Prins Naseem Hamed klauf hnefaleikaheiminn í tvær fylkingar á tíunda áratug seinustu aldar. Sumir dáðu hann og aðrir fyrirlitu en allir fylgdust grannt með honum því að hann var mikill skemmtikraftur bæði utan sem innan hringsins. En jafn skjótt og frægðarsól hans reis hvarf nafn hans í gleymskunnar dá. Hvað varð eiginlega um prinsinn
Uppgötvaðist eftir götuslag
Naseem Hamed, kallaður Naz, er fæddur árið 1974 í stálbænum Sheffield í Jórvíkurskíri í Englandi. Hann er eitt af átta systkinum, fimm strákar og þrjár stúlkur, börn innflytjenda frá Jemen á Arabíuskaga sem flust höfðu til Bretlands árið 1958 í leit að betra lífi. Hamed hjónin ráku litla matvöruverslun á götuhorni rétt við líkamsræktarstöð hnefaleikaþjálfarans Brendan Ingle. Ingle rakst á Naz fyrir slysni þegar hann sá hann slást við aðra stráka á götu úti aðeins sjö ára gamlan. Ingle hreifst af gutta og bað föður hans um að leyfa honum að æfa hnefaleika hjá sér. Herra Hamed sagði já og hófst þá undirbúningurinn að einum litríkasta ferli hnefaleikasögunnar.
Á valentínusardag árið 1992, tveimur dögum eftir átján ára afmælisdaginn steig hann inn í hringinn í sínum fyrsta bardaga sem atvinnumaður. Naseem var lágvaxinn og grannur og keppti í svokallaðri bantamvigt eða léttfjaðurvig. Þrátt fyrir að vera lítill að vexti var hann þó gríðarlega höggþungur. John Ingle, sonur Brendans, sem hélt á æfingapúðunum fyrir Hamed sagðist hafa þurft að dýfa höndunum í klakavatn eftir hverja æfingu, svo þung voru höggin. Fyrsta bardaga Hamed lauk með rothöggi strax í annarri lotu. Frægðarsól hans reis hratt eftir það og hann varð þekktur fyrir að klára menn strax í fyrstu lotunum og yfirleitt með rothöggi. Einungis tvítugur var hann orðinn Evrópumeistari í bantamvigt en það var fjaðurvigtin sem hann stefndi að. 21 árs gamall vann hann WBO heimsmeistaratitilinn (einn af fjóru stóru titlunum) í Cardiff gegn ríkjandi meistaranum Steve Robinson. Hamed var þar með orðinn yngsti breski heimsmeistarinn í meira en hálfa öld.
Prinsinn ósigrandi
Hann kallaði sig prins Naseem og varð strax gríðarlega vinsæll í Bretlandi. Það var ekki einungis árangur prinsins sem aflaði honum vinsælda heldur einnig hvernig hann hagaði sér, talaði, klæddi sig og sér í lagi hvernig hann barðist. Hamed hélt höndunum niðri og bauð andstæðingum að láta til skarar skríða. Hann engdi þá, dansaði, hló að þeim og beið eftir að þeir bitu á agnið. Þetta var hættulegur leikur en hann var leiftursnöggur og varðist með að sveigja sig frá höggunum. Þá lét hann til skarar skríða, yfirleitt með vinstri hnefanum (þar sem hann er örvhentur) og gat lent rothöggi á svipstundu. Hann stefndi ávallt á að ljúka bardaga með einu höggi frekar en á dómaraúrskurði. Sigurganga Hameds hélt stöðugt áfram. Árið 1997 vann hann IBF heimsmeistaratitilinn í London gegn Tom Johnson og það sama ár keppti hann í fyrsta sinn í Bandaríkjunum gegn áskorandanum Kevin Kelley. Árið 1999 bætti hann WBC heimsmeistaratitlinum í safnið þegar hann sigraði hinn mexíkóska César Soto í Detroit borg. Prinsinn virtist hreinlega ósigrandi og fáir bardagar voru jafnir eða spennandi.
Vinsældir Hameds jukust með hverjum bardaganum. Peningarnir streymdu inn bæði í formi verðlaunafés og feitra auglýsingasamninga við fyrirtæki á borð við Adidas og HBO. Á þessum tíma nutu hnefaleikar gríðarlegra vinsælda, áður en blandaðar bardagaíþróttir (MMA) hófu að taka yfir markaðinn, og allir fylgdust með prinsinum. Um 10 milljónir Breta horfðu á bardaga hans í sjónvarpi, sem gerir um 1/6 af allri þjóðinni. Hann var langtekjuhæsti breski íþróttamaðurinn um tíma. Árið 2000 halaði hann inn 7,5 milljónum punda fyrir einungis tvo bardaga. Það var tvisvar sinnum meira fé en knattspyrnustjarnan David Beckham vann sér inn allt árið. Andlit prinsins var alls staðar. Hann lék í auglýsingum, tónlistarmyndböndum, hitti þjóðhöfðingja og fékk sinn eigin tölvuleik.
