Framsóknarflokkurinn er í sárum eftir vendingar síðustu daga. Ákvörðun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, um að sitja áfram á þingi og víkja ekki sem formaður hefur valdið mörgum Framsóknarmönnum áhyggjum.
Kjarninn er að fylgjast með umræðum á Alþingi í beinum fréttastraumi hér
Heimakjördæmið skellir í lás
Framsóknarmenn í heimakjördæmi Sigmundar Davíðs, norðausturkjördæmi, eru uggandi yfir stöðunni sem komin er upp innan flokksins, sem er sagður verulega laskaður eftir atburði síðustu daga.
Gunnlaugur Stefánsson, oddviti Framsóknar á Húsavík, segir að Sigmundur hafi strax átt að segja af sér sem ráðherra. Varðandi áframhaldandi formennsku segir hann það muni gerast á vettvangi flokksins.
„En ég á síður von á því að hann hljóti brautargengi,” segir hann. „Fólk er slegið, en menn takast bara á við þá stöðu.” Hann segir áframhaldandi formennska Sigmundar skaði gengi flokksins í komandi kosningum.
„Framsóknarflokkurinn verður örugglega smá stund að vinna úr þessu og Sigmundur á eftir að skýra málið fyrir okkur,” segir Gunnlaugur. „Svo finnst mér að formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins eigi að fara að fordæmi Sigmundar og stíga til hliðar.”
„Pólitíkin hefur sett á hann stöðvunarskyldu”
Það vakti athygli eftir Kastljósþátt sunnudagsins þegar Framsóknarflokkurinn á Akureyri sendi frá sér yfirlýsingu þar lýst var yfir algjöru vantrausti á Sigmund Davíð og hann hvattur til að segja af sér ráðherraembætti og sem formaður.
Jóhannes Bjarnason, fyrrverandi oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri, segist vera fullkomlega ósáttur við ástandið eins og það er.
„Sigmundur hrökklast úr ráðherrastól, ástæðuna vitum við öll og fólki ofbauð gjörsamlega. Ég skildi aldrei þetta orðskrípi „pólitískur ómöguleiki,” en nú er ég farin að skilja það. Það er „pólitískur ómöguleiki” að maður sem getur ekki setið sem ráðherra, vegna þess að hann verður uppvís að því að fela upplýsingar, heldur áfram að vera formaður. Því formaður í flokki hefur það að takmarki að leiða flokkinn inn í kosningar og væntanlega að ná þeim árangri að komast í ríkisstjórn og þá verða ráðherra. Það er ekki hægt,” segir Jóhannes. „Þessi heiftarlegi dómgreindarbrestur með þennan aflandsreikning, hann breytist ekkert. Hann verður að hætta sem formaður flokksins og hann verður að hætta á þingi.”
Jóhannes segir að ef flokkurinn eigi að ná vopnum sínum aftur verði formaðurinn að víkja.
„Það má nú vera ljóta pólitíska blindan að átta sig ekki á því að hann geti ekki haldið áfram sem formaður,” segir hann. „Þó að Ísland væri efst á öllum lífkjaralistum í heiminum, breytir það því ekki að hann gerði heiftarleg mistök og að pólitíkin hafi sett á hann stöðvunarskyldu. Hvað þarf meira til en pólitískan ærumissi á alþjóðlegan, stóran mælikvarða?” Jóhannes undirstrikar þó að Sigmundur hafi gert margt gott í gegn um tíðina, þá sérstaklega varðandi uppgjör við slitabú föllnu bankana.
Reiddist vegna spurningar um rasisma
Jóhannes lýsir fundi sem hann átti með framsóknarmönnum eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar og á svipuðum tíma og Gústaf Níelsson var útnefndur fulltrúi Framsóknarflokks í mannréttinda- og samfélagsráð Reykjavíkurborgar. Þá höfðu ráðherrar og þingmenn lýst því yfir að Framsóknarflokkurinn væri ekki að leggja lag sitt við öfgaskoðanir eins og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallavina, var sögð daðra við í Reykjavík.
„Þau höfðu öll staðfest þetta og Gunnar Bragi tók kannski sterkast til orða,” segir Jóhannes. „Svo kom Sigmundur og flutti ræðu á fundinum og að henni lokinni voru fyrirspurnir. Ég spurði hvort hann vildi í góðu tómi taka af öll tvímæli með að þessi núningur við svona rasistadrasl í þessum málum sem borgarstjórnarflokkurinn var nuddað upp úr, að sekju eða ósekju, væri ekki það sem Framsóknarflokkurinn stæði fyrir. Hann reiddist ofboðslega og las mér pistilinn um að það væri eitt að eiga við pólitíska andstæðinga, en að það væri andstyggilegt að þurfa að fá hnífstungur úr eigin flokki. Svo rauk hann úr pontu.”
Á ekki afturkvæmt heim
Jóhannes segir að Sigmundur hafi ekki áttað sig á að hann eigi ekki afturkvæmt í norðausturkjördæmi.
