kölluðu þeir sig The Hart Foundation. Seinna hóf hann að glíma að mestu leyti einn og vinsældir hans jukust enn meir. Árið 1991 vann hann sinn fyrsta þungavigtartitil og um miðjan tíunda áratuginn var hann án vafa stærsta fjölbragðaglímustjarna heims.
Hann var fagmaður fram í fingurgóma, bar virðingu fyrir andstæðingum sínum og stærði sig af því að hafa aldrei slasað nokkurn mann í hringnum. Ferillinn tók þó sinn toll af heilsunni. Árið 1999 fékk hann slæmt höfuðhögg og hlaut heilahristing. Þremur árum seinna fékk hann heilablóðfall, lamaðist og var bundinn við hjólastól um tíma. Auk þess lést bróðir hans, glímukappinn Owen Hart, í hringnum um þetta leyti. Bret skyldi þó ekki alfarið við glímuna og keppti endrum og eins allt til ársins 2013. Bret Hart var ekki bara einn vinsælasti fjölbragðaglímumaður sögunnar, hann var einnig einn sá allra virtasti. Samtíma glímumenn dáðust að flóknum brögðum hans og fjölmargir yngri glímumenn líta á hann sem sína helstu fyrirmynd.Þess vegna var oft sagt að hann væri sá besti sem er, sá besti sem var og sá besti sem verður nokkurn tímann.
Tilkynningin sem kom öllu af stað
Bret Hart greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli um mitt árið 2015. Hann tilkynnti fjölskyldunni og aðdáendum þetta í einlægri Facebook-færslu þann 1. febrúar síðastliðinn þar sem hann sagðist halda af stað í sína erfiðustu orrustu til þessa en myndi þó ekkert gefa eftir.. Hann segir m.a.:“Ég strengi þess heit til allra þeirra sem hafa nokkurn tímann trúað á mig, bæði dáinna og lifandi, að ég mun berjast við meinið með einum skildi og einu sverði staðfestu minnar og eldmóði mínum til að lifa, umvafinn allri þeirri ást sem hefur haldið mér gangandi til þessa. Ástin er vopn mitt sem ég hef allt í krignum mig allar stundir og er sannarlega þakklátur fyrir. Börnin mín, barnabörn og ástkær eiginkona mín Steph hafa verið og munu vera hér mér til stuðnings. Ég neita að tapa, ég mun aldrei gefast upp og ég mun sigra þessa orrustu eða a.m.k. ekki deyja átakalaust.”
Í færslunni segist hann einnig ætla beita sér fyrir baráttunni gegn blöðruhálskrabbameini almennt og verða fyrirmynd fyrir aðra við að kljást við þetta mein. Þessi færsla fékk strax mikla og jákvæða athygli. Krabbamein í blöðruhálskirtli herjar að langmestu leyti á eldri karlmenn og sjúkdómurinn hefur verið mikið feimnismál í gegnum tíðina. Það er því ekki algegnt að karlar opni sig um sjúkdóminn á þennan hátt. Sérstaklega ekki menn með bakgrunn eins og Bret Hart, þ.e. hinn karllæga heim fjölbragðaglímunnar þar sem allir veikleikar eru álitnir aumingjaskapur.
Hafði strax áhrif
Viðbrögð glímusamfélagsins létu ekki á sér standa. Bæði fyrrum samherjar og andstæðingar Harts fylktust að baki honum og lýstu opinberlega yfir stuðningi við baráttuna. Má þar nefna Hulk Hogan, Ted “Million Dollar Man” DiBiase, Jerry Lawler, Triple H og Chris Jericho. Auk þess hafa glímusamböndin staðið þétt við bakið á honum og komið skilaboðunum vel á framfæri, t.d. á stórum skjá fyrir utan Madison Square Garden í New York þar sem Hart háði margar af sínum eftirminnilegustu rimmum. Hart og stuðningsfólk hans hafa einnig farið í átak til að koma skilaboðunum áleiðis undir slagorðunum “Fight Bret Fight”. Plaggöt og vefborðar sjást víða og einnig eru stuttermabolir með slagorðunum komnir í sölu, allt vitaskuld í hans frægu bleiku og svörtu litum. Ágóðinn rennur svo til rannsókna og vitundareflingar á krabbameini í blöðruhálskirtli.
Krabbameinslæknirinn David Samadi við Lenox Hill sjúkrahúsið í New York vonast til að hin opna og hreinskilna barátta Harts brjóti niður múra og hjálpi öðrum að leita sér hjálpar. Krabbamein í blöðruhálskirtli er næstalgengasta dánarorsök karla í Bandaríkjunum og tekur um 27.500 mannslíf á ári. Auk þess geta óþægindi og kvalir sjúkdómsins verið mjög miklar, má þar nefna þvagfæravandamál, nýrnabilanir, þrýsting á mænuna og jafnvel beinbrot. Í Bandaríkjunum er krabbamein í blöðruhálskirtli næstalgengasta krabbamein karlmanna, á eftir húðkrabbameini.
