Átta forsetaframbjóðendur lýstu afstöðu sinni til stjórnarskrárinnar í Háskólanum í Reykjavík í dag. Lögrétta, félag laganema við HR, bauð öllum forsetaframbjóðendum til að ræða málið.
Hver frambjóðandi fékk fimm mínútur til að koma sínum skoðunum sínum á framfæri.
Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Sturla Jónsson, Guðni Th. Jóhannesson, Halla Tómasdóttir, Andri Snær Magnason, Davíð Oddsson og Ástþór Magnússon mættu. Hildur Þórðardóttir mætti klukkustund of seint og fékk að fara með sín stefnumál. Frambjóðendur stigu í pontu í stafrófsröð. Guðrún Margrét Pálsdóttir komst ekki á fundinn, en hún er stödd erlendis.
Þjóðfundurinn fallegt átak
Andri Snær talaði mikið um Þjóðfundinn sem haldinn var árið 2009. Hann sagði að ferlið með nýja stjórnarskrá hafi byrjað með fallegu átaki, Þjóðfundinum. Skilað hafi verið af sér gildum, sem hlegið hafi verið að á sínum tíma, en nú hafi síðustu vikur sýnt að það hafi verið alvara á bak við þessi gildi.
Lýðræði væri skapandi ferli sem fólk þróar og það megi ekki staðna. Ef almenningur fær ekki rödd, á það til að öskra í gegn um einn sterkan karlmann. Það er ekki gott að breyta stjórnarskrá í sjálfu sér, en það er gott að færa hana í rétta átt. Við getum sýnt að við séum til fyrirmyndar í heiminum.
Andri Snær talaði um kafla stjórnarskrárinnar sem fjallar um forseta Íslands og telur brýnt að skýra hlutverk forseta og að færa valdið til fólksins í stað 26. greinar stjórnarskrárinnar, um þjóðaratkvæðagreiðslur. Stjórnarskráin eigi að vera skrifuð á mannamáli og samhæfanleg stjórnarskrám nágrannaríkjanna.
Skoðanatúlkun fjölmiðla það hættulegasta í íslensku samfélagi
Ástþór Magnússon sagði að flestir könnuðust sennilega við nafn hans, en kannski ekki öll hans stefnumál. Hann sagði vöntun á því að stjórnarskráin sé virt. Það þurfi að uppfæra hana í samræmi við nútímann, en ekki gera hana að marklausu plaggi. Það vanti í hana refsiákvæði varðandi að fara ekki eftir henni.
Ástþór sagði að ráðskast sé með skoðanir fólks með heimatilbúnum könnunum, ríkisfjölmiðlar taki þátt í þeim leik. Forsetaframbjóðanda sé skotið á loft og ímyndaðir turnar búnir til á milli hans og sitjandi forseta. Lýðræði sé marklaust í því umhverfi. Það megi ekki stjórna fjölmiðlum með Panamapeningum, eins og stærsta einkarekna fjölmiðlasamsteypa landsins sé rekin. Nauðsynlegt sé að kynna öll framboð á jafnréttisgrundvelli.
Hann talaði um epli og appelsínur og heimfærði það á ójafnvægi í umfjöllun fjölmiðla um forsetaframbjóðendur og framboð til Alþingis. Þetta sé það hættulegasta sem stafar að íslensku samfélagi í dag, hvernig ráðskast sé með skoðanir fólksins.
Gagnrýndi síðustu ríkisstjórn og sitjandi forseta
Davíð Oddsson sagðist vonast til að hann væri á réttum fundi, eftir ræðu Ástþórs. Hann sagðist einn manna á fundinum hafa komið að því að breyta stjórnarskránni. Það hafi hann gert á Alþingi. Einnig sagðist hann hafa haft forgang um ýmis ákvæði í henni. Það eigi þó ekki að breyta henni oft eða mikið, það sé í eðli hennar að svo verði ekki gert. Skildi ekki að fall bankanna hafi fært rök fyrir því að kollvarpa stjórnarskránni.