„Að mínu mati sendi hann okkur þannig eiturpillu eftir yfirlýsinguna, að hann kemur ekkert hingað og talar við okkur sem formaðurinn okkar,” segir hann. Sigmundur svaraði því til á Bylgjunni og á Akureyri.net í vikunni að yfirlýsing Framsóknarmanna á Akureyri hafi ekki komið á óvart, enda hafi „þessir aðilar ekki beint talist til stuðningsmanna sinna, en þeir hafi viljað annan formann en sig og þeir hafi áður gert svipað gegn sér. Þar er Sigmundur að vísa í Höskuld Þórhallsson.
Kjördæmabræður berjast
Höskuldur, flokksbróðir Sigmundar í norðausturkjördæmi, átti eftirminnilega innkomu í kastljós fjölmiðla á miðvikudagskvöld eftir þingflokksfund Framsóknarflokksins. Höskuldur gekk í gin ljónanna, að eigin sögn óafvitandi, og sagði fjölmiðlum, á undan formanni flokksins, frá nýrri ráðherraskipan. Þá gagnrýndi hann Sigmund Davíð fyrir að hafa verið óskýr í svörum varðandi áframhaldandi þingsetu, en undirstrikaði að hann hafi staðið í þeirri meiningu að oddvitar flokkanna hefðu upplýst fjölmiðla um stöðu mála. Höskuldur segir í Fréttablaðinu í dag að Sigmundur eigi að víkja af þingi, leggja fram gögn tengdum fjármálum sínum, ef þau eru til, og skýra mál sitt betur.
Það kemur kannski fáum á óvart að Höskuldur skuli nýta tækifærið þegar Sigmundur er laskaður. Höskuldur tapaði fyrir Sigmundi í einkar eftirminnilegum formannskosningum árið 2009, þegar hann var ranglega fyrst tilkynntur formaður vegna mistaka í talningu. Fyrst var tilkynnt að Höskuldur hefði hlotið 449 atkvæði og Sigmundur 340, en því var öfugt farið.
„Ég hef stutt Sigmund”
Viðbrögð Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, eftir ríkisráðsfundinn á Bessastöðum í gær voru athyglisverð. Eygló var innt eftir traustsyfirlýsingu af fréttamanni RÚV í þrígang, en hún sagðist alltaf „hafa stutt Sigmund Davíð” þegar hún var spurð hvort hún styðji hann nú. Það var svo í þriðja sinn sem fréttamaðurinn náði að draga hálfmáttlausa traustsyfirlýsingu upp úr henni.
Gunnar Bragi styrkir stöðu sína í Skagafirði
Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og nýr landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, deilir norðvestur kjördæmi með Ásmundi Einari Daðasyni, þingflokksformanni Framsóknarflokksins. Eins og alþjóð veit hefur Gunnar Bragi sinnt utanríkisráðherrastarfinu af miklum metnaði undanfarin ár, meðal annars með því að dvelja mikið á erlendri grund.
Ráðherrann hefur verið gagnrýndur í sínu heimakjördæmi fyrir að leggja það hálfpartinn á hilluna fyrir utanríkismálin og þá sér í lagi varðandi ákvarðanir sínar um viðskiptaþvinganir Íslands gegn Rússum. Kaupfélag Skagfirðinga var til að mynda ekki paránægt með það.
Þeir Framsóknarmenn sem Kjarninn hefur rætt við í Skagafirði segja flokkinn í sárum. Mikilvægt sé að tryggja nýrri ríkisstjórn vinnufrið til að hún nái að klára mikilvæg mál. Menn hafa ekki mikla skoðun á Sigurði Inga, nýja forsætisráðherranum, en þeir sem þekkja til bera honum vel söguna.
Ásmundur átti að verða ráðherra
Gunnar Bragi er nú að taka við einu mikilvægasta ráðherraembætti síns kjördæmis. Upphaflega stóð til að gera Ásmund Einar að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en eftir að Sigmundur Davíð bar upp þá tillögu á þingflokksfundi eftir frægan fund á Bessastöðum, að Lilja Alfreðsdóttir kæmi inn í ríkisstjórnina, var fallið frá þeirri hugmynd. Gunnar Bragi flaug í snatri heim frá Indlandi og studdi Sigmund Davíð í þessari hugmynd. Með því að koma heim til Ísland og verða landbúnaðarráðherra styrkir Gunnar Bragi stöðu sína mikið fyrir komandi kosningar - og veikir þar með stöðu Ásmundar Einars.
„Ég fagna því að Gunnar Bragi sé kominn heim og kominn í landbúnaðarráðuneytið,” segir Ingi Björn Árnason, stjórnarmaður Ungra Framsóknarmanna í Skagafirði. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málefni Framsóknarflokksins og sagði það vera línuna meðal samtakanna.
Kjarninn er að fylgjast með umræðum á Alþingi í beinum fréttastraumi hér