En samfara velgengninni og frægðinni jókst sýndarmennska hans og hroki. Það er enginn nýlunda að hnefaleikakappar líti stórt á sig og tali niður til mótherja sinna en prinsinn fór með þetta í nýjar hæðir. Hann fór að hætta að hugsa um bardagana sjálfa heldur meira um innkomu sína inn í hringinn, klæðnað og fleira. Innkomurnar voru vel skipulagðar og þaulæfðar. Í eitt sinn kom hann inn á fljúgandi teppi, í annað sinn á bíl. Fyrir einn bardaga var myndbandið við Thriller Michaels Jackson sett á svið og fyrir annan var Hamed í fylgd rapparans Puff Daddy. Innkomurnar voru orðnar mun meira spennandi en bardagarnir sjálfir sem allir enduðu á einn veg. Prinsinn klæddist stuttbuxum úr tígrisdýramunstri sem hann gerði að aðalsmerki sínu og hanskarnir voru yfirleitt úr ekta geitaleðri. En þetta allt skapaði honum ekki bara vinsældir heldur einnig miklar óvinsældir, sérstaklega hjá lýsendum og fólki úr bransanum. Margir áhorfendur, sérstaklega í Bandaríkjunum, hreinlega hötuðu hann eða a.m.k. elskuðu að hata hann. Reynt var að gera lítið úr afrekum hans og sagt var að andstæðingar hans væru ekki nógu góðir. Það á sér þó enga stoð í veruleikanum því að andstæðingarnir sem hann sigraði voru margir hverjir heimsmeistarar sem höfðu verið ósigraðir um áraraðir.
Hátt fall
Fyrstu brestirnir á ferli Hameds komu fram seint á árinu 1998 þegar hann sleit sambandi sínu við Brendan Ingle. Ingle sakaði Hamed um græðgi og að hann hefði orðið meira óþolandi og latari eftir því sem hann varð ríkari. Ingle hafði verið þjálfari Hameds í 17 ár en eftir þetta töluðust þeir ekki við. Prinsinn hélt samt áfram titilvörnum sínum. 35. sigur hans í röð kom gegn Bandaríkjamanninum Augie Sanchez í ágúst árið 2000. En í þeim bardaga handarbrotnaði Hamed. Hann þurfti á skurðaðgerð að halda og var frá æfingum mánuðum saman. Prinsinn hafði ekki agann í að halda sér í formi fyrir næsta bardaga, gegn fyrrum heimsmeistaranum Marco Antonio Barrera frá Mexíkó.
Þrátt fyrir lélegt líkamlegt ásigkomulag var prinsinn sjálfstraustið uppmálað fyrir bardagann afdrifaríka í Las Vegas þann 7. apríl 2001. Hann var talinn mun sigurstranglegri á veðbönkunum og sjálfur hugsaði hann mun meira um innkomu sína og hanskana heldur en andstæðinginn. Barrera var aftur á móti vel undirbúinn og náði að halda prinsinum í skefjum með klókindum og bellibrögðum. Bardaginn endaði með naumum sigri Barrera eftir 12 lotur og dómaraúrskurð. Gagnrýnendur prinsins gátu vart hamið sig fyrir kæti og lýsendur kölluðu bardagann burst þó svo að einungis hafi munað u.þ.b. 5 höggum.
Þó að bardaginn við Barrera hafi í rauninni verið naumt tap þá var hann engu að síður mikið sálfræðilegt áfall fyrir Hamed. Ímynd hans sem hinn ósigrandi boxari var horfin og hann gat tæpast haldið áfram með hendurnar niðri og kjaftinn á fullu. Það leið rúmt ár þangað til hann steig aftur í hringinn, þá á heimavelli í London. Þar sigraði hann Spánverjann Manuel Calvo í óeftirminnilegum bardaga á dómaraúrskurði og vann minniháttar belti fyrir vikið. Áhorfendur bauluðu á prinsinn þetta kvöld. Í kjölfarið riftu allir helstu styrktaraðilar samningum við hann. Skaðinn var skeður og þetta reyndist seinasti bardagi prinsins sem var þá einungis 28 ára gamall. Hamed hætti aldrei formlega og sjálfur kenndi hann handarmeiðslum um en það var öllum ljóst að bardaginn við Barrera hafði verið honum um megn.
Slysið
Þann 2. maí árið 2005 olli Naseem Hamed þriggja bíla árekstri í heimaborg sinni Sheffield. Hann keyrði utan í tvo bíla á tæplega 150 km/klst hraða með þeim afleiðingum að hjón sem keyrðu annan bílinn slösuðust illa og þá sérstaklega eiginmaðurinn, Anthony Burgin. Öll stærstu bein líkama hans annað hvort brotnuðu eða brákuðust og hann marðist á heila sem olli 100% örorku fyrir lífstíð. Hamed slapp sjálfur algerlega við meiðsli. Ökumaður þriðja bílsins sagði framúrakstur Hameds hafa verið ótrúlega heimskulegan og líkastan sjálfsmorði. Hamed var kærður fyrir háskaakstur og dæmdur til 15 mánaða fangelsisvistar. Auk þess var honum gert skilt að greiða Burgin hjónunum um eina milljón punda og hann missti ökuleyfið í fjögur ár. Hamed sat þó einungis inni í fjóra mánuði, restina af dóminum fékk hann að afplána í stofufangelsi.