Davíð talaði um ár sín í lögfræði, og minntist á að málskotsréttur hafi þá heitið synjunarvald. Því hafi fylgt ábyrgð. Ef forseti beitti synjunarvaldi og þjóðin synjaði lögunum, hafi ríkisstjórnin átt að segja af sér, og ef þjóðin samþykkti lögin, ætti forseti að segja af sér.
Þegar þjóðin hafnaði mjög mikilvægum lögum, Icesave, gagnrýndi Davíð þáverandi ríkisstjórn sem hafi bara „látið eins og hún væri að fá sér morgunverð einhvers staðar,“ og uppskar hlátur úr sal. Hann gagnrýndi synjun forseta á fjölmiðlalögunum og sagði að valdsvið forseta sé tvíþætt. Annars vegar þau sem skráð séu í stjórnarskrá, og hins vegar áhrifavald forsetans. Hið síðarnefnda fari mikið eftir persónu forseta.
Davíð sagði í umræðunum eftir kynningarnar að þó að það virðist sem allir frambjóðendur séu hér friðsamir og sammála, megi samt sem áður heyra ágreining ef glöggt er hlustað. Til dæmis vilji Ástþór virkja Bessastaði á meðan Andri Snær vilji ekki virkja neitt.
„Kapítalismi“ og „Kárahnjúkar“ dottin úr orðaforðanum
Elísabet Kristín Jökulsdóttir sagðist ekki hafa verið með spurningarnar, en hún hafi stolið þeim frá sessunaut sínum, Davíð Oddssyni. Hún er á móti málskotsréttinum og lítur á hann sem tappa í bát - þegar um geðveiki eða landráð sé að ræða sé hægt að beita honum. Ekki sé rétt að einn maður geti tekið þessa ákvörðun einn og sjálfur. Það þurfi að vísa því til þjóðarinnar. Hún rifjaði upp þau atvik sem Ólafur Ragnar beitti málskotsréttinum, hafi henni fundist eitthvað rangt við það að einn maður hafi þetta vald þegar heil þjóð eigi að geta tekið afstöðu til hennar.
Eins sé með Kárahnjúkavirkjun. Hún hafi beðið forseta Íslands að beita málskotsréttinum, en það hafi ekki verið gert. Hún vill þjóðaratkvæðagreiðslu og þess vegna sé stjórnarskráin - það sé í anda okkar Íslendinga að halda þúsund manna þjóðfund í kjölfar Hrunsins.
Kapítalismi og Kárahnjúkavirkjun séu orð sem megi ekki nefna lengur, þau séu bara dottin út úr tungumálinu. Elísabet segir Kárahnjúkavirkjun vera ein ástæða fyrir hruninu. Hafa konurnar 18 sem drekkt var í Drekkingarhyl sem forseta. Nú sé hún í forsetaframboði, með hárgreiðslukonu og bílstjóra, en hún mundi frekar vilja hafa hóp kvenna sem forseta. Hún vill að karl og kona skiptir á að vera forseti og segir það sama um Jesú - að hann ætti að vera stelpa og strákur til skiptis.
Mundi ekki skrifa undir lög um dauðarefsingar
Guðni Th. Jóhannesson segir þjóðina og þingmenn vera það fólk sem breyti stjórnarskránni. Hann sé bæði sáttur við núverandi stjórnarskrá, en einnig sé þörf á breytingum. Þetta sé ferli sem hófst 1944 og því ljúki ekki núna, hvernig sem fer.
Brýnt sé að horfa sérstaklega til þess að fá atkvæði um tilskilinn fjölda kjósenda sem geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um störf þingsins. Skoða kafla um völd og verksvið forseta Íslands, því hann beri þess skýr merki um að hafa verið saminn þegar Ísland var konungdæmi.
Hann segist myndu beita málskotsrétti, en getur ekki sagt fyrirfram við hvaða aðstæður hann mundi gera það. Forseti eigi að geta neitað að undirrita lög, gangi þau alveg gegn sannfæringu hans. Hann tók dæmi um Vigdísi Finnbogadóttur, sem sagðist aldrei myndu undirrita lög um dauðarefsingar, og sagðist taka undir það.
