Áætlað er að að minnsta kosti átta prósent af heildarauðæfum heimila heimsins séu í skattaskjólum. Þetta eru um það bil 5.800 miljarðar evra. Þar af er talið að í Sviss séu 1.800 miljarðar evra. 5.800 milljarðar evra eru um 820.000 milljarðar íslenskra króna. Þó er afar erfitt að finna út þessar fjárhæðir þar sem eitt helsta einkenni skattaskjóla er leynd og ógagnsæi.
Leyndin innsta eðli skattaskjóla
„Leyndin er innsta eðli skattaskjóla en með auknu alþjóðlegu samstarfi, kröfunni um aukið gagnsæi í viðskiptum og aukinni rannsóknarblaðamennsku hafa myndast glufur í hana,” segir í nýju svari á Vísindavef Háskóla Íslands. Vísindavefnum hafa borist nokkrar spurningar undanfarna daga í tengslum við umræðuna um skattaskjól og Panamaskjölin úr lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama.
Tvær spurningar hljóðuðu svo:
„Hvernig bý ég til aflandsfélag í skattaskjóli án þess að nokkur komist að því?“ og „Hvað getið þið sagt mér um alþjóðlegar skattaparadísir?”
Vísindavefurinn tók því saman svör og fróðleik um þetta umtalaða fyrirbæri sem hefur fellt forsætisráðherra og afhjúpað fjölda íslenskra stjórnmálamanna og viðskiptajöfra.
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við HÍ, og Jóhannes Hraunfjörð Karlsson hagfræðingur, skrifa svarið.
Google greiddi ekki tekjuskatt
Þar kemur meðal annars fram að á síðustu áratugum hafi stjórnvöld í nokkrum litlum eyríkjum nýtt sér hið síminnkandi markaðskerfi heimsins og boðið upp á hagstætt skattaumhverfi til að fá til sín auðuga einstaklinga og fjölþjóðleg fyrirtæki sem skattgreiðendur. Reuters greini til að mynda frá því að Google hafi talið um 11 milljaðra evra fram sem hagnað í Bermúda árið 2014 og þannig komist hjá að greiða tekjuskatt af þeirri upphæð.
Vísindavefurinn tilgreinir fjögur helstu einkenni skattaskjóla samkvæmt OECD:
1. Enginn eða mjög lágur tekjuskattur
2. Skortur á skilvirkum upplýsingaskiptum
3. Skortur á gagnsæi
4. Engin raunveruleg starfsemi fer þar fram
Ýta undir skattsvik, peningaþvætti, mútur og spillingu
„Skattaskjól gegna þríþættu hlutverki: í fyrsta lagi eru þau aðsetur fyrir svokölluð skúffufyrirtæki, það er engin raunveruleg starfsemi fer þar fram heldur er þar eingöngu póstfang, í öðru lagi útvega þau möguleika á að skrá og færa bókhald eftir smekk viðkomandi, en ekki viðurkenndum bókhaldsreglum, og síðast en ekki síst koma þau í veg fyrir að skattyfirvöld geti rannsakað bankareikninga viðkomandi,” segir á Vísindavefnum. „Öll þessi atriði hafa áhrif á skattkerfi annarra ríkja en skattaskjólanna og ýta undir skattsvik, skattasniðgöngu, peningaþvætti, mútur og spillingu.”
Sagan rakin til eftirstríðsáranna
Farið er stuttlega yfir sögu skattaskjóla á vefnum, hvar segir að hana megi rekja til áranna eftir fyrri heimsstyrjöldina þegar ríki meginlands Evrópu hækkuðu skatta til að borga fyrir hörmungar stríðsins.
„Yfirstéttin vildi ekki greiða sinn hlut í uppbyggingunni og skattsvikaiðnaðurinn varð til með flutningi fjármagns frá Frakklandi til Sviss,” segir Vísindavefurinn. „Á níunda áratugnum bættust fleiri skattakjól í hópinn: London, Hong Kong, Singapúr, Jersey, Lúxemborg, Bahamaeyjar, Panama og svo framvegis. Eins og áður segir hefur verið áætlað að lágmarki átta prósent af heildarauðæfum heimila heims séu í skattaskjólum, eða um það bil 5.800 miljarðar evra.