Ekki er komin dagsetning á komandi Alþingiskosningar. Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafa báðir fullyrt að kosið verði í haust. Framundan eru forsetakosningar, sem stefna í að verða sögulegar, 25. júní og strax í kjölfarið má búast við að kosningabarátta flokkanna fari á fullt. Samfylking og Framsóknarflokkur eru í formannsvandræðum, en kosið verður um nýja forystu í Samfylkingunni á aðalfundi í byrjun júní. Ekki liggur fyrir hvernig málum verður háttað hjá Framsóknarflokknum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur nú verið í fríi í þrjár vikur og ekki liggur fyrir hvenær, eða hvort, hann snýr aftur á Alþingi.
Kveðja Alþingi
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi innanríkisráðherra, gaf út í fyrradag að hann ætli að hætta á þingi eftir 20 ára þingsetu. Ögmundur settist fyrst á þing árið 1995 og hefur verið fulltrúi Alþýðubandalagsins og óháðra, Óháðra og síðast Vinstri grænna. Hann sat fyrir Reykjavík, Reykjavíkurkjördæmi suður og síðast fyrir Kragann. Ögmundur sagði á síðu sinni í gær að tími væri til kominn að breyta um umhverfi. Hann ætli að halda áfram á þingi út kjörtímabilið og taka svo að sér önnur verkefni. Hann er fæddur árið 1948 og verður 68 ára 17. júlí næstkomandi.
Fleiri þingmenn, þar af tveir reynslumiklir og einn núverandi ráðherra, ætla að hætta eftir þetta kjörtímabil, eins og fram kom í úttekt Kjarnans í apríl.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins, ætlar að hætta eftir 25 ára þingsetu. Einar var þingmaður Vestfjarða árin 1991 til 2003 og síðan fyrir Norðvesturkjördæmi síðan 2003. Einar var varaþingmaður Vestfjarða fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1980, 1984, 1985, 1988, 1989 og 1990. Hann var sjávarútvegsráðherra árin 2005 til 2007, jafnframt landbúnaðarráðherra árið 2007 og síðan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra árin 2008 til 2009. Einar var formaður þingflokks Sjálfstæðismanna árin 2003 til 2005 og var svo settur forseti Alþingis eftir síðustu kosningar, vorið 2013. Hann er fæddur 1955 og verður 61 árs 2. desember.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og fyrrverandi þingflokksformaður Framsóknarflokks, ætlar að láta gott heita. Sigrún hefur setið á þingi fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður í þrjú ár, síðan 2013, og verið ráðherra frá 2014. Sigrún var varaþingmaður Reykvíkinga frá mars til apríl 1980 og frá apríl til maí árið 1982. Sigrún er fædd 1944 og verður 72 ára þann 15. júní.
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, ætlar einnig að snúa sér að öðrum verkefnum eftir þrettán ára þingsetu. Katrín hefur verið þingmaður Samfylkingarinnar í Kraganum síðan árið 2003. Hún er fædd árið 1974 og verður 42 ára þann 23. nóvember.
Páll Jóhann Pálsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segist hafa fengið nóg af þingmennsku og ætlar að róa á önnur mið eftir kjörtímabilið. Páll settist á þing 2013 fyrir Suðurkjördæmi, eftir síðustu kosningar, og hefur setið í þrjú ár. Hann er fæddur árið 1957 og verður 59 ára 25. nóvember.
Þá má nefna að tveir reynslumiklir þingmenn féllu frá á kjörtímabilinu. Pétur Blöndal hafði setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík síðan árið 1995 og sat í 20 ár. Pétur fæddist 24. júní árið 1944 og lést 26. júní 2015, 71 árs að aldri. Guðbjartur Hannesson settist á þing fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi árið 2007 og var þingmaður í sjö ár. Hann var forseti Alþingis árið 2009, félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra árið 2010 og velferðarráðherra árin 2011 til 2013. Guðbjartur fæddist 3. júní 1950 og lést 23. október í fyrra, 65 ára að aldri.
Margir óákveðnir með framhaldið
Í könnun Kjarnans voru allir sitjandi þingmenn spurðir hvort þeir hyggðust gefa kost á sér áfram til Alþingis í komandi kosningum. Flestir sögðu já, en þó nokkuð margir voru enn óákveðnir eða vildu ekki svara.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi utanríkisráðherra, vildu ekki gefa upp afstöðu sína í könnuninni, en Össur sagði skömmu síðar í viðtali við Eyjuna að hann ætli sér að halda áfram á þingi og það sama gerði Katrín skömmu síðar á Hringbraut.
Fleiri þingmenn sem vildu ekki svara hvort þeir hyggðust halda áfram á þingi voru Haraldur Einarsson Framsóknarflokki, Kristján L. Möller Samfylkingu og Vilhjálmur Bjarnason Sjálfstæðisflokki.
Þeir sem voru óákveðnir varðandi framhaldið voru Birgir Ármannsson, Brynjar Níelsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir Sjálfstæðsflokki, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir Vinstri grænum, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall hjá Bjartri framtíð, Karl Garðarson og Lilja Alfreðsdóttir Framsóknarflokki. Ekki náðist í Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Illuga Gunnarsson, Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni eða Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur í könnun Kjarnans.