Stærstu mótmæli Íslandssögunnar fóru fram á Austurvelli mánudaginn 4. apríl 2016. Myndir af mótmælunum hafa farið eins og eldur í sinu um allan heim og umfjöllunin hefur verið mikil. Talið er að um 22.000 manns hafi mætt. En það eru margir einstaklingar sem leggja hönd á plóg við skipulagningu mótmæla sem þessara. Kjarninn talaði við nokkra skipuleggjendur úr Jæja-hópnum og við Skiltakarlana og kannaði hvað liggur að baki.
Einn af þeim mótmælendahópum sem hefur verið áberandi er svokallaður Jæja-hópur. Hann var stofnaður í október 2014 en fyrstu mótmælin voru 4. nóvember sama ár. Síðan þá hefur hópurinn staðið fyrir tugum viðburða en meðlimir hópsins vilja þó árétta að þeir séu aðeins skipuleggjendur og að það sé fólkið sem mæti sem haldi starfinu uppi. Kjarni hópsins samanstendur af í kringum tíu manns, konum og körlum úr ólíkum áttum. Allt kostar þetta peninga og hefur fólk, sem tekið hefur þátt í skipulagningu mótmæla, unnið í sjálfboðavinnu til þess að gera viðburðina mögulega. Mikil vinna getur legið að baki og ýmiss konar reddingar.
Leit á Ísland sem paradís til að ala upp börnin sín
Sara Oskarsson listakona kemur úr sjálfstæðisfjölskyldu og hugsaði lítið um pólitík sem unglingur og ung manneskja. Hún ólst upp í Skotlandi en faðir hennar var í læknisnámi þar. Hún flutti níu til tíu ára aftur heim til Íslands en fór aftur út um leið og hún gat og menntaði sig. Eftir að hún eignaðist fjölskyldu kom hún aftur endanlega heim til Íslands árið 2012. Hún segist hafa viljað ala upp börnin sín á Íslandi. „Ég sá fyrir mér ákveðna paradís að vera hér. Svo flytjum við hingað og í lok 2012 er ég orðin ófrísk og fæ meiri áhuga fyrir stjórnmálum.“
Árið 2013 var hún ófrísk og því nýtti hún sér mikið heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Faðir hennar er læknir og því var hún mjög meðvituð um læknisfræði og starfshætti lækna og hvað þyrfti til til að það gengi vel að vinna á spítala. „Ég hafði einnig viðmið við læknisþjónustu í Bretlandi. Ég var nýbúin að eiga barn þar úti,“ segir hún. Hún segist hafa fundið mikinn mun á löndunum tveimur varðandi heilbrigðisþjónustuna. Allt væri ókeypis og hún upplifði meira öryggi sem sjúklingur í Bretlandi.
Eitthvað var ekki eins og það átti að vera
Í enda árs 2014 var hún aftur byrjuð að mála eftir barnseignarleyfi og fylgdist með fréttum og umræðum í samfélaginu. Hún segir að þáttaskilin fyrir hana hafi verið þegar læknar byrjuðu í kjarabaráttu. „Ég er læknisdóttir og ég vissi að það þyrfti gríðarlega mikið til að læknar, sem væru búnir að skrifa undir Hippokratesareiðinn, do no harm, færu út í svona,“ segir Sara. Hún spurði sjálfa sig á þessum tíma hvað væri eiginlega í gangi í íslensku samfélagi. „Þetta átti að vera hreiðrið fyrir börnin mín. Ísland átti að vera svo æðislegt,“ segir hún. Eitthvað hafi ekki verið eins og það átti að vera.
Hún tók sig því til og skrifaði pistil á Facebook og nokkrum dögum seinna komst hún í samband við fólk sem var að skipuleggja mótmæli á Austurvelli. Þannig komst hún inn í Jæja-hópinn og hefur verið virk í skipulagningu síðan í nóvember 2014.
„Fallegur dagur í hugsjóninni“
Sara skráði niður öll gögn frá fyrsta degi og kallaði verkefnið „Fallegur dagur í hugsjóninni.“ Hún segir að núna sé þetta verkefni orðið 1.200 blaðsíður að lengd. „Ég fann það á fyrsta fundinum að þetta væru allt stórir karakterar,“ segir hún.
