Mjög skiptar skoðanir eru meðal stjórnarþingmanna um það hvort rétt hafi verið að boða til kosninga í haust. Eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, lýsti efasemdum sínum um kosningar í haust hafa nokkrir fylgt í kjölfarið á opinberum vettvangi. Kjarninn hafði samband við þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um málið. Flestir framsóknarmenn sem náðist í voru þeirrar skoðunar að ekki hefði þurft að flýta kosningum. Sú ákvörðun hafi bara verið tekin til að róa ástandið í samfélaginu á örlagaríkum tímum. „Sterk löngun framsóknarmanna er að ljúka verkinu sem sett var upp sem 4ja ára plan,“ segir Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra til dæmis.
Byrjaði með Ásmundi
Það hefur verið ljóst frá því skömmu eftir að ríkisstjórnarsamstarfið var endurnýjað í apríl að ekki eru allir í stjórnarliðinu ánægðir með þær málalyktir að boða til kosninga í haust. Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, byrjaði þessa umræðu fyrir nokkrum vikum. Ásmundur Einar hóf strax í apríl að tala um að verið væri að „skoða möguleikann“ á því að kjósa í haust. Svo sagði hann að það liggi í raun ekkert á að kjósa, og að kosningar eigi ekki að fara fram fyrr en mikilvægum verkefnum sé lokið. Tilgangurinn var mögulega sá að kanna viðbrögðin við því að hætta við að halda kosningarnar í haust.
Bæði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sögðu hins vegar strax í kjölfarið að ekki stæði til að breyta þeim áætlunum að kjósa í haust. Það voru jú líka þeir tveir sem kynntu þá fyrirætlun, þegar þeir greindu frá áframhaldandi stjórnarsamstarfi flokkanna í byrjun apríl.
„Við ætlum að stíga viðbótarskref til að mæta kröfum um að virkja lýðræðið í landinu til þess að koma til móts við þá stöðu sem hefur myndast, og hyggjumst stefna að því að halda kosningar í haust, stytta kjörtímabilið um eitt löggjafarþing. Nákvæm dagsetning á kosningunum mun ráðast á framvindu þingmála,“ sagði Bjarni Benediktsson þá. Þegar Sigurður Ingi var spurður að því hvort eining hafi verið um ákvarðanirnar sem teknar voru sagði hann „algjörlega.“ Það virðist hins vegar ljóst að svo var ekki og svo er ekki. Þetta á ekki síst við í hans flokki.
„Sterk löngun“ að klára fjögur ár
Sigmundur Davíð tók svo við keflinu af Ásmundi Einari þegar hann steig aftur í sviðsljósið eftir sjö vikna frí um síðustu helgi. Hann talaði um að menn hefðu haft „einhverjar hugmyndir“ um kosningar í haust. „Það er rétt að þeir [Sigurður Ingi og Bjarni] sögðu að þeir væru reiðubúnir til að ræða það að kosningar færu fram snemma og nefndu haustið í því samhengi. En þeir voru mjög skýrir með það að þetta yrði ef, og einungis ef, að öll mál næðu að klárast.“
Fleiri tóku í sama streng og gera það í svörum við fyrirspurn Kjarnans. Þó má ljóst vera af orðum Bjarna Benediktssonar, sem vitnað er til hér að ofan, að því var alltaf lofað frá byrjun að það yrðu kosningar í haust og kjörtímabilið stytt um eitt löggjafarþing. Margir fyrirvaranna sem settir hafa verið komu eftir á.
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði nánast um leið og Sigmundur Davíð, bara í viðtali á öðrum fjölmiðli, Hringbraut, að hann hafi alltaf verið og sé enn mótfallinn því að kjósa fyrr.
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra segir það vera sterka löngun hjá framsóknarmönnum „að ljúka verkinu sem sett var upp sem 4ja ára plan.“ Hún segir að það hafi verið á örlagaríkum þremur dögum, þegar mikið gekk á, sem sagt hafi verið að kosið verði í haust ef takist að koma forgangsmálum ríkisstjórnarinnar í höfn. Þetta hafi verið sagt til að róa ákveðið andrúmsloft.
