Afarkostir aflandskrónueigenda sem ekki er eining um hvort standist lög

Um liðna helgi var samþykkt frumvarp til að bræða snjóhengju aflandskróna. Útboð fer fram 16. júní og aflandskrónueigendum munu bjóðast tveir vondir kostir. Taki þeir ekki tilboðum Seðlabankans fara þeir aftast í röðina út úr höftunum.

bjarni_benediktsson.jpg
Auglýsing

Á sunnudag var samþykkt frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, eða aflandskrónufrumvarpið. Það var lagt fram eftir lokun markaða á föstudag og höfuðáhersla lögð á að frumvarpið yrði að lögum fyrir opnum markaða á mánudag. Þess vegna fékk það mjög hraða meðferð í þinginu og forseti Íslands skrifaði undir þau aðfaranótt mánudags.

Frumvarpið snýst um að „bræða“ hina svokölluðu aflandskrónuhengju, sem er upp á 319 milljarða króna, þannig að hægt verði að ráðast í frekari losun á þeim fjármagnshöftum sem Íslendingar hafa þurft að búa við í tæp átta ár. Þetta á að vera lokahnykkur í því haftalosunarferli sem staðið hefur yfir árum saman með söfnun á gjaldeyrisforða, greiningu á greiðslujafnvægi íslenska hagkerfisins og samningum við kröfuhafa föllnu bankanna.

Um hvað snýst aðgerðin?

Í einföldu máli snýst frumvarpið um að eigendur „aflandskróna“ verði boðnir tveir kostir. Annar felst í því að eigendurnir samþykki að selja krónurnar sínar á gengi sem á eftir að kynna, en verður líklega í kringum 200 krónur fyrir hverja evru, í uppboði sem fram á að fara 16. júní næstkomandi. Þeir sem samþykkja ekki að taka þátt í þessu útboði býðst að fjárfesta í sérstökum innstæðubréfum útgefnum af Seðlabanka Íslands sem bera 0,5 prósent vexti en vextir á þeim eru endurskoðaðir árlega.

Auglýsing

Ósamvinnuþýðir aflandskrónueigendur, sem neita að taka þátt í aflandskrónuútboðinu, munu reyndar fá annað tækifæri til að koma sér út úr íslensku hagkerfi á enn verri kjörum frá 1. september til 1. nóvember 2016. Þar verður viðmiðunargengið 220 krónur. Til samanburðar er skráð evrugengi Seðlabanka Íslands í dag tæplega 140 krónur. Fari þeir ekki út með peninganna sína þá er alls óljóst hvenær þeir hafi aftur aðgang að eignum sínum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði við Morgunblaðið í gær að þeir myndu lenda aftast í röðinni við losun hafta.

Már Guðmundsson segir að þeir aflandskrónueigendur sem taki ekki þátt í útboðum bankans fari aftast í röðina þegar kemur að losun hafta.Ef allir aflandskrónueigendurnir myndu fara út í seinni glugganum, á genginu 220 krónur fyrir hverja evru, yrði gengishagnaður íslenskra stjórnvalda um 116 milljarðar króna. Miðað við það gengi sem hefur verið í aflandskrónuviðskiptum nýverið - um 195 krónur fyrir hverja evru - má ætla að gengishagnaður íslenskra stjórnvalda vegna fyrri útboðsins, verði um 83 milljarðar króna, taki allir aflandskrónueigendur þátt.

Þegar slíkar tölur eru reiknaðar út verður þó að taka tillit til þess að Seðlabanki Íslands hefur verið að kaupa evrur á allskyns gengi á undanförnum árum á meðan að hann hefur verið að safna sér upp um 400 milljarða króna óskuldsettum gjaldeyrisvaraforða til að nota í þessu uppboði. Því þarf að taka til greina á hvaða gengi seðlabankinn keypti þann gjaldeyri hverju sinni áður en endanlegur„hagnaður“ íslenskra stjórnvalda á þessari aðgerð liggur fyrir.

Stenst aðgerðin lög?

