Í bók Steven Lee Myers, sem var ritstjóri New York
Times í málefnum Austur-Evrópu um langt skeið, The New Tsar, er Vladímir Pútín
forseti Rússlands undir smásjánni, og stefna hans greind í þaula. Enginn vafi
er á því, að Lee Myers telur Pútín vera djúpþenkjandi leiðtoga gamallar
valdablokkar KGB-liða í Sovétríkjunum, sem vilji þenja út völd Rússlands á
grunni innra skipulags gömlu Sovétríkjanna. Samhliða vilji hann hefna sín á vesturlöndum fyrir þvingunaraðgerðir, og hugsa þá leiki langt fram í tímann.
Ómar Þorgeirsson, sagn- og markaðsfræðingur, sem búsettur er í Moskvu, skrifaði ítarlega fréttaskýringu um þá miklu refskák, sem ennþá er í gangi, á milli austurs og vesturs, í september síðastliðnum. Þar kemur meðal annars fram, hvernig Rússar hafa reynt að bregðast við þvingunum með því að efla innlenda framleiðslu, og örva þannig hagkerfið, um leið og gjaldeyrisútstreymi er heft.
Sjálfur efnhagsstórveldi
Það þýðir að Rússland þurfi að vera herveldi sem umheimurinn óttist. Lee Myers telur enn fremur að gögn frá leyniþjónustu Bandaríkjanna CIA, frá árinu 2007, þar sem segir að Pútín sjálfur sé efnahagslegt stórveldi og eigi í það minnsta 40 milljarða Bandaríkjadala, um 5.200 milljarða íslenskra króna, séu að öllum líkindum rétt. Erfitt sé að nálgast frumgögn um þessi mál, en veldið byggi á tengingu við veltu rússneskra orkufyrirtækja, olíu- og jarðgasvinnslu þar helst. Gazprom, stærsta orkufyrirtæki Rússlands, hafi lengi verið stýrt af fólki sem standi Pútín nærri, og þrátt fyrir afdráttarlausar neitanir Pútín um að tengjast fyrirtækinu, þá hafi hann aldrei verið tilbúinn að leggja fram tæmandi lista yfir eignir sínar. Það gefi auk þess sterkar vísbendingar um hvaða upplýsingar bandarísk stjórnvöld eru með, að viðskiptaþvinganir landsins gagnvart Rússlandi hafa öðru fremur snúið að því að frysta fé á reikningum fólks sem telst vera með trúnað við Pútín.Styrkir stöðuna
Í bókinni eru þessar upplýsingar ekki fyrirferðamiklar, í samanburði við annað, en þó er þessi staða sögð gera Pútín að enn öflugri stjórnmálamanni. Ef þetta er rétt mat hjá Lee Myers og CIA, þá er Pútín auðugasti stjórnmálamaður heimsins. Gera má ráð fyrir að eigninar hafi ávaxtast vel á þeim níu árum sem liðin eru frá því að CIA greindi stöðu mála með þessum hætti. Aðeins Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri í New York, kemst nærri þessari stöðu sem Pútín er sagður vera í, en eignir hans nema í dag um 40 milljörðum Bandaríkjadala, og eru að miklu leyti bundnar í hlutabréfum í Bloomberg.
Bregst harkalega við
Pútín er sagður bregðast harkalega við öllum aðgerðum – stórum og smáum – sem túlka má sem hindranir á hans stórveldisstefnu. Sérstaklega á þetta við um viðskiptahagsmuni, en einnig eru tiltekin dæmi úr stjórnsýslunni í Rússlandi. Starfsmannabreytingar alveg niður að lágt settum starfsmönnum í Rússlandi má oft rekja til hans viðhorfa, líkt og reyndar á þriðja tug mannshvarfa, en þar eru tengingarnar að miklu leyti í þoku.
En Pútín þykir afburðagreinandi á alþjóðapólitíska stöðu og sér oft ógnanir og tækifæri á undan öðrum, samkvæmt skrifum Lee Myers. Hvað sem mönnum finnst um stefnu hans, þá megi ekki vanmeta hæfileika og viðbrögð við breyttu landslagi.
