Fylgi Pírata hefur fallið um níu prósentustig síðan fyrsti Kastljóssþátturinn um Panamaskjölin var birtur. Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn, Björt framtíð og Viðreisn hafa bætt við sig fylgi, Vinstri græn mest, þó að fylgi þeirra hafi dregist saman um tvö prósentustig milli síðustu tveggja kannanna. Þetta sýnir nýjasti Þjóðarpúls Gallup.
Framsókn og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig
Fram kemur í Þjóðarpúlsinum að helstu breytingar frá síðustu könnun sem gerð var um miðjan apríl séu að Framsóknarflokkurinn bæti aftur við sig eftir töluvert fall og mælist fylgi flokksins nú svipað og í könnunum frá júní 2015 til byrjunar apríl 2016. Breyting á fylgi annarra flokka sé tiltölulega ómarktæk á milli síðustu tveggja kannanna.
Fylgi Framsóknarflokksins féll úr tólf prósentum í sjö prósent á milli fyrstu kannanna, en síðasta könnun sem Gallup gerði dagana 14. til 28. apríl sýna að flokkurinn bætir við sig á ný og er kominn upp í ellefu prósent. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig fjórum prósentustigum síðan í mars og er nú orðinn stærsti flokkurinn, með 27 prósenta fylgi.
Ríflega 37 prósent segjast myndu styðja ríkisstjórnina í könnun Gallup, en það er aukning um þrjú prósentustig frá fyrri könnun.
Rösklega átta prósent svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag og næstum átta prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp.
Píratar súpa Panamaseyðið
Síðan Panamaskjölin komust í umræðuna hefur fylgi Pírata dregist mest saman, þrátt fyrir að þeir þrír sitjandi þingmenn flokksins hafi verið fullkomlega ósnertir af Panamaskjölunum. Fylgi flokksins hefur verið í hæstu hæðum undanfarna mánuði og mest hefur hann mælst með yfir 40 prósent, þó ekki hjá Gallup. Í mars var fylgið 36,1 prósent hjá Gallup, og hefur aldrei mælst hærra, en það hefur farið hríðlækkandi síðan fyrstu fréttir úr Panamaskjölunum voru birtar og er nú komið niður í 27 prósent. Fylgið hefur farið yfir til Vinstri grænna, sem hefur aukist á sama tíma um sjö prósetustig, Sjálfstæðisflokks, sem hefur aukist um fjögur, og Bjartrar framtíðar, sem hefur aukið fylgi sitt um tvö prósentustig.
Vinstriflokkarnir lækka flugið á ný
Fylgi Vinstri grænna og Samfylkingar dróst saman á milli síðustu tveggja kannanna sem gerðar voru í apríl. Dagana 7. til 12. apríl mældust Vinstri græn með 20 prósent og Samfylking með níu prósent. Í nýjustu könnuninni mældust VG með 18 prósent og Samfylking með átta prósent. Þó að fylgi VG hafi minnkað um tvö prósentustig hefur flokkurinn samt tekið stökk eftir Panamaskjölin og leiða má líkur að því að það fylgi komi hvað mest frá Pírötum. VG var með 12 prósenta fylgi í mars og hefur því bætt sex prósentustigum við sig. Flokkurinn hefur líka, eins og Píratar, verið ósnertur af Panamaskjölunum.
Ekkert haggast hjá Samfylkingu
Panamalekinn er ekki að gera neitt fyrir fylgi Samfylkingarinnar. Gjaldkeri flokksins sagði af sér í tengslum við málið en fleiri tengingar hafa ekki verið gerðar á milli flokksmanna og Panamaskjalanna. Í samanburði við tengsl Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru tengslin afar lítil. En það skilar flokknum engu fylgi og mælist hann í stöðugum átta til níu prósentum, fyrir og eftir lekann.