Í 72. grein stjórnarskráar Íslands segir: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir“. Þrátt fyrir það telja ráðamenn þjóðarinnar, og Seðlabanki Íslands, að þessi ráðagerð standist eignarréttarákvæði stjórnarskráar Íslands. Davíð Þór Björg­vins­son laga­pró­fess­or tekur undir það, samkvæmt umsögn sinni sem hann skilaði inn vegna frumvarpsins.

Aflandskrónueignirnar eru, líkt og áður sagði, upp á 319 milljarða króna. Nálægt 85 prósent svokallaðra aflandsskróna eru í eigu bandarískra eignastýringafyrirtækja, sem stýra meðal annars vogunarsjóðum. Á meðal þeirra er ekki jafn mikil vissa um að aðgerðin standist stjórnarskránna.

Pétur Örn Sverrisson hæstaréttarlögmaður og Magnús Árni Skúlason hagfræðingur unnu umsögn um frumvarp stjórnvalda um losun fjármagnshafta fyrir hönd tveggja sjóða, Eaton Vance Corp. og Autonomy Capital LP. Í einföldu máli telja sjóðirnir að frumvarpið gangi gegn stjórnarskrárvörðum eignarétti sjóðanna með „bótaskyldum“ hætti.

Sér­stak­lega er áhersla lögð á það að engar neyð­ar­að­stæður séu uppi í hag­kerf­inu þessi miss­er­in sem rétt­læti sér­staka eigna­upp­töku af sjóð­un­um. Staða efna­hags­mála sé góð og óskuld­settur gjald­eyr­is­forði Seðla­bank­ans nemi um 400 millj­örðum króna, eða sem nemur um 20 pró­sent af lands­fram­leiðslu. Kvik krónu­eign sé minni en sem þessu nemur og því ógni hröð útganga ekki hag­kerf­inu.

Aflandskrónueigendurnir telja að eignaskerðingin sem frumvarpið feli í sér geti á engan hátt talist í samræmi við jafnræðis- og eignarréttarákvæði stjórnarskráarinnar. Augljóslega sé verið að mismuna þeim á grundvelli þjóðernis og búsetu.

Hvaðan komu þessar aflandskrónueignir?

Aflandskrónueignirnar má rekja að stærstu leytii til jöklabréfanna (e. Eurobonds), skuldabréfa sem gefin voru út í íslenskum krónum. Sú útgáfa hófst í ágúst 2005 og gaf erlendum sem innlendum fjárfestum tækifæri til að stunda vaxtamunaviðskipti (e. carry trade). Í ein­földu máli snú­ast þau um að er­lendir fjár­festar tóku lán í myntum þar sem vextir voru lágir og keyptu síð­an ­ís­lensk skulda­bréf, vegna þess að vextir á þeim eru háir í öllum alþjóð­leg­um ­sam­an­burði. Því gátu fjár­fest­arnir hagn­ast vel umfram þann kostnað sem þeir báru af lán­töku sinn­ar. Og ef þeir voru að gera við­skipti með eigin fé þá gát­u þeir auð­vitað hagn­ast enn meira. Útgefendur bréfanna voru erlendir bankar, m.a. Rabobank í Hollandi og þýski bankinn kfW.

Þeir aflandskrónueigendur sem taka munu þátt í útboðinu 16. júní munu líkast til þurfa að greiða í kringum 200 krónur fyrir hverja evru. Það er umtalsvert verra gengi en opinbert gengi krónu í dag.Mörg þessara skuldabréfa hafa síðan komist á gjalddaga og eigendur þeirra þá setið fastir með lausa fjármuni innan  hafta. Þeir hafa getað selt öðrum þær krónur sem hafa viljað nota þær til fjárfestinga, fjárfest fyrir þær sjálfir eða geymt á innlánsreikningum. Þess vegna eru aflandskrónurnar, samkvæmt skilgreiningu frumvarps fjármála- og efnahagsráðherra, ekki bara bundnar í skuldabréfum. Þvert á móti eru þær m.a. bundnar í hlutabréfum í skráðum og óskráðum fyrirtækjum. Þannig fellur fjórðungshlutur bandaríska fjárfestingasjóðsins Yucaipa undir skilgreininguna og 66 prósent hlutur Alterra Power (áður Magma Energy) í HS Orku einnig. Sömu sögu er að segja af 13,2 prósent eignarhlut Burlington Loan Management í Klakka (áður Exista), eiganda Lýsingar.

