Bolshoi leikhúsið í Moskvu hefur lengi talist á meðal fremstu ballet- og óperuhúsa heims en leikhúsið fagnaði í vikunni 240 ára starfsafmæli sínu. Tilurð leikhússins má rekja til 28. mars árið 1776 þegar keisaraynjan Katrín mikla veitti prinsinum Pyotr Urusov leyfi til að setja á laggirnar einkarekið leikhús í miðborg Moskvu. Í upphafi samanstóð leikhúsið af 43 starfsmönnum og boðið var upp á ballett, leikrit og óperu. Urusov fékk svo enska leikhús frumkvöðulinn Michael Maddox í lið með sér og afrakstur samvinnu þeirra var leikhúsið sem síðar varð þekkt um víða veröld undir nafninu “Bolshoi”.
Bolshoi tekur á sig mynd
Árið 1780 var leikhúsið alfarið komið í eigu Maddox og sama ár flutti það í nýtt húsnæði við Petrovka götu en leikhúsið dró eftir það nafn sitt af staðsetningunni og kallaðist jafnan “Petrovsky” leikhúsið. Húsakynni Petrovsky leikhússins skemmdust í brunum árið 1805 og svo aftur árið 1812 - þegar her Napóleons Bónaparte réðst inn í Moskvu.
Endurbygging Petrovsky leikhússins var framkvæmd á árunum 1820-1824 og þar sem nýja leikhúsið var mun stærra og glæsilegra en fyrri húsakynni þess, þá var það kallað “Bolshoi” (eða “Stóra”) Petrovsky leikhúsið. Sú bygging brann svo reyndar einnig til grunna árið 1853 en upp úr öskutónni reis ný og endurbætt bygging Bolshoi leikhússins árið 1856.
Bolshoi leikhúsið hýsti krýningarathöfn keisarans Alexanders II. sama ár en leikhúsið hafði þá verið undir stjórn keisaraveldisins síðan árið 1792. Bolshoi leikhúsið hefur raunar alla tíð síðan verið heimavöllur valdastéttarinnar og efnafólksins í Rússlandi. Leikhúsið gekk því í gegnum reglulegar endurbætur til að tryggja að byggingin uppfyllti ströngustu aðbúnaðar- og öryggiskröfur.
Stalín dyggur aðdáandi
Starfsemi Bolshoi leikhússins sveiflaðist einnig með pólitískum hentugleika og vilja hæstráðenda í Rússlandi á hverjum tíma fyrir sig. Framtíð Bolshoi leikhússins hékk til að mynda á bláþræði í kjölfar Októberbyltingarinnar í Rússlandi árið 1917. Sjálfur Vladimír Lenín, fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna, á þannig að hafa lagt til árið 1918 að Bolshoi leikhúsið yrði einfaldlega jafnað við jörðu.
Afstaða Leníns mun hafa verið eitthvað á þá leið “að leikhúsið væri of dýrt í rekstri og að listamenn þess væru ekkert annað en hrokafullir aurapúkar,” ef marka má frásögn Lidiu Kharina, framkvæmdarstjóra Bolshoi safnsins. Eftir nokkurra ára óvissuástand komst stjórn Bolsévíka hins vegar að þeirri niðurstöðu að Bolshoi leikhúsið fengi að halda áfram starfsemi sinni. Jósef Stalín er þar sagður hafa talað máli Bolshoi leikhússins og náð á endanum að sannfæra Lenín. En Stalín var einmitt tíður gestur leikhússins á tíma sínum sem einræðisherra Sovétríkjanna.
Til merkis um aðdáun Stalíns á Bolshoi leikhúsinu þá gaf hann listamönnum þess undanþágu frá því að sinna herskyldu, jafnvel á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar. Þess í stað var reynt eftir fremsta megni að halda úti sýningum í leikhúsinu. Loftárásir nasista á Moskvu settu þó vitanlega strik í reikninginn. Jafnvel viðleitni Rússa við að dulbúa Bolshoi leikhúsið að utanverðu kom ekki í veg fyrir að Þjóðverjar næðu að varpa sprengju við anddyri leikhússins 22. október árið 1941. Sprengingin olli ekki manntjóni en töluvert tjón varð á framhlið leikhússins og því var lokað á meðan á viðgerðum stóð. Starfsfólk Bolshoi leikhússins sat þó ekki auðum höndum á þessum óvissutíma. Sumir listamennirnir heimsóttu reglulega vígstöðvarnar til þess að skemmta hermönnum Rauða hersins á meðan aðrir gerðust sjálfboðaliðar í hernum.