Dæmi um þetta segir Lee Myers vera hvernig hann hefur brugðist við viðskiptaþvingunum Bandaríkjastjórnar og Evrópusambandsríkja. Ofan í mikla lækkun olíu- og hrávöruverðs, sem hafi komið Rússlandi afar illa, þá hafi Pútín ekki hikað við að bregðast við með viðskiptaþvingunum gagnvart öðrum þjóðum, og einnig oft gagnvart þjóðum sem ekki geta talist vera stórir leikendur á hinu pólitíska sviði. Rússland hafi vissulega átt í vanda, en hann hefði geta verið miklu verri, ef ekki hefði komið til viðbragð Pútíns.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurin spáir því að rússneska hagkerfið, með tæplega 145 milljónir íbúa, muni minnka um 0,4 prósent á þessu ári og áfram verði áhersla lögð á að efla innlenda framleiðslu.
Merkel og Obama vinna gegn Pútín
Eins og alkunna er þá er í gildi viðskiptabann Rússlands gagnvart Íslandi, vegna þátttöku Íslands í alþjóðlegum aðgerðum gegn Rússum. Þær grundvallast af átökunum í Úkraínu þar sem Rússar hafa farið gegn alþjóðlegum lögum með því að færa undir sig yfirráð á svæði sem áður var undir stjórn Úkraínu. Án þess að þær séu gerðar að miklu umfjöllunarefni, að þessu sinni, þá eru það ekki síður ögranir Rússa sem hafa leitt til harðra viðbragða alþjóðasamfélagsins. Lee Myers fullyrðir þannig í bók sinni, að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafi sammælst um að halda aftur af Pútín, og koma í veg fyrir að Rússar fái að láta kné fylgja kviði í Austur-Evrópu, þar sem viðkvæm staða sé nú, ekki síst vegna mikils flóttamannastraums frá stríðshrjáðum svæðum, einkum Sýrlandi, Írak og Afganistan.
Rússar hafa nú dregið úr umfangi hernaðaraðgerða sinna í Sýrlandi, en þar börðust þeir við hlið stjórnarhers Sýrlands, sem Assad stýrir með harðri hendi. Viðskiptaþvinganir Rússa gagnvart Tyrkjum hjálpa síðan ekki til við að ná tökum á erfiðum aðstæðum og vaxandi ófriði, með skelfilegum afleiðingum tíðra hryðjuverka meðal annars.
Breytt staða á Íslandi?
Ísland, með sína örfáu 333 þúsund íbúa, getur seint talist
verið mikilvægur hlekkur í alþjóðasamstarfi eða á hinu alþjóðapólitíska sviði.
En hinn breytti veruleiki er þó sá, að samstarf ríkja er það sem helst gerir
utanríkispólitíska stefnu skilvirka. Þannig geta lítil ríki gegnt mikilvægu
hlutverki innan ákveðinnar stefnu, ýmist með sérþekkingu sinni eða mikilvægri
svæðisbundinni stjórn.
Viðskiptabann
Rússlands gagnvart Íslandi bitnar öðru fremur á íslenskum sjávarútvegi en viðskipti
með sjávarfang hafa verið vaxandi undanfarin ár milli landanna, ekki síst eftir
íslensk fyrirtæki hófu að selja makríl inn á alþjóðamarkaði. Heildarumfang
viðskiptanna nemur á þriðja tug milljarða. Gunnar Bragi Sveinsson,
utanríkisráðherra, segir það ekki koma til greina að breyta utanríkisstefnu
Íslands til að koma til móts við viðskiptahagsmuni, og því muni Ísland vera
aðili að viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi svo lengi sem hann verði
ráðherra.
Bandaríkjaher horfir hingað
Bandaríkjaher er farinn að horfa meira til Íslands um þessar mundir, og er það helst útþensla Rússa sem sögð er vera ástæðan fyrir því. Það andar köldu milli austurs og vesturs þessa dagana, og greinilegt er að Bandríkjamenn telja mikilvægt að vera á varðbergi.