Síðan þá hefur hópurinn staðið fyrir fjölmörgum mótmælum og viðburðum. „Við leggjum gríðarlega áherslu á það atriði að reiðin eða mótmælin, raddirnar eða kvartanirnar beinist að þeim sem eiga það skilið. Ekki að lögregluþjóni sem er í starfinu sínu. Líka er mikilvægt að leyfa ekki atburðum sem gætu reynst óréttlátir að tefla fólki eða hópum saman. Að tefla ekki saman almenningi og lögreglu eða fylkingum á meðal mótmælenda,“ bendir Sara á. Þau tóku strax ákvörðun um að hafa mótmælin friðsamleg og geta hugsað sér að fara út í borgaralega óhlýðni.
Upplifði valdníðslu
Sara man bara eftir einu atviki þar sem henni fannst vegið að hópnum. „Mér blöskrar enn þá þegar ég hugsa um þetta. Hversu alvarlegt þetta var. Þetta hefur setið í mér og kemur oft upp í hugann,“ segir hún. Þann 15. apríl 2015 lentu mótmælendur í einkennilegri aðstöðu fyrir framan Alþingishúsið þar sem þingvörður lenti í stimpingum við einn úr hópnum. 888 dagar voru liðnir frá því þingsályktunartilllaga var samþykkt um að rannsókn á einkavæðingu bankanna ætti að fara fram en ekkert bólaði á þessari rannsókn.
Þetta endaði þannig að þau voru fjögur til fimm með krítar að kríta á stéttina á Austurvelli og sérsveitin mætti á svæðið. Einn úr hópnum var handtekinn og Jæja-hópurinn ákvað að fara með málið í fjölmiðla og deila myndbandi af atburðinum. Sara segir að hún hafi upplifað viðbrögð þingvarðarins sem valdníðslu. „Þetta var góð leið til segja: Þú mátt ekki rífa kjaft,“ segir hún.
Margir óttaslegnir við að segja skoðun sína
Fyrst þegar þau voru að byrja að skipuleggja mótmæli var fólk mjög hrætt við að segja skoðanir sínar, segir Sara. „Við vorum að fá skilaboð frá fólki sem sagðist ætla að mæta en það vildi ekki að vinnuveitendur þeirra myndu sjá það eða vita af því,“ segir Sara. „Þetta sló mig rosalega. Þetta er ekkert annað en kúgun af mjög stórri gráðu.“ Hún segir að þetta hafi aðeins lagast en að enn séu sumir óttaslegnir við að segja skoðanir sínar af ótta við að t.d. missa vinnuna. Sumir skráðu sig líka á viðburðina á Facebook eftir á.
Þetta hefur reynt mikið á
Sara segir að þetta hafi verið mjög erfitt og að fyrst núna sé vinnan hennar viðurkennd í fjölskyldunni hennar. „Sumir hafa upplifað þetta sem eitthvað óhreint. Að mótmæla og standa upp á móti þeim sem eru með valdið, “ segir hún. „Ég segi bara eins og er, það var ekkert sérstaklega vel tekið í það í byrjun.“ Hún segir að maðurinn sinn hafi staðið við hlið hennar eins og klettur en að þetta hafi reynt gífurlega mikið á hana.
Sara segir að viðbrögð almennings við mótmælunum hafi verið allajafna góð. Aftur á móti man hún eftir einu skipti sem reyndi mikið á Jæja-hópinn og var það 17. júní í fyrra. Mörgum fannst óviðeigandi að mótmæla á þjóðhátíðardaginn. Henni fannst meira en í lagi að mótmæla þennan dag en segir þó að þau hafi gert mistök að gera ekki hlé á mótmælum þegar Mótettukórinn söng og þegar þjóðsöngurinn var sunginn.
Af hverju heldur hún áfram?
Svarið er einfalt: „Ég get ekki annað!“
„Hvað ef ég sit bara heima? Ég verð svo sár og hrædd ef ég geri ekki neitt. Gera bara eitthvað, betra en að vera bara heima. Jú, jú, þetta er álag en ég þoli það alveg núna,“ segir hún. Hún segir líka að stuðningur frá hinum ýmsu aðilum í samfélaginu með mikla réttlætiskennd hafi drifið hana til að halda áfram. „Ég virkilega trúi því að ástandið muni breytast einhvern tímann,“ segir hún að lokum.
