„Hugsaðu með þér þegar þú vaknar á morgnanna að lífið hefur lengst um 6 klukkustundir. Á fjögurra ára fresti getum við bætt við einu ári miðað við fólk sem var uppi fyrir 150 árum,“ segir Dr. Henning Kirk, danskur sérfræðingur í öldrunarlækningum. Hann hélt erindi undir yfirskriftinni Lengra líf - Meiri gáfur á málþingi um áskoranir fyrir vinnumarkaðinn vegna hækkandi lífaldurs sem haldið var þann 26. apríl á Grand Hótel á vegum aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna. Hann leitaðist við að svara spurningum á borð við hvort hæfni heilans haldi í við lengri lífaldur. Hann spurði sig hreinlega hvort heilinn geti fylgt eftir þessum hækkandi lífaldri.
Fordómar einkenna umræðu um háan aldur
Dr. Kirk segir að ákveðnir fordómar hafi einkennt háan aldur og að margir hafi neikvæð viðhorf til ellinna. „Ég vil þó halda því fram að hár aldur bjóði einnig upp á ýmis góð tækifæri og að hann sé ekki einungis neikvæður,“ segir hann og telur að það séu kostir og gallar við hækkandi lífaldur þjóða. Það sé þó allt of mikið einblínt á slæmu hliðarnar, því þær jákvæðu séu líka mjög margar.
Það verður að virkja heilann
„Við höldum áfram að endurnýjast alla ævi. Endurnýjun heilans er alltaf í gangi,“ segir dr. Kirk. Nýjar taugafrumur myndast fram eftir aldri en hann segir þó að þær myndist ekki af sjálfu sér. Það verði að virkja heilann og hann bætir að forvitni hjálpi þar til. Hann vill einnig leggja áherslu á það að heilinn sé hluti af líkamanum og því sé líkamleg hreyfing góð fyrir heilann. Það sé mikilvægt að blóðflæðið sé gott og að það sé vel hægt þrátt fyrir hækkandi aldur. Hann segir einnig að húmor og gott skap sé jákvætt og gott og síðan en ekki síst góður svefn. Með því að sofa vel þá séum við að vinna úr upplýsingum dagsins.
Önnur ráð til að örva heilann er að hlusta á tónlist og að leika sér með tungumálið, segir Dr. Kirk. Að æfa sig að tala önnur tungumál æfir heilann og gerir okkur gott. Hann segir að tónlistin uppfylli þarfir heilans, hún örvi fólk líkamlega og andlega. Sérstaklega sé gott að vera í andlega góðu formi og það sé hægt með ýmsum leiðum.
Margir kostir þess að eldast
Helstu kostir þess að eldast eru aukin þekking, reynsla, hæfileikar, yfirsýn og samskiptahæfni, að mati Dr. Kirks. „Við höldum áfram að slípa samskiptahæfnina eftir því sem við eldumst.“ Svo ber að nefna samkenndina en hana telur hann aukast með aldrinum.
Góðu fréttirnar, að mati Dr. Kirk, eru þær að samkvæmt rannsóknum hafi elliglöp farið minnkandi í okkar heimshluta síðan árið 1980. Hann segir að gamalt fólk framtíðarinnar muni því vera með betri heilastarfsemi en gamalt fólk í dag.
Aldurinn sjálfur er ekki vandamál
„Aldur er ekki vandamál,“ segir hann. Hann telur að ef fólk eigi við vandamál að stríða í lífinu þá geti það hugsanlega aukist með aldrinum en aldurinn sjálfur búi ekki til vandamálið. Að lokum bendir hann á að mikilvægt sé að endurmennta sig og að halda sér ferskum. Fórdómum beri að mæta með upplýsingu og fræðslu og að allir þurfi að taka höndum saman.