Greinendur Morgan Stanley bankans í Bandaríkjunum telja að fjárfestar geti náð góðri ávöxtun á næstu árum, ef þeir fjárfesta í fyrirtækjum sem eru líkleg til að ná árangri með sölu á útvistar- og íþróttafatnaði (activewear). Í nýrri skýrslu frá bankanum kemur fram, að markaður með slíkan fatnað gæti stækkað um 83 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 11 þúsund milljörðum króna, á næstu þremur árum.
Heildarmarkaðurinn er nú um 300 milljarða Bandaríkjadala, en vegna mikillar eftirspurnar frá Asíu, einkum Kína, er markaðurinn að stækka mikið.
Leiðandi vörumerki eins og Nike, Under Armour, Puma og New Balance, gætu notið góðs af þessari auknu eftirspurn. En óvissan liggur í því hvort fjárfestar verði tilbúnir að leggja þessum fyrirtækjum til aukið fjármagn til að grípa tækifæri.
Regluleg hreyfing stækkar markaðinn
Það sem helst ýtir undir stækkun markaðar með útvistarfatnað eru tvö atriði. Annars vegar aukin kaupgeta millistéttarfólks í Asíu. Þar vegur Kína þyngst, en talið er að millistéttin þar í landi muni vaxa um 50 milljónir manna á næstu tveimur árum, og svo áfram hraðar til framtíðar litið. Aukin kaupgeta hjá stórum hópi mun auka möguleika á vexti.
Hins vegar er það síðan aukin vitundarvakning hjá fólki fyrir reglulegri hreyfingu. Margir kaupa sér góðan fatnað til að stunda hreyfingu, þó áformin um reglulega hreyfingu gangi jafnvel ekki eftir.
Greinendur Morgan Stanley segja að viðhorfskannanir í Kína sérstaklega sýni að fólk, einkum það sem hefur töluverða kaupgetu, sé að hugsa sér til hreyfings, í bókstaflegri merkingu. Um 15 prósent fleiri hafi svarað því til að það hreyfi sig í það minnsta þrisvar í viku árið 2014 heldur en árið 2007. Þetta eru miklar stærðir, þegar heimfært er yfir á íbúafjölda þar sem 20 prósent af íbúum jarðar býr, 1,4 milljarðar í Kína.
Ef fyrirtækjum sem framleiða útivistar- og íþróttafatnað tekst að tengja sig enn betur inn á markaði, þá gæti verið mikið vaxtartækifæri í kortunum, að mati Morgan Stanley.
Bandaríkin stærsti markaðurinn
Stærsta einstaka markaðssvæði fyrir útivistar- og íþróttafatnað er Bandaríkín, en veltan á markaði þar í landi var 96 milljarða Bandaríkjadala árið 2014. Asíumarkaður er svipað stór og Evrópa, eins og ótrúlegt að það hljómar, eða um 56 milljarða Bandaríkjadala.
Nike er stærsta fyrirtækið á þessu markaði, en heildartekjur þess í fyrra námu 30,6 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur 3.600 milljörðum króna.