Geirmundur Kristinsson, sem stýrði sparisjóðnum í Keflavík í 19 ár, hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir umboðssvik. Ákæruatriðin eru tvö. Annars vegar er hann ákærður fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína til að lána félagi tengdu Suðurnesjamönnum 100 milljónir króna í formi yfirdráttarláns, sem tapaðist að fullu. Hins vegar á Geirmundur að hafa framselt stofnbréf í Sparisjóði Keflavíkur að verðmæti 683 milljónir króna til einkahlutafélagsins Fossvogshyls ehf., sem varð síðar í eigu sonar Geirmundar. Ekkert endurgjald var tekið vegna þessa en skuld á Fossvogshyl skráð í bækur dótturfélags sparisjóðsins. Ekkert fékkst greitt upp í skuldina utan tæplega 50 milljón króna arðgreiðslu á árinu 2008.
Hægt er að lesa ákæruna í heild sinni hér.
Félag tengt Suðurnesjamönnum fékk 100 milljóna yfirdrátt
Fyrra málið sem Geirmundur, sem á 72. aldursári, er ákærður fyrir snýr að lánveitingu til Duggs ehf. í júní 2008. Félagið fékk þá 100 milljón króna lán í formi yfirdráttar hjá Sparisjóðnum án þess að afstaða lánanefndar sparisjóðsins lægi fyrir, án þess að áhættu- og greiðslumat færi fram og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum gætti.
Peningarnir voru greiddir út sama dag og lagðir inn á reikningi hjá Icebank (síðar Sparisjóðabankinn), sem tók handveð í allri innistæðu reikningsins, vegna skuldar félags sem hét Suðurnesjamenn ehf.. Icebank hafði nefnilega lánað því félagi miklar fjárhæðir til að kaupa hlut í HS Orku. Af þeim viðskiptum varð ekki og ákvað félagið þess í stað að kaupa aðrar eignir. Í lok árs 2007 voru Suðurnesjamenn í 47 prósent eigu Gríms Sæmundsen, núverandi forstjóra Bláa lónsins, sem var einnig framkvæmdastjóri Suðurnesjamanna. Á meðal eigna félagsins í árslok 2007 var 11,8 prósent hlutur í Bláa Lóninu, 2,73 prósent hlutur í Sparisjóðnum í Keflavík og 100 prósent hlutur í SM 1 ehf. sem átti 9,5 prósent hlut í Icebank hf. Sparisjóður Keflavíkur átti einnig um tíma hlut í Suðurnesjamönnum. Suðurnesjamenn ehf. voru úrskurðaðir gjaldþrota í mars 2009.
Í ákæru héraðssaksóknara kemur fram að yfirdráttarlánið upp á 100 milljónir króna, sem átti upphaflega að vera til eins mánaðar, hafi aldrei fengist greitt.
Framseldi til félags sonar síns
Hitt atriðið sem Geirmundur er ákærður fyrir snýr að umboðssvikum þegar hann, sem stjórnarformaður Víkna, dótturfélags Sparisjóðs Keflavíkur, framseldi fyrir hönd félagsins stfonfjárbréf í Sparisjóðnum í Keflavík að verðmæti 683 milljónir króna til einkahlutafélagsins Fossvogshyls ehf. í lok árs 2007 án þess að nokkuð endurgjald kæmi fyrir. Sama dag og stofnfjárbréfin voru skráð á Fossvogshyl var félagið framselt til sonar Geirmundar, Sverris Geirmundssonar. Víkur ehf. eignaðist við þetta kröfu á Fossvogshyli sem var færði sem útlán. Lánveitingin var að fullu afskrifuð í bókhaldi sparisjóðsins þann 31. mars 2010.
