Hugtakið „utan lögheimilis” (e. non-domicile, eða „non-dom“) hefur undanfarið verið töluvert í umræðunni í breskum stjórnmálum. Fyrirbærið þekkist hvergi annar staðar í heiminum en í Bretlandi og gerir auðugu fólki kleift að borga lægri skatta þó að það sé búsett þar í landi.
Dæmisaga
Tökum dæmi. Auðug manneskja flytur til Bretlands og tilkynnir yfirvöldum í landinu sem hún flytur frá að það megi ekki rukka hana um skatt, þar sem hún sé nú orðin „skattgreiðandi” í Bretlandi og búsett þar. Manneskjan tilkynnir líka breskum yfirvöldum hún sé nú skattgreiðandi þar í landi. Undir venjulegum kringumstæðum verður Bretland þá ábyrgt fyrir að innheimta skatttekjur hennar.
En manneskjan tilkynnir líka til breskra yfirvalda að hún líti á sig sem einstakling „utan lögheimilis”. Ef hún uppfyllir þau skilyrði, getur hún farið fram á að skattgreiðslurnar verði líka þess eðlis. Og það þýðir að hún þarf að greiða skatt af öllum tekjum sem hún þénar þar í landi og öllum tekjum sem hún kemur með inn í landið. En það er hængur á. Manneskja „utan lögheimilis“ þarf hins vegar ekki að greiða skatt af auðæfum eða tekjum sem eru erlendis, hvort sem það er í formi fyrirtækja, aflandsfélaga, eigna eða sjóða. Það er allt skattfrjálst.
Dorrit er „non-dom“
The Guardian greindi frá því í vikunni að Dorrit Moussaieff væri utan lögheimilis í Bretlandi. Hún flutti lögheimili sitt frá Íslandi í lok árs 2012 og það var ekki fyrr en íslenskir fjölmiðlar komust að því sem hún svaraði fyrir það, hálfu ári síðar. Hún leiðrétti aldrei ítrekaðan fréttaflutning af heimilisaðstæðum hennar, en allir gengu út frá því að hið nýja lögheimili forsetafrúarinnar væri í Bretlandi, þar sem hún er skráð þar samkvæmt Þjóðskrá. En Þjóðskrá tilgreinir einungis dvalarstað (e. residence) og gerir ekki ráð fyrir breska „utan lögheimilis-möguleikanum“. Tugir frétta voru fluttar af því að lögheimili Dorritar væri í Bretlandi og hún gekkst einnig við því í viðtölum að hún væri að flytja til Bretlands, en þegar nánar er að gáð sagði hún aldrei að lögheimili hennar verði framvegis í Bretlandi. Skattleg heimilisfesti Dorritar er nefninlega í heimalandi hennar, Ísrael.
Heit kartafla í Bretlandi
Eins og áður segir skapast reglulega umræða í Bretlandi um hvort tími sé til kominn að afnema „non-dom“ fyrirkomulagið. Talið er að um 114.000 Bretar séu skráðir utan lögheimilis og í raun er engin leið að finna út hversu miklum skatttekjum breska þjóðarbúið verður af á ári hverju vegna fyrirkomulagsins. Sérstaklega í ljósi þess að aflandsfélög í skattaskjólum eru jafn algeng og raun ber vitni. Og þar er forsetafrúin ekki undanskilin.
Forsetahjónin svara ekki
Hvorki Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, né Dorrit hafa svarað fyrirspurnum fjölmiðla um málið eftir að það var upplýst. Einu upplýsingarnar sem fást frá embættinu eru þær að Ólafur hafi ekki vitað neitt um fjárhagsfyrirkomulag eiginkonu sinnar. Kjarninn hefur óskað eftir viðbrögðum undanfarnar vikur, en engin svör borist önnur en þau fyrrgreindu. Og þar við situr.