Hæstiréttur Íslands vísaði í gær frá hópmálsókn á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, fyrrum aðaleiganda Landsbanka Íslands og ríkasta manns Íslands, frá. Hópmálsóknin, sem höfðuð var af 235 aðilum sem áttu 5,27 prósent af útgefnum hlutabréfum í Landsbankanum og þingfest var í lok október í fyrra, snérist um að fá viðurkennda skaðabótaskyldu Björgólfs Thors vegna tjóns sem félagsmenn urðu fyrir vegna hlutabréfaeignar sinnar. Málsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi er lýtur að dómsmálum sem tengjast bankahruninu. Aldrei áður höfðu fyrrum hluthafar í íslenskum banka tekið sig saman og stefnt fyrrum aðaleigendana hans fyrir að hafa blekkt sig með saknæmum hætti til að eiga í bankanum. Og krefjast skaðabóta fyrir.
Björgólfur Thor neitaði ávallt sök og nú hafa íslenskir dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að málið sé ekki tækt til fyrirtöku eins og það var framsett. Málsóknarfélagið gæti þó haldið málinu áfram með nýrri stefnu sem gerð væri í samræmi við leiðbeiningar Hæstaréttar.
Í færslu á heimasíðu sinni sem birtist í gær sagði Björgólfur Thor eftirfarandi um málið: „Þessi ófrægingarleiðangur, undir stjórn Árna Harðarsonar og Róberts Wessman, hefur reynst þeim köppum lítil frægðarför. Árni og Róbert hafa líklega þegar varið um 100 milljónum króna í þennan rakalausa og ruglingslega málarekstur. Þeir fengu hóp fyrrum hluthafa Landsbankans til að leggja nafn sitt við feigðarflanið, en sjálfir fara þeir fyrir 2/3 hlutum málsóknarfélagsins. Þá fékk hópmálsóknarfélagið drjúgan tíma í fjölmiðlum til að rekja í smáatriðum allan málatilbúnað sinn, sem nú hefur fengið falleinkunn hjá Hæstarétti.“
Áralangar deilur Róberts og Árna við Björgólf Thor
En af hverju nefnir Björgólfur Thor þessa tvo menn sérstaklega? Tveimur dögum eftir að málið gegn honum var þingfest í október í fyrra greindi Kjarninn frá því að félag í eigu Árna Harðarsonar, stjórnarmanns og lögmanns lyfjafyrirtækisins Alvogen, ætti um 60 prósent þeirra hlutabréfa sem væru að baki hópmálsókninni. Árni á hlutabréfin, sem hann keypti af islenskum lífeyrissjóðum í vikunni á undan, í gegnum félag sem heitir Urriðahæð ehf. Samtals greiddi Árni á milli 25 til 30 milljónir króna fyrir hlutabréfin, sem eru verðlaus nema að til hefði tekist að fá viðurkennt fyrir dómstólum að Björgólfur Thor ætti að greiða fyrrum hluthöfum Landsbankans skaðabætur.
Til viðbótar þurti Urriðhæð að greiða sinn hluta málskostnaðar. Hann gat auðveldlega hlaupið á tugum milljóna króna ef málið hefði verið dómtekið. Því er ljóst að Árni lagði í umtalsverðan kostnað til að taka þátt í hópmálsókninni og styrkja grundvöll hennar.
Árni er nánasti samstarfsmaður Róberts Wessmans, forstjóra Alvogen. Þeir tveir hafa átt í miklum og opinberum útistöðum við Björgólf Thor árum saman. Bæði Róbert og Árni störfuðu áður sem stjórnendur hjá Actavis, á sama tíma og Björgólfur Thor var aðaleigandi félagsins. Í ágúst 2008 lét Róbert af störfum hjá lyfjafyrirtækinu, en hann hafði þá verið forstjóri þess í níu ár. Björgólfur Thor segir að Róbert hafi verið rekinn en Róbert segir það vera rangt. Hann hafi einfaldlega viljað hætta.
Ásökuðu hvorn annan um að borga ekki skuldir sínar
Síðan að þetta átti sér stað hafa verið hnútaköst á milli mannanna í fjölmiðlum og fyrir dómstólum. Björgólfur Thor stefndi bæði Róberti og Árna fyrir að hafa á ólögmætan hátt dregið að sér fjórar milljónir evra frá sér og nýtt í eigin þágu. Hann vill að þeir greiði sér skaðabætur vegna þessa. Róbert og Árni hafa ítrekað hafnað þessum málatilbúnaði, sagt stefnuna tilefnislausa og að hún eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.
Á meðal annarra sem tóku þátt í málsókninni, sem hafði verið í undirbúningi frá árinu 2011, voru Karen Millen, Kristján Loftsson í Hval, Bolli Héðinsson hagfræðingur, Svana Helen Björnsdóttir, fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins, Lífeyrissjóður verkfræðinga, Lífeyrissjóður starfsmanna íslenskra sveitarfélaga, lífeyrissjóðurinn Stapi og Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Á meðal þeirra sem stóðu að undirbúningnum var lögmaðurinn Ólafur Kristinsson.
