Rúgbrauð og rauðkál, bananar og brennivín, majones og mjólk, kaffi og kótelettur, tómatar og tartalettur, núðlur og nautasteikur. Allt þetta og ótalmargt annað blasir daglega við blaðalesendum í heilsíðuauglýsingum danskra verslana. Allt á tilboði auðvitað. Undanfarna daga hefur hinsvegar birst á síðum blaðanna, í biðskýlum strætisvagna, á Metrostöðvunum í Kaupmannahöfn og víðar, óvenjuleg auglýsing frá Boeing flugvélaverksmiðjunum. Eins og geta má nærri er þar ekki verið að auglýsa kjöt og nýlenduvörur heldur orustuvél. F 18 Super Hornet. Verðið kemur ekki fram í auglýsingunni en hinsvegar fullyrt að með því að velja þessa gerð orustuvélar fremur en vél frá ”keppinautunum” spari danska þjóðin allt að 20 milljörðum króna (ca. 380 milljarðar íslenskir) á næstu 30 árum. Ekki er útskýrt hvernig þessi niðurstaða er fengin.
Tilefni auglýsingarinnar er flestum Dönum kunnugt og kemur reyndar fram í textanum: til stendur að kaupa nýjar orustuvélar.
Flugflotinn orðinn aldraður
Danski flugherinn ræður yfir 30 orustuþotum, þær eru af gerðinni F16 (Fighting Falcon) frá Lockheed Martin.
Þoturnar eru allar orðnar gamlar, flestar frá því um 1980. Þótt þær hafi á sínum tíma verið meðal þeirra fullkomnustu sem völ var á, og enn nothæfar, þurfa þær mikið viðhald og tæknibúnaðurinn, að sögn, ekki lengur í samræmi við kröfur nútímans.
Margra ára vangaveltur
Mörg ár eru síðan umræður um endurnýjun flugflotans hófust. Þingmenn og yfirmenn hersins eru sammála um að það sem sumir þeirra hafa kallað ”viðskipti aldarinnar” þurfi vandaðan undirbúning og ekki megi hrapa að ákvörðunum. Nokkrar nefndir hafa, í gegnum árin unnið að undirbúningnum, vegið og metið kosti og galla einstakra flugvélagerða, reynt að leggja mat á þarfir danska flughersins á komandi árum o.s.frv. Mikilvægt er að vandað sé til verka, áður en ákvörðun er tekin. Fjárfestingin er mikil, vélarnar þurfa að henta verkefnum danska flughersins, tryggt þarf að vera að varahlutir verði fáanlegir næstu áratugi svo fátt eitt sé nefnt.
Verkefnin
Í dag skiptast verkefni flughersins í þrjá meginflokka.+
1. Eftirlit með danskri lofthelgi. Þessu sinna að jafnaði tvær vélar. Verkefnið er að fylgjast með umferð erlendra flugvéla, annarra en farþegavéla. Umferð erlendra flugvéla um danska lofthelgi, einkum rússneskra, hefur aukist mikið að undanförnu. Danir hafa harðlega gagnrýnt Rússa fyrir að virða allar reglur að vettugi og í fyrra munaði minnstu að farþegavél frá SAS og rússnesk flugvél (sögð njósnavél) rækjust saman yfir Eyrarsundi.
2. Loftrýmiseftirlit á vegum Atlantshafsbandalagsins, NATO. Gæslan nær til Íslands og Eystrasaltslandanna þriggja en þessi lönd ráða ekki yfir flugher. Samningurinn um eftirlitið er frá árinu 2004 og hernaðarbrölt Rússa, ekki síst á Krímskaga, hefur orðið til að aukin nauðsyn er talin á slíku eftirliti.
3. Alþjóðleg verkefni. Danmörk hefur skuldbundið sig til að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum NATO og leggja þar til að minnsta kosti fjórar vélar, með fullri áhöfn og þeirri þjónustu, t.d flugvirkjum, sem slíkum verkefnum tilheyra. Danir hafa sömuleiðis tekið þátt í verkefnum einstakra NATO landa. Fyrstu verkefni af þessu tagi voru í Kosovu á tíunda áratug síðustu aldar. Danskar orustuvélar tóku einnig þátt í árásum í Afganistan 2002-2003, í Líbíu árið 2011 og í Írak í fyrra og hitteðfyrra.
Valkostirnir
Nú styttist í að ákvörðun verði tekin um hvaða orustuvélar eigi að kaupa. Eftir að hafa kannað alla kosti sem í boði eru stendur valið á milli þriggja véla. Tvær þeirra eru framleiddar í Bandaríkjunum, sú þriðja í Evrópu.
Bandarísku vélarnar eru: F- 35 Joint Strike Fighter. Þetta er ný vél framleidd af Lockheed Martin. Þessi vél er ekki komin í notkun, byggir að hluta á tækni frá eldri vélum framleiðandans. Eins og áður sagði eru núverandi orustuþotur danska flughersins frá sömu verksmiðjum.
F 18 Super Hornet. Framleidd hjá Boeing verksmiðjunum.Var í upphafi hönnuð og smíðuð hjá MCDonnell Douglas, sem síðar sameinaðist Boeing, árið 1995 en hefur margoft verið tæknilega endurbætt. Bandaríski herinn hefur notað þessa vél árum saman.
Þriðja vélin er frá Airbus í Evrópu: Eurofighter Typhoon. Þessi vél var tekin í notkun árið 2003 en hefur verið endurbætt í takt við aukna og bætta tækni síðan þá.
Allir þrír framleiðendurnir telja vitaskuld sinn fugl fegurstan. Nú er það þingsins, varnarmálaráðuneytisins og hersins að taka ákvörðun um kaupin. Sú ákvörðun á að liggja fyrir á næstu mánuðum, ekki síðar en í árslok. Boeing hefur eins og minnst var á í upphafi þessa pistils rækilega minnt á sig með auglýsingum, það hafa hinir tveir framleiðendurnir ekki gert. Ekki enn að minnsta kosti.
NATO hefur áhyggjur
Danski herinn hefur á síðustu árum mátt sæta miklum niðurskurði. Yfirstjórn NATO fylgist grannt með framlögum aðildarríkjanna til her- og varnarmála og hefur í bréfi til dönsku stjórnarinnar lýst áhyggjum. Í bréfinu segir að ef í fjárframlögum til hersins verði ekki tekið tillit til þeirrar miklu fjárfestingar sem fyrirhuguð sé með flugvélakaupunum muni afleiðingin verða sú að danski herinn verði ófær um að sinna verkefnum sínum. Danski varnarmálaráðherrann hefur ekki tjáð sig beinlínis um áhyggjur NATO en sagði í skriflegu svari til fjölmiðla að starfsemi hersins í heild sinni skuli rúmast innan heimilda. Þetta þótti fjölmiðlum loðið svar.
Mikill meirihluti þingmanna virðist sammála um að
nauðsynlegt sé að endurnýja orustuþotur hersins. Það hafi í raun dregist of
lengi. Þegar teknar eru stórar og kostnaðarsamar ákvarðanir dugir ekki að
stjórnin og stuðningsflokkar hennar styðji málið, í slíkum tilvikum þarf aukinn
meirihluta í þinginu. Sumir í hópi þingmanna hafa þó spurt hvort nauðsynlegt sé
að kaupa 30 þotur, kannski sé það fullvel í lagt.