Erlendir sérfræðingar sem ráðnir verða til starfa hér á landi munu einungis þurfa að greiða skatta af 75 prósent af tekjum sínum í þrjú ár verði nýtt frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um breytingar á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti að lögum. Fjórðungur tekna þeirra verður því skattfrjálsar og undanþegnar staðgreiðslu skatta í umrædd þrjú ár. Í frumvarpinu er einnig lagt til að núgildandi skattaívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar verði hækkaðar verulega. Hámark slíks kostnaðar til almennrar viðmiðunar á frádrætti á að hækka úr 100 milljónum króna í 300 milljónir króna og úr 150 í 450 milljónir króna þegar um aðkeypta rannsóknar- og þróunarþjónustu er að ræða frá ótengdu fyrirtæki, háskóla eða rannsóknastofnun.
Auk þess gerir frumvarpið ráð fyrir að breytingu á skattalegri meðferð tekna vegna kaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem hann hefur öðlast vegna starfa fyrir anna aðila með þeim hætti að tekjurnar verða skattlagðar við sölu bréfanna í stað afhendingardags eins og nú er. Þá er lagt til að hagnaður eigenda breytilegra skuldabréfa, sem breytt er í hlutabréf á lægra verði en gildir almennt á markaði, verði skattlagður við sölu skuldabréfanna í stað nýtingar breytiréttarins, að einstaklingar sem kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem falla undir frumvarpið geti fengið skattaafslátt vegna þeirra kaupa og að veltuviðmið við skilgreiningu lítilla fyrirtækja verði leiðrétt með tilvísun tilvísun í nýja reglugerð í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.
Frumvarpinu var dreift 4. apríl síðastliðinn, daginn eftir frægan Kastljósþátt sem opinberaði aflandsfélagatengsl íslenskra ráðamanna. Það vakti því litla athygli þegar því var dreift. Fyrsta umræða um frumvarpið fer fram á Alþingi í dag.
Á að laða erlenda sérfræðinga til landsins
Sú breyting að veita erlendum sérfræðingum sem ráða sig til starfa á Íslandi skattaafslátt er í samræmi við það sem gert hefur verið víða í löndunum í kringum okkur til að tryggja aukna samkeppnishæfni. Í frumvarpinu segir: „ Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er stefnt að því að greiða fyrir og laða að landinu erlenda sérfræðinga til starfa hér á landi, ekki hvað síst í íslenskum tækni- og rannsóknarfyrirtækjum og háskólasamfélaginu. Margir telja að á Íslandi vanti fólk með sérfræðiþekkingu á vissum sviðum, svo sem tæknimenntað starfsfólk, starfsfólk með hugbúnaðarþekkingu og þekkingu á markaðssetningu á stórum erlendum mörkuðum auk sérfræðinga til kennslu í háskólasamfélaginu. Ákvæðinu er þar með ekki ætlað að taka til íþróttamanna eða þjálfara sem ekki eru beinir þátttakendur í atvinnulífinu.“
Tillagan er að mestu að sænskri fyrirmynd og hvetur fyrirtæki til að koma á fót hágæðastarfsemi innan lands sem geri þeim auðveldara fyrir að fá til sín aðila sem búa yfir nauðsynlegri þekkingu og hæfni svo að ekki þurfi að fara með viðkomandi starfsemi úr landi. „Mikil verðmæti geta verið fólgin í því að fá sérfræðiþekkingu til landsins þar sem þekking er af skornum skammti. Vegna þessa hafa lönd eins og t.d. Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Finnland, Holland og Kanada sett reglur um skattalega hvata til að laða til sín erlenda sérfræðinga og eru þær mikilvægur liður í að tryggja samkeppnishæfni í viðskiptaumhverfi viðkomandi landa. Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem ekki hefur lögfest ákvæði sem ætlað er að bæta umhverfi erlendra sérfræðinga, svo sem sérfræðinga í rannsóknum og þróun, framleiðslu, stjórnun, skipulagningu, markaðssetningu, verkfræði, fjármálum, upplýsingatækni, samskiptatækni og kennslu, svo eitthvað sé nefnt.“
Kallaði eftir breytingum
Kjarninn birti viðtal við Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóra
nýsköpunarfyrirtækisins Nox Medical í lok síðasta mánaðar, örfáum dögum áður en
frumvarpinu var dreift. Þar sagði hann meðal annars að Ísland væri ekki samkeppnishæft eins og er þegar kemur að uppbyggingu
fyrirtækja eins og Nox Medical. Hvatarnir og tækifærin séu einfaldlega
meiri annars staðar. Það þurfi þó ekki að vera þannig. Ákvörðunin sé einfaldlega
pólitísk og snúist um vilja.
Pétur sagði að hækka þyrfti þakið á endurgreiðslum
ríkisins vegna fjárfestingar í rannsóknum og þróun, sem er í dag þannig að
ríkið greiðir 20 prósent til baka fyrir allt að 100 milljónum króna sem settar
eru í slíkt. Hann benti á að Nox Medical væri til að mynda ða fjárfesta fyrir
300 milljónir króna á ári í rannsóknum og þróun og væri því komið langt umfram
endurgreiðsluhámarkið í þeirri viðleitni sinni að þróa nýjar vörur og stækka umfang
reksturs síns. Ef
Nox Medical væri staðsett til dæmis í Ástralíu, þar sem helsti samkeppnisaðili
fyrirtækisins er með heimilisfesti, væri endurgreiðslan 45 prósent af
öllu sem eytt væri í rannsóknir og þróun og hámarksgreiðslur eru bundnar við
tekjur, ekki fasta upphæð.„Hvar er þá skynsamlegt fyrir okkur að fara í uppbyggingu?
Því miður er svarið ekkert flókið og reikningsdæmið ekki heldur, það er
ekki á Íslandi. Við viljum vera hérna en það er mun skynsamara og hagkvæmara
fyrir okkur að byggja þennan hluta starfseminnar, rannsóknir og þróun,
upp í til dæmis Ástralíu,“ sagði Pétur.
Í viðtalinu sagði hann einnig frá þv´iað erfitt væri að manna fyrirtæki á borð við Nox Medical á meðan að það væri með starfsemi sína hérlendis. „ Ef Nox Medical væri staðsett til dæmis í Ástralíu, þar sem helsti samkeppnisaðili fyrirtækisins er með heimilisfesti, væri endurgreiðslan 45 prósent af öllu sem eytt væri í rannsóknir og þróun og hámarksgreiðslur eru bundnar við tekjur, ekki fasta upphæð.
„Hvar er þá skynsamlegt fyrir okkur að fara í uppbyggingu? Því miður er svarið ekkert flókið og reikningsdæmið ekki heldur, það er ekki á Íslandi. Við viljum vera hérna en það er mun skynsamara og hagkvæmara fyrir okkur að byggja þennan hluta starfseminnar, rannsóknir og þróun, upp í til dæmis Ástralíu.“
Frumvarpið sem rætt verður um í dag gerir ráð fyrir að þetta breytist.