Stemningin í samfélaginu kyndir undir þörf fyrir mótmæli
Andri Sigurðsson, hönnuður og forritari og eigandi Vefstofunnar, er einn þeirra sem stendur fyrir Jæja-hópnum. „Fyrstu mótmælin sem við héldum voru almenns eðlis. Við gerðum skoðanakönnun og spurðum hverju ætti að mótmæla,“ segir hann. Mörg málefni bar á góma, meðal annars afnám veiðigjalds og lekamálið. Andri telur að stemningin, sem byrjuð var að myndast á þessum tíma í samfélaginu í lok árs 2014, hafi kynt undir þörfina fyrir mótmæli.
Von um að hægt sé að breyta samfélaginu til hins betra
„Ég er búinn að vera að mótmæla síðan í hruninu. Ég var t.d. í hópi í Búsáhaldabyltingunni sem skipulagði mótmæli,“ segir Andri. „Það er einhvers konar réttlætiskennd og von um að hægt sé að breyta hlutunum sem rekur mann út í svona hluti. Löngun til að breyta samfélaginu og von um að það þróist áfram.“
Andri segir að það séu neyðarviðbrögð þegar fólk mætir á Austurvöll. Fólki finnist eins og það geti ekki gert neitt annað. Fulltrúar okkar á Alþingi séu ekki að hlusta á okkur og þá fari fólk niður á Austurvöll og berji í grindverk.
„Ég áttaði mig á því að eitthvað merkilegt hefði gerst“
„Þegar maður er sjálfur inni í storminum er erfitt að meta stemninguna eða hversu margir mæta,“ segir Andri. Hann segist hafa áttað sig á afleiðingunum eftir á. „Ég áttaði mig á því að eitthvað merkilegt hefði gerst.“ Hann segir að reiðialdan í samfélaginu hafi valdið því að svo mikill fjöldi fólks hafi safnast saman 4. apríl. „Þetta æxlaðist þannig að við, Jæja-hópurinn og Skiltakarlarnir, vorum búin að ákveða fyrir páska að halda þennan fund, áður en þessar upplýsingar fóru að leka út,“ segir Andri. Þar á hann við upplýsingar um eignir Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu fyrrverandi forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í aflandsfélögum. Hann segir að þau hafi ekki haft hugmynd um Kastljósþáttinn eða gagnalekann. „Ég var bara í sumarbústað uppi í Hvalfirði með dætrum mínum tveimur að hlusta á Sprengisand þegar Sigmundur kemur í viðtalið og þá vorum við búin að ákveða að halda þessi mótmæli.“
Andri segir að þegar Kastljósþátturinn var sýndur þá hafi það virkjað fólk úr ýmsum áttum. Hann telur einnig að veðrið hafi haft sitt að segja. Góða veðrið hafi hjálpað til og fólk hafi verið ennþá viljugra til að koma á mótmælin þennan örlagaríka dag. „Það voru allir þessir samvirkandi þættir sem urðu til þess að allt þetta fólk kom,“ segir hann. Hann bætir við að veðurfarið og árstíminn hafi alltaf haft áhrif á mótmæli. Vor og sumar henti því vel til mótmæla.
Ákvarðanir liggja hjá fólkinu sem mótmælir
„Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi og þakklæti,“ segir Andri þegar talið berst að því hvernig viðbrögð samfélagsins, vina og fjölskyldu hafa verið. Hann lítur á Jæja-hópinn sem skipuleggjendur og hann telur að ákvarðanir liggi hjá fólkinu sjálfu sem kemur á mótmælin.
„Síðasta vika var náttúrulega geggjuð,“ segir Andri. „Við reynum að hlusta á fólk og lesa í stöðuna í hvert skipti. Er t.d. stemning fyrir að halda mótmælum áfram?“ Hann segist allavega persónulega líta þannig á skipulagningu mótmælanna.
Ætla ekki að hætta að mótmæla
Fólk heldur áfram að mæta á Austurvöll, segir Andri. „Við viljum sýna alþingismönnum að við séum enn þarna úti og að við séum enn að bíða eftir því að hlustað verði á okkur,“ bætir hann við. Hann segir að það sé ákveðið aðhald fyrir þingmenn að heyra í drununum og hávaðanum fyrir utan Alþingishúsið. „Við ætlum ekkert að hætta fyrr en við fáum það sem við viljum,“ bætir hann við. Mjög erfitt sé að segja til um framhaldið, hversu lengi nákvæmlega mótmælin munu halda áfram og hvernig úthaldið verði hjá almenningi.