Eru einhverjar samningaviðræður í gangi?

Ljóst er að samskipti hafa átt sér stað milli stjórnvalda og eigenda aflandskróna þar sem hinir erlendu eigendur krónueigna hafa lagt fram leiðir sem áttu að vera hlutlausar gagnvart greiðslujöfnuði Íslands. Á meðal þeirra voru, samkvæmt heimildum Kjarnans, þær að aflandskrónuvandinn yrði leystur á löngum tíma þar sem afsláttur á krónueignum yrði um eða yfir tíu prósent. Þessi samskipti leiddu ekki til niðurstöðu í aðdraganda þess að frumvarpið um aflandskrónuútboð var lagt fram.

DV greindi frá því í gær að fulltrúar fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytis og Seðla­banka Íslands fund­uðu í fyrradag með aðilum frá þeim banda­rísku eigna­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækjum sem stýra vog­un­ar­sjóðum sem halda utan um stærstan hluta af aflandskrónu­eignunum. Fund­ur­inn fór fram í New York og þar á að svara þeim spurn­ingum sem full­trúar sjóð­anna hafa um hin nýsam­þykktu lög um aflandskrónuútboðið.

Ekki liggur fyrir hvort aflandskrónueigendurnir muni spila með og taka þátt í útboðinu. Þeir gætu til dæmis neitað að taka þátt í útboðinu í næsta mánuði og ákveðið að leita réttar síns, bæði innanlands sem og í Bandaríkjunum, þar sem flestir þeirra eiga heimilisfesti. Í frétt RÚV fyrr í í fyrradag var haft eftir Pétri Erni að umbjóðendur hans væru að meta næstu skref.

Hvernig fór aftur síðasta skref?

Aflandskrónuútboðið sem fyrirhugað er að halda í júní á að vera eitt af síðustu skrefunum sem stjórnvöld stíga í átt að losa um höft á einstaklinga, lífeyrissjóði og fyrirtæki á Íslandi. Það má segja að þetta sé næst stærsta skrefið í þá átt, á eftir uppgjöri á slitabúum föllnu bankanna, sem samið var um síðla árs í fyrra.

Þá lögðu stjórnvöld upp annað hvort eða leið fyrir kröfuhafa búanna sem fólst í því að þeim var gert kleift að semja um að greiða stöðugleikaframlög eða að lagður yrði 39 prósent stöðugleikaskattur á allar eignir þeirra hérlendis.

Í aðdraganda þess að sú leið var kynnt með pompi og prakt í Hörpu fyrir tæpu ári höfðu verið upp sambærileg sjónarmið gagnvart stöðugleikaskattinum og eru nú gagnvart þeim leiðum sem bjóða á upp á í tengslum við aflandskrónuútboðin. Þ.e. að í þeim fælist eignaupptaka sem ekki stæðist stjórnarskrá.

Kynning á stærsta skrefi við losun fjármagnshafta fór fram í Hörpu fyrir tæpu ári síðan. Þar var m.a. boðaður mögulegur stöðugleikaskattur. Á endanum var samið við kröfuhafa um niðurstöðu.Ekki

 reyndi á þessi sjónarmið vegna þess að kröfuhafarnir sömdu allir sem einn við íslenska ríkið um að greiða stöðugleikaframlag í stað þess að láta reyna á lögmæti stöðugleikaskattsins.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi þessa árs mun ríkið tekjufæra 348,3 milljarða króna vegna stöðugleikaframlaganna. Miðað við það verða endurheimtir kröfuhafa í bú íslensku bankanna á pari við, eða hærri, en þeir hafa búist við á undanförnum árum. Í þeirra röðum ríkir nokkuð mikil ánægja með það samkomulag sem náðist og er það talið kosta þá mjög svipað hlutfall af eignum sínum og þeir reiknuðu með að það myndi kosta þá í sviðsmyndum sem þeir létu vinna fyrir sig rúmum þremur árum áður en gengið var frá samkomulaginu.