Ítarlega var fjallað um Fossvogshyl í skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóði landsins, sem kom út í apríl 2014. Þar segir að Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni hafi löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte, og endurskoðandi Sparisjóðsins í Keflavík, upplýst að Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri hefði við gerð ársreiknings sparisjóðs fyrir árið 2007 óskað eftir því við sig að fá keypt félag hjá Deloitte sem myndi taka við stofnfjárbréfum í eigu sjóðsins. „Úr varð að Fossvogshylur var nýtt til þess[...]Endurskoðandinn kvaðst ekki vita hvers vegna óskað var eftir að bréfin yrðu flutt úr samstæðu sjóðsins inn í Fossvogshyl ehf. Sparisjóðsstjórinn kvaðts kannast við félagið í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni en taldi sig ekki vita til að það hefði tengst Vikum ehf. á nokkur hátt.“
Sverrir Geirmundsson staðfesti í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni að aldrei hefði verið gerður lánasamningur við Fossvogshyl um skuldina né veðsamningur um hin yfirfærðu stofnfjárbréf. Fossvogshylur ehf . hefði því getað selt bréfin áfram til þriðja aðila án þess að Vikur ehf. eða Sparisjóðurinn í Keflavík hefðu getað varið sína hagsmuni. Arðstekjur Fossvogshyls ehf. á árinu 2008, þ.e. arðgreiðslur vegna ársins 2007, voru 48,5 milljónir króna. Samkvæmt minnispunktunum gekk arðurinn að fullu til niðurgreiðslu á viðskiptaskuld félagsins við Víkur ehf.
Í bréfi Sverris Geirmundssonar til rannsóknarnefndarinnar 28. janúar 2014 er því hafnað að Sverrir hafi átt félagið. Hann hafi, að ósk endurskoðandans, samþykkt að sitja tímabundið í stjórn félagsins í byrjun árs 2008 og undirritað skjöl, að því er hann taldi, því til staðfestingar. Honum hafi ekki verið ljóst að um væri að ræða undirritun á framsal hlutanna og hann hafi aldrei talið sig eiganda félagsins.
Verst rekni sparisjóðurinn
Sparisjóðurinn í Keflavík virðist, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóðina, hafa verið einna verst rekinn allra sparisjóðanna. Vaxtamunur hans var til að mynda oftast lægri en hjá öllum hinum sjóðunum, útlán hans virðast hafa verið ótrúlega illa undirbyggð, afkoma sjóðsins var nánast einvörðungu bundin við gengi hlutabréfa sem hann átti og embætti sérstaks saksóknara, sem nú hefur runnið inn í embætti héraðsaksóknara, hefur um árabil rannsakað nokkur mál tengd honum.
Vegna þessarra þátta var afkoma sjóðsins af kjarnarekstri neikvæð frá árinu 2003 og fram að þeim degi þegar hann féll. Samtals nam tapið 30 milljörðum króna, en þorri þeirrrar upphæðar kom til á árunum 2008 og 2009. Til að setja slakan undirliggjandi rekstur sjóðsins í samhengi þá nam tap af kjarnarekstri hans, hefðbundinni bankastarfsemi, 700 milljónum króna á árinu 2006 þrátt fyrir að kynntur hagnaður fyrir skatta hafi verið tæpir 5,6 milljarðar króna.
Ef einhver sparisjóðanna vildi fá að vera litla lestin sem gat þá var það Sparisjóðurinn í Keflavík. Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar um starfsemi sparisjóðanna fimmfölduðust eignir hans á fimm árum og námu samtals 98 milljörðum króna í lok árs 2008. Tvennt skipti mestu máli fyrir þennan vöxt: útlán sjóðsins höfðu fimmfaldast á tímbilinu og virði hlutabréfa, að mestu óbein eign í Existu í gegnum fjárfestingafélagið Kistu og í Icebank/Sparisjóðabankanum, hækkaði mikið. Í árslok 2006 var til dæmis nærri 70 prósent af öllu eigin fé sparisjóðsins bundið í hlutabréfum í Existu, annað hvort beint eða óbeint. Þá var ótalin áhrif Exista í Sparisjóðabankanum, sem sparisjóðurinn átti 12 prósent í.