Tveimur árum eftir áreksturinn var Burgin sjálfur kærður fyrir glæfraakstur þar sem hann ók í veg fyrir bíl Eleaöshu, eiginkonu Hameds, og þvingaði hana af veginum. Börn hjónanna voru einnig í bílnum. Eftir atvikið veittist Burgin að henni í bílnum og heimtaði að fá að tala við Naseem. Eleasha var í miklu uppnámi og tjáði dómurum það að Burgin hafði sést nokkrum sinnum fyrir utan heimili þeirra fyrir atvikið. Burgin var sýknaður af glæfraakstri en dómari biðlaði til bæði Hamed hjónanna og Burgin að láta kjurrt liggja.
Breyttur maður
Í júní árið 2015 var Naseem Hamed tekinn inn í frægðarhöll hnefaleikanna í New York. Fáir hnefaleikamenn minntust hans og áhorfendur virtust hreinlega hafa gleymt honum, jafnvel í Bretlandi. Þeir sem á annað borð tjáðu sig um hann gerðu einungis lítið úr afrekum hans. Goðsögnin um prinsinn virðist hafa algerlega gufað upp eftir þetta kvöld í Las Vegas og hnefaleikaheimurinn sammælst um að þegja hana í hel eftir það. Hamed hefur látið lítið fyrir sér fara síðan hann hætti hnefaleikaiðkun og síðan þá einungis komist í fréttirnar fyrir áreksturinn afdrifaríka. Hann er nú nánast algerlega óþekkjanlegur maður miðað við fyrri tíð. Í dag er Hamed heldur fálátur maður sem á jafnvel erfitt með að tjá sig við fjölmiðla og mynda skiljanlegar setningar. Líkamlegu atgervi hans hefur einnig hrakað mikið og hann hefur bætt á sig fjölmörgum aukakílóum. Hann heldur sig að mestu utan sviðsljóssins, veitir sjaldan viðtöl og vill ekki láta taka myndir af sér. Húmorinn er ennþá til staðar en hrokinn sem gerði hann svo frægan er löngu horfinn.
Hamed hefur einnig reynt að græða þau sár sem hann olli á ferli sínum, sérstaklega gagnvart fyrrum þjálfara sínum Brendan Ingle. Hann segist hafa reynt að tala við Ingle í nokkur skipti en ávallt verið vísað frá.
„Ég vill hitta Brendan og biðjast afsökunar á þeim illkvittnu hlutum sem ég sagði um hann, af því að ég er svo þakklátur fyrir það sem hann gerði fyrir mig. Það sem ég lærði á þessari stöð og í þessu umhverfi var ómetanlegt.“
Hann sér einnig mikið eftir bílslysinu sem hann olli 2005. Um það segir hann.
„Það sem ég sé eftir er að hafa slasað einhvern á þann hátt sem ég gerði. Ég sé svo mikið eftir því. Að láta einhvern ganga í gegnum svo mikinn sársauka...Ég vona bara að hann geti fyrirgefið mér einhvern daginn. Þetta var slys.
Hamed hefur ávallt verið mikill fjölskyldumaður. Hann er giftur þriggja barna faðir og hefur ávallt hugsað vel um fjölskyldu sína, foreldra og aðra ættingja. Hann er mjög trúaður og hefur það einungis ágerst með aldrinum. Sumir telja að trúin hafi verið stór þáttur í því að hann dró sig úr sviðsljósinu. Það var ekki auðvelt að vera múslimi á vesturlöndum eftir árásirnar á tvíburaturnana 11. september 2001, sem var einmitt um það leyti sem hann lagði hanskana á hilluna.
Tvö ósamrýmanleg viðhorf koma fram þegar rætt er um feril prinsins Naseem Hamed. Sumir tala um feril sem hefði geta orðið en aðrir um feril sem glataðist. Fyrra viðhorfið á að einhverju leyti rétt á sér. Hamed var einungis 28 ára þegar hann hætti en flestir hnefaleikamenn í dag eru á hápunkti ferilsins rúmlega þrítugir. Seinna viðhorfið verður þó að teljast sannara. Mótherjar hans voru engir aukvisar og á hans stutta ferli sigraði hann níu fyrrverandi, þáverandi eða verðandi heimsmeistara. Hann hafði bæði snerpuna og kraftinn sem gerði hann að algerum yfirburðahnefaleikamanni í sínum þyngdarflokki á árunum 1995-2000. Tölfræðin talar sínu máli: 37 bardagar, 36 sigrar, 31 rothögg, 1 tap. Verst er að hans verður ávallt minnst fyrir þetta eina tap, ef hans er þá minnst yfirhöfuð.