Barátta Harts virðist nú þegar vera farin að hafa bein áhrif. Á Blöðruhálskrabbameinsstöðinni í heimaborg hans, Calgary, hafa símarnir hringt látlaust síðan hann opinberaði sjúkdóminn. Fjöldi karlmanna, bæði ungra sem aldna, hafa spurst fyrir um og boðað sig í skoðanir. Pam Heard, yfirmaður á stofnuninni, segir að vandamálið hafi hingað til verið að fá menn til að mæta í skoðanir og hugsa um sjálfa sig. Í Kanada er blöðruhálskrabbamein jafnvel enn meira vandamál en í Bandaríkjunum. Það er algengasta tegund krabbameins í landinu og að meðaltali fær einn af hverjum sjö karlmönnum þar sjúkdóminn einhvern tímann á lífsleiðinni. Lífslíkurnar eru aftur á móti góðar ef meinið finnst snemma.
Baráttan heldur áfram
Hart fór í skurðaðgerð um miðjan febrúar síðastliðinn sem gekk að eigin sögn vel. Á blaðamannafundi viðurkenndi hann að hafa haldið sjúkdómnum leyndum í um hálft ár. Hann hafði farið í reglulegar blóðprufur frá árinu 2013 og þar kom í ljós að mótefnavakinn PSA (prostate specific antigen) fór ört vaxandi í blóði hans. [http://calgaryherald.com/entertainment/celebrity/i-fought-back-bret-hart-reveals-details-of-prostate-cancer-surgery-and-urges-men-to-get-tested]Um mitt ár 2015 var ljóst að Hart væri með krabbamein. Hann sagðist hafa verið virkilega hræddur, sérstaklega eftir að hann talaði við menn sem höfðu fengið sjúkdóminn. Einnig sagðist hann hafa íhugað að leita inn á svið óhefðbundinna lækninga á borð við ósón-meðferð eða neyslu matarsóda. En eftir að hafa kynnt sér sögu Steve Jobs, sem notaðist við óhefðbundnar lækningar og lést loks af völdum krabbameins í brisi, ákvað Hart að notast við þau reyndu læknisfræðilegu úrræði sem í boði eru í dag. Kirtillinn og meinið voru fjarlægð í aðgerðinni en Hart mun þó þurfa að fara í reglulegar skoðanir til að fullvissa sig um að það taki sig ekki aftur upp að nýju. [http://www.torontosun.com/2016/03/07/it-was-really-scary-canadian-wrestler-reflects-on-cancer-and-future-recovery] Baráttunni er þó alls ekki lokið og Bret Hart mun halda áfram að vekja athygli og berjast gegn þessum vágesti sem því miður er ennþá mikið feimnismál.
Mottumars
Við Íslendingar erum farnir að þekkja baráttuna gegn blöðruhálskrabbameini vel vegna átaksins Mottumars sem haldið hefur verið á hverju ári síðan 2010 af Krabbameinsfélaginu. Átakið á fyrirmynd sína í fjáröflunarverkefninu Movember sem hófst í Ástralíu árðið 1999 og hefur farið sigurför um heiminn síðan. Eins og frægt er safna karlmenn yfirvaraskeggi, birta myndir af þeim á heimasíðu félagsins og safna áheitum. Ágóðanum er svo m.a. varið í rannsóknir, stuðning og ráðgjöf fyrir þolendur og vitunarvakningu um meinið og mikilvægi þess að karlmenn láti rannsaka sig. Á undanförnum árum hafa safnast rúmlega 250 milljónir króna, eða að meðaltali um 40 milljónir króna í hverju átaki. [http://www.mottumars.is/]Í átakinu er ekki verið að velta sér upp úr eymd og volæði sem fylgir því að vera haldinn krabbameini. Þess í stað er einblínt á eitthvað sem er töff og fyndið og stílað inn á menningu hipsteranna. Líkt og barátta Bret Hart þá er Mottumars tekinn mjög karlmannlegum tökum. Það er einfaldlega orðið sjálfsagt og jafnvel kúl að vera meðvitaður um þennan sjúkdóm og láta athuga sig reglulega. Átakið er einstaklega vel heppnað og gríðarlega mikilvægt þar sem ótal mannslíf eru í húfi. Hér er karlmennska notuð á jákvæðan hátt til þess að tækla einstaklega karllægt vandamál, þ.e. feimni og skömm.