Í lok október setti Björgólfur Thor síðan færslu á heimasíðu sína þar sem hann sagði Róbert og Árna ekki hika við að leggja í tugmilljóna króna kostnað til að reyna að klekkja á sér. „Róbert hefur í digra sjóði að sækja, enda gætti hann þess vandlega að koma auð sínum undan kröfuhöfum, í stað þess að gera upp milljarða skuldir sínar við íslensku bankana eftir hrun. Auðvitað gera þeir sér engar vonir um bætur úr minni hendi, enda eina markmiðið að sverta mannorð mitt.“
Róbert svarði með yfirlýsingu þar sem sagði að Björgólfur Thor ætti að „skammast sín“ vegna hans þáttar í efnahagshruni landsins. Þá sé það „hjákátlegt og beinlínis vandræðalegt“ þegar hann heldur því fram að aðrir hafi ekki borgað skuldir sínar til baka, í ljósi þess að hann hefur aðeins borgað „lítið brot“ sinna skulda til baka sjálfur. Þetta kemur fram í harðorðri yfirlýsingu frá Róberti.
Einstakt mál
Kjarninn hefur stefnuna í málinu á hendur Björgólfi Thor, sem er 50 blaðsíður að lengd, undir höndum. Hana má lesa hér. Alls tóku 235 aðilar þátt í málsókninni. Þeir eiga samtals 5,67 prósent af heildarhlutafé í Landsbankans, sem féll haustið 2008.
Málsóknarfélagið krafðist þess að skaðabótaskylda Björgólfs Thors á því tjóni sem aðilar að félaginu urðu fyrir þegar hlutabréf í Landsbankanum urðu verðlaus við fall hans 7. október 2008. Í stefnunni kom fram að félagsmenn byggi málsóknina á því „að þeir hefðu ekki verið hluthafar í Landsbanka Íslands hf. og þar með ekki orðið fyrir tjóni, ef ekki hafði komið til hinnar saknæmu og ólögmætu háttsemi stefnda [Björgólfs Thors]“.
Það sem málsóknarfélagið taldi að Björgólfur Thor hafi gert, og hafi ollið þeim skaða, er þrennt. Í fyrsta lagi hafi ekki verið veittar upplýsingar um lánveitingar Landsbanka Íslands til Björgólfs Thors og tengdra aðila í ársreikningum bankans fyrir rekstrarárið 2005 og í öllum uppgjörum eftir það fram að hruni.
Í öðru lagi hafi Björgólfur Thor vanrækt á tímabilinu 30. júní 2006 til 7. október 2008, að „upplýsa opinberlega um að Samson eignarhaldsfélag ehf. [Í aðaleigu Björgólfs Thors og föður hans] færi með yfirráð yfir Landsbanka Íslands hf., og teldist því móðurfélag bankans“.
Í þriðja lagi taldi félagið að Björgólfur Thor hafi vanrækt að „sjá til þess að Samson eignarhaldsfélag ehf. gerði öðrum hluthöfum Landsbanka Íslands hf. yfirtökutilboð hinn 30. júní 2006, eða síðar, í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti“.
Björgólfur Thor fór fram á að málinu yrði vísað frá og héraðsdómur Reykjavíkur tók undir það í mars 2016. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð í gær.
Pissukeppninni ekki lokið
Þótt dómsmálinu sé lokið þá er pissukeppninni milli Björgólfs Thors og Róberts og Árna þó ekki á enda runnin. Greint var frá því í ViðskiptaMogganum í janúar síðastliðnum að Björgólfur Thor og viðskiptafélagar hans hjá Novator séu að skella sér í samheitalyfjabransann á ný.
Þeir hafa þegar stofnað fyrirtækið Xantis Pharma, sem er með höfuðstöðvar í Zug í Sviss. Það er sama borg og hýsti höfuðstöðvar Actavis, samheitalyfjafyrirtækisins sem Björgólfur Thor réð yfir forðum daga, hér áður fyrr. Actavis hefur síðan gengið í gegnum fjölmargar sameiningar og heitir nú Allergan. Um mitt ár í fyrra var hlutur Novator í Allergan kominn undir eitt prósent, en gengi bréfa í félaginu hefur fimmfaldast á tæpum fjórum árum.
Björgólfur Thor er aftur orðinn á meðal ríkustu manna heims, samkvæmt lista Forbes, en auðæfi hans eru metin á 1,6 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 208 milljörðum króna. Björgólfur Thor er númer 1.121 á lista Forbes yfir ríkasta fólk heimsins. Hann fór hæst í 249. sæti árið 2007. Eignir Björgólfs Thors eru meðal annars í fjarskiptafélögunum Play í Póllandi og WOM í Chile, auk þess að eiga eignarhluti í félögunum Xantis Pharma og Allergan líkt og áður sagði.
Björgólfur Thor var á barmi gjaldþrots eftir hrun fjármálakerfisins, og í persónulegum ábyrgðum fyrir tugmilljarðaskuldum, en tókst að semja við kröfuhafa sína, halda eignarhlutum í stórum fyrirtækjum, meðal annars Actavis, sem síðan hefur sameinast öðrum félögum og stækkað, og þannig ná vopnum sínum á nýjan leik.