Í greinargerð Seðlabanka Íslands um mat hans á uppgjörssamkomulaginu, sem er dagsett 27. október 2015, sagði: „Leið nauða­samn­inga á grund­velli stöð­ug­leika­skil­yrða er mun áhættu­minni en skatta­leið­in, þar sem girt er fyrir áhættu með marg­vís­legum ráð­stöf­unum og áhætta vegna dóms­mála verður mun minn­i".

Eru allir sáttir við þetta?

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt samráðsleysi ríkisstjórnarinnar í því haftalosunarferli sem staðið hefur yfir undanfarin ár. Sjö þingmenn úr Vinstri grænum og Pírötum sátu því hjá við afgreiðslu frumvarpsins um aflandskrónuútboðið. Innan stjórnarandstöðunnar var þó samkomulag um að standa ekki í vegi fyrir afgreiðslu málsins í ljósi þess að um afar þjóðhagslega mikilvægt.

Það eru þó ekki allir sáttir með þá leið sem verið er að fara og sumum finnst að ríkið sé að hleypa kröfuhöfum og aflandskrónueigendum út úr höftum á undan öllum öðrum og á allt of góðum kjörum.

Þar hefur InDefence hópurinn gagnrýnt áform stjórnvalda í haftalosunarferlinu harðlega. Sveinn Valfells, eðlis- og hagfræðingur, sem staðið hefur í forystusveit hópsins sagði við Kjarnann fyrr í vikunni að afnámsferlið allt virðist „hannað til að greiða götu kröfu­hafa og hámarka end­ur­heimtur þeirra, almenn­ing­ur, atvinnu­líf og líf­eyr­is­sjóðir reka lest­ina og þola umtals­verða rýrnun á verð­gildi krón­unnar.“ 

InDefence hóp­ur­inn segir í umsögn sinni um hafta­frum­varpið að for­gangur kröfu­hafa í slitabú bank­anna og erlendra aflandskrónu­eig­enda, þegar kemur að útleið úr höft­un­um, séð bæði óþarfur og skað­leg­ur. Almenn­ingur á Íslandi eigi ekki að reka lest­ina í þessum efn­um, heldur frekar að vera í for­gang­i. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var bólusett í Laugardalshöllinni í gær. Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og verk Libiu og Ólafs áður en það var tekið niður af gafli Hafnarborgar.
Bæjarstjóri hafnar því að hafa gerst sek um ritskoðun þegar listaverk var fjarlægt
Fulltrúar minnihlutans í Hafnarfirðii segja fjarlægingu listaverks Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar af gafli Hafnarborgar síðastliðinn sunnudag „alvarlega aðför að tjáningarfrelsi“ og vilja að bæjaryfirvöld biðji tvíeykið afsökunar.
Kjarninn 7. maí 2021
Svæðið fyrir og eftir að Rio Tinto hafði farið yfir það með stórvirkum vinnuvélum.
Hluthafar Rio Tinto hafna starfskjarastefnu sem ofurlaun forstjórans fyrrverandi byggðu á
Fyrstu viðbrögð Rio Tinto og forstjóra þess, þegar upp komst að fyrirtækið hefði eyðilagt 46 þúsund ára gamla steinhella, voru að segjast ekki hafa vitað að þeir væru heilagir í hugum frumbyggjanna. Þessar afsakanir voru hluthöfum ekki að skapi.
Kjarninn 6. maí 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra.
Telur ásakanir um meint brot Samherja ekki hafa skaðað orðspor íslenskra fyrirtækja
Fjármála- og efnahagsráðherra segist aldrei hafa fengið símtal, ábendingu eða umkvörtun frá nokkrum einasta aðila sem heldur því fram að ásakanir um lögbrot Samherja séu að valda einhverjum verulegum vandræðum fyrir íslenskan útflutning.
Kjarninn 6. maí 2021
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Landsbankinn hagnaðist um 7,6 milljarða króna á þremur mánuðum
Hlutdeild Landsbanka Íslands á íbúðalánamarkaði hefur stóraukist milli ára og er nú 26,8 prósent. Hún hefur aldrei verið hærri. Eigið fé bankans er nú 261,4 milljarðar króna.
Kjarninn 6. maí 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None