Pólitískt valdsvið forseta sé mikið, eins og nýleg dæmi sýni okkur, og því skipti miklu máli að forseti sé ópólitískur í eðli sínu og megi ekki taka afstöðu til flokka. Hann segir að undirskriftir 10 til 15 prósent þjóðarinnar eigi að nægja til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Vill breyta stjórnarskránni í tveimur áföngum
Halla Tómasdóttir sagði að það væri eins og HR væri eins og sitt fyrsta barn, þar sem hún hafi verið í skólanum þegar hann var að mótast. Hún ræddi um lögfræðinámið við HR sem að hún hafi komið að því að móta eins og það var í dag. Hún fór yfir bakgrunn sinn áður en hún ræddi um afstöðu hennar til stjórnarskrárinnar.
Hún ræddi um aðkomu sína að Þjóðfundinum og sagði niðurstöðu hans hafa verið skýra: Heiðarleiki, jafnrétti, réttlæti og virðing. Mikilvægt verkefni sé að breyta stjórnarskránni og það sé hlutverk þingsins.
Brýn þörf sé á breytingum og það þurfi þverpólitíska sátt til þess. Það eigi að gera það í tveimur áföngum, byrja á því að taka stór mál eins og auðlindamál og beint lýðræði. Svo þurfi að koma henni á mannamál. Beiting málskotsréttar eigi ekki að vera háð geðþótta. Hún segist treysta lögfræðingum HR til að taka þátt í að endurskoða stjórnarskrána.
25.000 undirskriftir nægi til þjóðaratkvæðagreiðslu
Sturla Jónsson sagðist hafa lært lögfræði sjálfur úti á götu og þurft að standa í stappi við fólk sem hafði lært lögfræði í skólum. Venjulega fólkið lesi bara textann og ætlist til þess að það sé farið eftir honum.
Sýn hans á stjórnarskránna sé sú að hún sé kjölurinn í lagasafni okkar. Í dag séu lög mörg sett í andstöðu við stjórnarskránna og það hafi hann sjálfur upplifað í dómskerfinu. Það brjóti margt í bága við stjórnarskránna í lagasafni Íslands.
Varðandi málskotsréttinn segist Sturla ætla að vísa málum til þjóðarinnar fái hann 25.000 undirskriftir. Það sé hans sýn til að koma á beinu lýðræði. Hann gagnrýnir sölu ríkisins á stofnunum og fyrirtækjum og spurði hvers vegna því hafði ekki verið vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Lifi byltingin!“
Hildur Þórðardóttir mætti klukkutíma of seint, en fékk tækifæri til að tjá sín stefnumál. Húns agði mjög hlynnt nýju stjórnarskránni og segir það mikilvægan hlekk í því starfi sem þjóðin sé að fara í. Fólkið og forseti eigi að veita þinginu aðhald. Tilurð stjórnarskráarinnar sé merkileg, með þjóðfundinum. Það sé framtíðin og þannig verði við að finna leið til að þingið geti starfað.
Hún mun beita málskotsréttinum fái hún undirskriftir frá 10 prósent þjóðarinnar. Það sé bara þegar þingið sé að vinna á skjön við þjóðina sem þessu sé beitt.
Forseti sæki vald sitt til fólksins og því séu skyldur hans fyrst og fremst gagnvart því. Hún segist ætla að rugga bátnum verði hún forseti og því gæti farið svo að kerfið fari í baklás. Fólkið verði að breyta samfélaginu og nauðsynlegt sé að fá réttu tólin til þess.
Baráttumál hennar segir hún að verði að koma frá fólkinu sjálfu og því verði hún mikið úti meðal fólksins. Að mati Hildar geti allir breytt samfélaginu, það sé hægfara bylting sem fólkið verði að halda áfram. Valdhafar taki stjórnarskrána í gíslingu og breyti bara því sem þeim hentar. Fólk verði að sjá í gegn um kerfið. Hildur lauk sínum orðum með orðunum: „Lifi byltingin!“
Uppfært klukkan 13:10: Hildur Þórðardóttir mætti klukkan rúmlega eitt og fékk að segja frá sínum stefnumálum.