Það segir ýmislegt um ástandið í íslenskum stjórnmálum undanfarnar vikur að nýjasta skoðanakönnun á fylgi frambjóðenda til forseta hafði verið í loftinu í fimmtán mínútur þegar hún var orðin úreld. Þá tilkynnti Ólafur Ragnar Grímsson að hann væri hættur við að bjóða sig fram í sjötta sinn. Raunar hafði könnunin líka úrelst í miðju kafi, þegar nýr frambjóðandi, Davíð Oddsson, bættist í hópinn á síðasta degi hennar.
Þrátt fyrir þetta er könnun MMR, sem birt var í morgun, mjög áhugaverð. Guðni Th. Jóhannesson mældist þar með mikla forystu á aðra frambjóðendur, eða 59,2% fylgi. Ólafur Ragnar mældist með 25,3% fylgi og Andri Snær Magnason 8,5 prósenta fylgi. Davíð Oddsson mældist með 3,1 prósent, en hann var aðeins hluti af könnuninni síðasta daginn af fjórum, sem þýðir að 27 prósent svarenda fengu hann sem valmöguleika. Halla Tómasdóttir mældist með 1,7 prósenta fylgi í könnuninni. Síðasta könnun á undan þessari sýndi allt aðra mynd. Þá mældist Ólafur Ragnar með 52,6 prósent, Andri Snær með 29,4 prósent og Halla Tómasdóttir 8,8 prósent. Og nú er ljóst að næsta könnun mun sýna aðra mynd þar sem Ólafur Ragnar er hættur og Davíð kominn inn frá byrjun.
Helmingur kjósenda Ólafs myndi kjósa Guðna
MMR spurði svarendur um það hver yrði líklegast fyrir valinu hjá þeim ef fyrsta val þeirra væri ekki í framboði. Sú spurning er áhugaverð í ljósi þeirra tíðinda að Ólafur Ragnar er hættur við að bjóða sig fram, en gæti auðvitað breyst með innkomu Davíðs.
Helmingur þeirra sem ætluðu að kjósa Ólaf Ragnar sögðu að ef hann væri ekki í framboði myndu þeir líklegast kjósa Guðna Th. Fjórðungur þeirra sagðist hins vegar kjósa einhvern annan frambjóðanda og um 20 prósent sögðu að ef Ólafur yrði ekki í framboði myndu þeir ýmist ekki kjósa eða skila auðu.
Ríflega þrír af hverjum fjórum kjósendum Andra Snæs sögðu að ef hann væri ekki í framboð kysu þeir Guðna Th. 6,8 prósent hefðu viljað Ólaf sem annað val, og 15 prósent einhvern annan frambjóðanda.
Kjósendur annarra frambjóðenda hefðu flestir viljað kjósa Ólaf Ragnar ef þeirra fyrsta val væri ekki í framboði, eða 39,3 prósent. 32,2 prósent kjósenda annarra frambjóðenda segjast munu kjósa Guðna ef þeirra frambjóðandi væri ekki í framboði, en 1,7 prósent Andra.
Konur og langskólagengnir vildu Guðna
Guðni hafði hlutfallslega meira fylgi hjá konum en körlum, ríflega 61 prósent kvenna vildu Guðna en 53,4 prósent karla. Helmingur kjósenda í yngsta aldurshópnum, 18-29 ára, sagðist myndu kjósa Guðna. Hann naut um 60 prósenta stuðnings í aldurshópunum 30 til 49 ára og 50 til 67 ára, og 56 prósenta stuðnings meðal 68 ára og eldri.
Stuðningurinn við Guðna mældist nokkuð jafn meðal fólks á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, 58 prósent á höfuðborgarsvæðinu og rúmlega 56 prósent á landsbyggðinni.
Guðni Th. var með meira fylgi meðal fólks sem hefur meiri menntun en þeirra sem hafa minni menntun. Meðal háskólamenntaðra mældist stuðningur við hann 69 prósent, en meðal þeirra sem hafa grunnskólamenntun var stuðningurinn rúmlega 48 prósent.
Þegar stuðningurinn er skoðaður eftir stuðningi við stjórnmálaflokka sést að stuðningur við Guðna mældist um og yfir 60 prósent meðal þeirra sem ætla að kjósa stjórnarandstöðuflokkanna. Tæp 30 prósent kjósenda Framsóknarflokksins ætluðu að kjósa Guðna og rúm 38 prósent sjálfstæðismanna.
Karlar, minna menntaðir og landsbyggðarbúar vildu frekar Ólaf
Ólafur Ragnar hafði aftur á móti hlutfallslega meira fylgi meðal karla, en 31,2 prósent karla vildu hann gegn 24,6 prósentum kvenna, og þeirra sem hafa minni menntun. 42,7 prósent grunnskólamenntaðra vildu Ólaf Ragnar en aðeins ríflega 15 prósent þeirra sem eru með háskólapróf. Hann var einnig með miklu meira fylgi á landsbyggðinni (36%) en á höfuðborgarsvæðinu (23,8%).
Ólafur Ragnar mældist með yfir 61 prósenta fylgi meðal kjósenda Framsóknarflokksins, og 48 prósenta stuðning meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins. 17 prósent kjósenda Samfylkingar ætluðu að kjósa hann og 15 prósent Pírata. Hann hafði tæplega 12 prósenta stuðning meðal kjósenda VG.
Enginn stuðningur við Andra hjá sjálfstæðis- og framsóknarmönnum
Andri Snær mældist svo með hlutfallslega mest fylgi meðal yngstu kjósendanna og þeirra sem hafa lengri skólagöngu að baki. Athyglisvert er að Andri Snær er með 0,0 prósenta fylgi meðal kjósenda Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur stundum verið orðaður við tengsl við Vinstri-græn vegna áherslu sinnar á náttúruvernd, en mestan stuðning hefur hann meðal kjósenda Bjartrar framtíðar, 22,5 prósent. 19,4 prósent Samfylkingarkjósenda og 16 prósent Pírata studdu Andra Snæ, en 15,5% kjósenda VG.