Orðsporið bíður hnekki
Óhætt er að segja að Bolshoi leikhúsið sé búið að setja sterkan svip á menningu og sögu Rússa í gegnum tíðina. Hin síðari ár hafa þó komið upp nokkur mál sem hafa án vafa orðið til þess að sverta orðspor leikhússins. Eitt af þessum málum varðaði afar umdeildar endurbætur sem Bolshoi leikhúsið gekk í gegnum á árunum 2005-2011. Heimildir eru fyrir því að endanlegur kostnaður framkvæmdanna hafi verið sextán sinnum hærri en upphafleg kostnaðaráætlun hafi gert ráð fyrir. Ásakanir um fjárdrátt og spillingu fóru því óumflýjanlega á kreik í kjölfarið og vöktu reiði almennings í Rússlandi.
Annað mál sem komst í heimsfréttirnar var fólskuleg sýruárás sem Sergei Filin, þáverandi listrænn stjórnandi Bolshoi ballettsins, varð fyrir í byrjun árs 2013. Síðar kom í ljós að Pavel Dmitrichenko, dansari hjá Bolshoi ballettinum, hafði skipulagt árásina og var hann dæmdur í sex ára fangelsi fyrir vikið. Heimildarmyndin Bolshoi Babylon fjallar náið um atvikið en þar kemur fram að kveikjan að árásinni hafi verið ákvörðun Filin að veita ekki kærustu Dmitrichenko, sem einnig var dansari hjá Bolshoi ballettinum, það hlutverk sem hún sóttist eftir.
Það var skammt stórra högga á milli hjá Bolshoi leikhúsinu á árinu 2013. Því skömmu eftir árásina á Filin lét Anastasía Volochkova, fyrrum ein skærasta stjarna Bolshoi ballettsins, stór orð falla í viðtali við rússnesku NTV sjónvarpsstöðina um að Bolshoi ballettinn væri “risastórt vændishús”. Volochkova hélt því fram að lágt settir dansarar hefðu oft verið neyddir til þess að sofa hjá fjársterkum velgjörðarmönnum leikhússins, annars væri framtíð þeirra hjá Bolshoi ballettinum í hættu. Anatoly Iksanov, þáverandi framkvæmdarstjóri Bolshoi ballettsins, vísaði ásökununum alfarið á bug en var stuttu síðar rekinn úr starfi. Vladimír Urin, eftirmaður Iksanov í starfi, talar tæpitungulaust í viðtali í Bolshoi Babylon heimildarmyndinni um vandamál Bolshoi ballettsins. “Við búum í landi þar sem spillingin dafnar. Það er ekkert leyndarmál. Því þarf að breyta og það mun taka tíma. Þá mun allt falla á sinn rétta stað og hæfileikamesti dansarinn mun þá alltaf fá að dansa.”
Íslendingur stelur senunni
Enginn Íslendingur er á meðal þeirra rúmlega 3000 starfsmanna Bolshoi leikhússins í dag. Nokkur dæmi eru þó um að Íslendingar hafi orðið þess heiðurs aðnjótandi að stíga á svið í Bolshoi leikhúsinu í gegnum árin, meðal annars í danskeppnum og á verðlaunahátíðum.
Dansarinn og danshöfundurinn Erna Ómarsdóttir er í þeim hópi en hún dansaði ein á sviði Bolshoi leikhússins árið 2002 þegar sýning hennar, “My Movements Are Alone Like Streetdogs”, var tilnefnd til Benois de la danse verðlaunanna. Danssýningin þótti nokkuð djörf og óhefðbundin til sýningar í Bolshoi leikhúsinu og viðbrögð sýningargesta létu ekki á sér standa. “Áhorfendur skiptust algjörlega í tvo hópa, með og á móti mér þarna á sviðinu og hávaðinn og hrópin voru eins og á fótboltaleik,” sagði Erna í viðtali við Morgunblaðið og viðurkenndi enn fremur að sýningin hefði verið erfiðasta reynsla sem hún hafi gengið í gegnum á sviði.
Rússneska dagblaðið The Moscow Times fjallaði um bæði danssýninguna og frammistöðu Ernu á sínum tíma. Í umfjöllun blaðsins er dómnefnd verðlaunahátíðarinnar reyndar harðlega gagnrýnd fyrir að hafa yfir höfuð tilnefnt svo “svívirðilega” danssýningu. Ernu er aftur á móti hrósað í hástert fyrir að sýna “algjört sjálfsöryggi og yfirvegun” við afar krefjandi aðstæður - á sviði í sjálfu Bolshoi leikhúsinu.