Mikið samstarf milli skipuleggjenda
Andri bendir á að margir hópar mótmælenda séu að vinna saman en hver hafi sitt hlutverk. Hann tekur sem dæmi teljarana, það er að segja fólkið sem sér um að telja þá sem koma á mótmælin. „Það eru t.d. gaurar sem ákváðu upp á sitt einsdæmi að koma og telja,“ segir Andri. Hann bendir líka á að annar hópur hafi komið með tunnurnar og útvegað pallbíl til að flytja þær. Mótmælahald sé því samstarfsverkefni margra einstaklinga og hópa sem láta sig málin varða.
Mikið ósamræmi hefur verið milli talningar mótmælenda og lögreglu. Til dæmis áætlaði lögreglan 9.000 manns á Austurvelli mánudaginn 4. apríl en samkvæmt talningu mótmælenda voru um 22.500 manns á svæðinu þann daginn.
Daði Ingólfsson er einn þeirra sem sér um talninguna og segir hann að ekki sé hægt að treysta á þær tölur sem í boði eru og að þær séu ekki til þess fallnar að auka traust fólks á þeim yfirvöldum sem gefa þær upp. Þannig að ekki væri annað í stöðunni fyrir teljarana en að gera þetta sjálfir. „Mér misbauð sú útgáfa af raunveruleikanum sem ráðamenn þessa lands buðu okkur að trúa og bjóða enn,“ segir hann um ástæður þess að taka þátt í mótmælunum. Hann segist ætla að halda áfram að mótmæla þangað til stjórnvöld axli ábyrgð á þeim trúnaðarbresti sem orðið hefur.
„Gamlir karlar“ að berjast fyrir betra lífi
Ólafur Sigurðsson, eða Óli eins og hann er kallaður, er einn Skiltakarlanna sem staðið hafa fyrir hinum ýmsu mótmælum og verið í samstarfi við Jæja-hópinn og fleiri. Hann segir að hann vilji kosningar strax vegna þess að hann telur að ríkisstjórnin sé umboðslaus stjórn sem búin sé að vera stöðugt undir kjörfylgi í eitt ár. Hann segir að Skiltakarlarnir séu gamlir karlar sem berjist fyrir því að fólk geti búið á Íslandi með börnunum sínum.
Vildi láta í sér heyra
„Ég er hefðbundinn Íslendingur sem var rændur,“ segir Leifur Benediktsson sem er annar Skiltakarl og skipuleggjandi mótmæla. Hann segir að eftir hrunið hafi nokkrum milljónum verið stolið af honum af Landsbankanum. Hann ákvað því að láta í sér heyra og segist hafa elt alla útifundi sem hann fann. Hann segist einnig hafa mótmælt vinstri stjórninni og því sé þetta ekki pólitískt.
Þeir Óli kynntust þegar þeir fóru í framboð fyrir Lýðræðisvaktina en þegar það gekk ekki upp þá spurðu þeir sjálfa sig hvernig þeir gætu sýnt andstöðu. Úr varð að þeir byrjuðu að setja upp skilti hér og þar, á umferðareyjar og þar sem fólk gæti séð þau.
Skiltakarlarnir stóðu fyrir mótmælum fyrir framan Landsbankann í Austurstræti vegna sölu bankans á hlut sínum í Borgun. Yfirskrift mótmælanna var „Lokað vegna spillingar“ en RÚV fjallaði meðal annars um mótmælin. Leifur segir að mikil reiði hafi verið í fólki og að þeir hafi ákveðið að gefa út ákeðna yfirlýsingu. Hann segist hafa farið einn í Borgun og beðið þá um að skila þýfinu.
Tók sér frí í viku til að mótmæla
Atburðir síðustu vikna hafa elft Skiltakarlana og tók Leifur sér til að mynda vikufrí frá vinnu til þess að geta einbeitt sér að mótmælunum. Þeir voru búnir að plana að halda mótmæli 4. apríl tveimur vikum áður og því hitti sú dagsetning rækilega í mark.
Leifur segir að þeir hafi kynnst Jæja-hópnum meðal annars í gegnum ESB-mótmælin í fyrra og síðan þá hefur ákveðið samstarf verið á milli hópanna. Hann segir að það sé gott að vinna með þessu unga fólki og að þau bæti hvort annað upp ef svo mætti að orði komast. Hann og Óli séu með margs konar reynslu eftir lengra líf sem hægt er að nýta með hugsjónum þeirra í Jæja-hópnum.
„Það sem ég vil sjá út úr þessum mótmælum, sem pabbi og maður á sextugsaldri, er að við stöðvum ránið og stoppum spillinguna. Ég vil fá kosningar strax,“ segir Leifur að lokum.