Í viðtali sem Kjarninn tók við Benjamin Ziff, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, í október í fyrra, þar sem aukinn áhugi Bandaríkjamanna á hernaðarumsvifum á Íslandi var ræddur, sagði Ziff að þróun mála á Norðurslóðum væri mikilvægt atriði þegar kemur að hagsmunum Bandaríkjanna. Þar væri Ísland í raun mitt á milli austur og vesturs, með Bandaríkin og Rússland sitt hvoru megin, og bæði ríkja hafa það á stefnuskránni að styrkja stöðu sína á Norðurslóðum. Ekki væri tímabært að ræða um það hvort Bandaríkjaher væri á leiðinni til Íslands, en frekar væri þörf á því að greina hinar pólitísku útlínur sem varða hagsmuni, þar á meðal Íslands.
Af þessum ástæðum er líklegt, að Ísland verði meira í eldínu alþjóðastjórnmála á næstu árum, heldur en oft áður. Þar sé ekki endilega aukin skipaumferð eða fyrirsjánleg aukin efnahagsumsvif ástæðan, heldur ekki síst pólitískt mat og landfræðileg staða, miðað við núverandi aðstæður.
Ekki fyrirvaralaust
Þrátt fyrir að gamla umráðasvæði Bandaríkjahers á
Miðsnesheiði sé ennþá byggt upp með öllum nauðsynlegum innviðum fyrir dvöl
hersafla á svæðinu, þá getur Bandaríkjaher ekki komið sér fyrir á svæðinu nema
með því að fá grænt ljós frá íslenskum stjórnvöldum, og líklega í samstarfi við
Atlantshafsbandalagið og stjórnsýslu þess.
Stefán Haukur Jóhannesson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, segir að
allar eignir á svæðinu sé undir yfirráðum Íslands. „Við brottför varnarliðsins árið 2006 voru
öll mannvirki á fyrrum varnarsvæðum færð til eignar og umsjár til íslenskra
stjórnvalda og þau mannvirki sem ekki var talin þörf á vegna varna landsins var
skilað til Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins sem framseldi
gistiríkjaábyrgðina til Íslands. Stærsta hluta þessara mannvirkja var síðan
ráðstafað til Isavia og Kadeco sbr. lög nr. 176/2006 og þau varnarmannvirki sem
haldið var eftir vegna öryggis-og varnarhagsmuna Íslands eru nú staðsett á
skilgreindum öryggissvæðum. Eina undantekningin á þessu er áframhaldandi
rekstur bandaríska sjóhersins á fjarskiptastöð í Grindavík. Að öðru leyti eru
öll varnarmannvirki á Íslandi undir stjórn íslenskra stjórnvalda og þau ein
hafa leyfi til að heimila tímabundin afnot af þeim vegna dvalar erlends
herliðsafla á Íslandi, t.d. vegna loftrýmisgæslu eða annarra varnartengdra
verkefna,“ segir Stefán Haukur.
Hver er næsti leikur Pútíns?
Lee Myers heldur því fram í bók sinni að Pútín og rússnesk stjórnvöld eigi nokkra leiki út úr þeim viðskiptaþvingunum sem Evrópuríki og Bandaríkin séu búin að setja upp. Í ljósi hans karaktereinkanna, þá sé hann ólíklegur til að gleyma aðgerðum sem beinast gegn Rússum, og að ef Rússum tekst að ná vopnum sínum á nýjan leik, t.d. með auknu samstarfi við Asíumarkaðsríki, sem vaxi hratt, þá geti Pútín orðin enn árásargjarnari en nú. Óhikað muni hann fara fram, því hann hafi mikla sannfæringu fyrir herstyrk Rússa og hafi auk þess lagt áherslu á að tæknivæða hann, og fylgja þróun eftir í þeim efnum.
Stóra spurningin sem þjóðir heimsins muni þurfa að svara þegar Pútín sé annars vegar, sé hver næsti leikur hans á hinu alþjóðlega sviði verði. Til þessa hafi hann sýnt að hann hafi ógnarsterk tök á Rússlandi – bæði pólitískt og út frá viðskiptahagsmunum innan landsins – og á meðan þau tök séu fyrir hendi þá séu uppi aðstæður sem verði metin sem vaxandi ógn á vesturlöndum og setji ákveðin svæði heimsins, meðal annars þar sem Ísland hefur landfræðilega stöðu, í pólitíska spennutreyju.