Yfir 80 prósent Íslendinga eru óánægðir með framboðið á húsnæðismarkaðnum, hvort sem þeir eru að leigja eða eiga sitt eigið húsnæði. Mun fleiri eiga húsnæði heldur en leigja, eða um 78 prósent, á meðan 22 prósent leigja. Eins og gefur að skilja flytja þeir sem leigja mun oftar heldur en þeir sem eiga, en yfir helmingur þeirra sem eiga eigið húsnæði hafa aldrei flutt á síðustu 10 árum. Hins vegar er hlutfallið tæp sjö prósent meðal leigjenda.
Þetta eru niðurstöður umfangsmikillar könnunar sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti á morgunverðarfundi um húsnæðismál á Grand Hótel í morgun. Könnunin var tvíþætt, annars vegar um leigjendur og hins vegar um eigendur húsnæðis. Farið var yfir niðurstöðurnar og viðhorf íbúa til húsnæðismarkaðarins skoðaðar. Elsa Lára Arnardóttir, varaformaður velferðarnefndar Alþingis, ræddi einnig um fyrirhugaðar réttarbætur og aukinn stuðning við fólk á húsnæðismarkaði.
Eigendur húsnæðis flytja sjaldnar og búa í stærri íbúðum
Mikill munur er á milli þeirra sem eiga og leigja þegar kemur að flutningum. Helmingur þeirra sem á húsnæði hafa flutt á síðustu 10 árum, langflestir einungis einu sinni. Tæplega 95 prósent leigjenda hafa flutt á síðustu 10 árum, flestir fjórum sinnum. Þá munar einnig töluverðu á meðalstærð húsnæðis eftir því hvort fólk á eða leigir. Meðalfermetrafjöldi húsnæðis í eigu íbúa eru 150 fermetrar, en 89 fermetrar hjá þeim sem leigja.
75 prósent leigjenda telja sig búa í öruggu húsnæði
Langflestir segjast vera leigjendur af nauðsyn, eða rúm 65 prósent. Einungis rúm 10 prósent segjast vera á leigumarkaði vegna þess að þeir kjósa að vera það. Rúm 23 prósent eru leigjendur tímabundið.
Yfir 55 prósent Íslendinga sem eru á leigumarkaði fannst erfitt eða mjög erfitt að verða sér út um síðasta húsnæðið sitt. Rúmlega sjö prósent fannst það mjög auðvelt og tæpum 20 prósent frekar auðvelt.
Þrír af hverjum fjórum telja að leiguhúsnæði sem þeir búi í sé öruggt, þar af 35 prósent finnst það mjög öruggt. Hlutfallið var rúm 45 prósent í svipaðri könnun sem gerð var árið 2003. 10 prósent telja mjög líklegt að þeir geti misst húsnæðið og rúm 15 prósent frekar líklegt.
Fjárhagsstaða leigjenda erfið
Þegar fjárhagsstaða leigjenda er skoðuð sést að langflestir hafa það frekar erfitt. Nær þrír af hverjum fjórum geta ekki safnað neinu sparifé og þar af segjast tuttugu prósent safna skuldum. Einungis rúm fimm prósent leigjenda segjast geta safnað talsverðu sparifé. Staðan er mun betri hjá þeim sem eiga eigið húsnæði. Að meðaltali er leigan um 42 prósent af ráðstöfunartekjum heimilisins.
Flestir leigjendur telja nær öruggt að þeir verði á leigumarkaðnum áfram eftir eitt ár, eða tæp 70 prósent. 14 prósent þeirra telja að það verði einnig svo eftir 10 ár. Varðandi næst þegar fólk skipti um húsnæði telja um 45 prósent að það verði annað hvort öruggt eða mjög líklegt að þeir haldi áfram á leigumarkaðnum.
Skiptar skoðanir á séreignalífeyrissparnaðarúrræði
Rúmur helmingur leigjenda á markaðnum segist vera að greiða í séreignalífeyrissparnað, en samkvæmt nýjum lögum sem Eygló hefur talað fyrir er hægt að nýta séreignasparnaðinn sinn til kaupa á fyrstu íbúðinni sinni.
Tæp 40 prósent sögðust hafa áhuga eða mikinn áhuga á að nýta sér úrræðið, en sama hlutfall sagðist hafa engan eða lítinn áhuga á því. Munurinn var mikill eftir aldri, en áhuginn minnkaði eftir því sem fólk varð eldra. Líklega vegna þess að úrræðið á ekki við þá, þar sem einungis er hægt að nýta sér það ef viðkomandi er að kaupa sér sína fyrstu íbúð. Þá var áhuginn mestur meðal þeirra sem búa í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur.
En þrír af hverjum fjórum leigjendum sögðust samt sem áður vilja helst eiga sitt eigið húsnæði, ef nægjanlegt framboð væri af öruggu leiguhúsnæði og húsnæði til kaups.
Mikil breyting frá 2003
Séu niðurstöðurnar bornar saman við svipaða könnun sem gerð var árið 2003, sést glögglega að húsnæðisvandinn hefur aukist. Fólk er frekar í leiguíbúðum af nauðsyn og þar er erfiðara að finna húsnæði, hvort heldur sem maður er að kaupa eða leigja.
65 prósent svarenda 2015 voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og 35 á landsbyggðinni. Könnunin var gerð af Gallup í nóvember og desember á síðasta ári. 786 leigjendur svöruðu og 2.266 eigendur.