Auk þess yfirtók sjóðurinn nokkra minni sjóði víða um land sem leiddi til þess að eignasafnið stækkaði.
Innlán helsta fjármögnunarleiðin
Keflvíkingarnir fjármögnuðu þessa starfsemi sína að mestu leyti með innlánasöfnun. Þegar mest lét, í lok árs 2009, voru innlán 62 prósent af skuldum sjóðsins. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar var bent á að frá septemberlokum 2008, þegar bankakerfið var að hrynja, og fram til loka mars 2010 hafi innlán hjá sparisjóðnum í Keflavík hækkað um 19 milljarða króna. Á þessu tímabili var vitanlega í gildi yfirlýsing íslenska ríkisins um að tryggja allar innistæður. Þeir sem lögðu inn pening í sjóðinn á þessu tímabili voru meðal annars sveitafélög á Suðurnesjum og ýmis fyrirtæki á svæðinu. Tilgangurinn var að styrkja stöðu sjóðsins. Ríkissjóður Íslands eignaðist líka tveggja milljarða króna innlán hjá sjóðnum sem var meðal annar tilkomið vegna greiðslu hans á fjármagnstekuskatti sem sveitarfélög á Suðurnesjum áttu að greiða í ríkissjóð vegna hagnaðar á sölu eignarhluta þeirra í HS Orku.
Í skýrslunni sagði um þetta að Í október 2008 hafi sparisjóðurinn leitað til fjármálaráðuneytisins og fór þess á leit að ríkissjóður Íslands stofnaði sérstakan innlánsreikning hjá Sparisjóðun í Keflavík til að taka á mótu skattgreiðslurm frá sveitafélögum. Sjóðurinn átti ekki peninga til að borga útflæði innlána í nóvember og desember, sem var tæpur milljarður, enda lausafjárstaða hans á þessum tíma einungis 255 milljónir króna. Með öðrum orðum gat Sparisjóðurinn í Keflavík ekki borgað út innlán sem vilji var til að taka út í lok árs 2008.
Léleg útlán
Útlánin sem Sparisjóðurinn í Keflavík veitti voru mörg hver léleg. Mjög léleg. Lán til venslaðra aðila voru umtalsverð, 90 prósent útlána sem voru með veði í hlutabréfum voru tryggð með veði í óskráðum bréfum, verðmæti trygginga var í mörgum tilvikum langt undir lánsfjárhæði og ofmetið. Sparisjóðurinn var hins vegar lítið fyrir að framkvæma veðköll og því var fyrirtséð löngu áður en sjóðurinn féll að mikil útlánatöp sem höfðu ekki verið bókfærð væru framundan. Þessi sannleikur kom líka fram í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um starfsemina sem skilað var í september 2008 og Kjarninn hefur áður greint ítarlega frá.
Þrátt fyrir þessa svörtu skýrslu Fjármálaeftirlitsins fékk Sparisjóðurinn í Keflavík að starfa áfram, lána áfram og safna innlánum. Hann fór ekki á höfuðið fyrr en í apríl 2010 og þá var meira að segja ákveðið að stofnsetja nýjan sparisjóð á grunni þess gamla. Sá tórði þó einungis í tíu mánuði áður en honum var rennt inn í Landsbankann gegn því að íslenska ríkið borgaði allt að 26 milljarða króna með honum. Ástæða þess að svo háa fjárhæð þurfti til var sú að óháðir sérfræðingar töldu að enn minna myndi innheimtast af lélegum útlánum sparisjóðsins en áður var áætlað og vegna þess að innlánin voru orðin jafn stór hluti af skuldum hans þegar sjóðurinn loksins for í þrot eins og raun ber vitni. Í dag er þorri þeirra 33 milljarða króna af tapi hins opinbera, skattgreiðenda, vegna sparisjóðakerfisins, sem hefur raungerst vegna litla sveitasparisjóðsins í Keflavík.