Hún segir að öll hennar vinna í ráðuneytinu miði engu að síður við kosningar í haust, en henni þyki sársaukafullt að geta ekki fylgt úr hlaði verkefnum eins og Rammaáætlun.
Lýðræðislegra að kjósa á næsta ári
„Persónulega finnst mér ekki tímabært að ákveða kjördag,“ segir Elsa Lára Arnardóttir. Hún segir að horfa þurfi til þeirra verkefna sem ríkisstjórnin var kosin til að vinna að, eins og húsnæðismál, verðtryggingarmál og endurbætur á almannatryggingarkerfinu og fæðingarorlofi. „Þetta eru þau brýnu verkefni sem horfa þarf til og klára. Þegar þeim er lokið er tímabært að ganga til kosninga. Hvort sem það er í haust eða síðar.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir segir að hún hefði kosið að loforð um kosningar í haust hefði ekki verið gefið á sínum tíma. Ástæðan: „árangur ríkisstjórnarinnar er framúrskarandi góður og ég hefði viljað sjá þessa ríkisstjórn klára fjögurra ára kjörtímabil.“
Willum Þór Þórsson segir að búið sé að bregðast myndarlega við upplýsingaleka Panamaskjalanna, með starfshópi og skýrslu. „Þessi ríkisstjórn hefur myndarlegan meirihluta, réttkjörinn, og er með fjölmörg mikilvæg mál í farvatninu. Tíminn til þess að klára mikilvæg mál er mjög knappur með tilliti til kosninga í haust.“
„Mér finnst það lýðræðislegra og eðlilegra að þessi meirihluti fái að klára þau verkefni sem og þann tíma sem hann var kosinn til,“ segir Haraldur Einarsson. Hins vegar sé búið að gefa væntingar um kosningar í haust. „Það var gert á örlagatímum og á miklu hraði,“ segir hann, en vegna væntinganna muni hann styðja kosningar í haust.
„Ég tel að réttast væri að kjósa vorið 2017 eins og ráð var fyrir gert við síðustu kosningar,“ segir Líneik Anna Sævarsdóttir. Hún virði hins vegar það samkomulag að ganga til kosninga í haust ef vel gangi að klára mál.
Sjálfstæðismenn vilja standa við loforð en fannst sumum óþarfi að gefa það
„Það hefur ekkert breyst varðandi það sem við forsætisráðherra höfum áður sagt að stefnt er að kosningum í haust,“ sagði Bjarni Benediktsson í byrjun vikunnar, spurður um málið á Alþingi. „Ég tek hins vegar fram að ég skil vel að skiptar skoðanir séu um þessi efni. Við sáum það líka á könnunum sem gerðar voru á sínum tíma meðal landsmanna. Það voru skiptar skoðanir í þjóðfélaginu hvort kjósa ætti núna í vor eða í haust eða síðar, þannig að það kemur út af fyrir sig ekki á óvart. En við lögðum af stað í þessu endurnýjaða stjórnarsamstarfi með þá hugsun. Það hefur ekki verið rætt okkar í milli og stendur ekki til að gera breytingar á því.“
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, vill líka standa við það að kosið verði í haust, og Haraldur Benediktsson sömuleiðis. Jón Gunnarsson segist einfaldlega styðja niðurstöðu forystumanna ríkisstjórnarinnar.
„,Ég er fylgjandi því að ganga til kosninga í haust. Ég tel að mínum flokki verði vel tekið í þeim kosningum,“ segir Elín Hirst um málið. Vilhjálmur Árnason segir að að sjálfsögðu eigi að kjósa í haust, enda hafi þingstörf gengið vel undanfarið. „Réttkjörin stjórnvöld eiga að sitja út sitt kjörtímabil en miðað við þær aðstæður sem voru uppi tel ég að forustumenn stjórnarflokkanna hafi tekið hárrétta ákvörðun með því að boða til kosninga í haust og við þá ákvörðun á að standa.“
Brynjar Níelsson taldi á sínum tíma að það væri ekki nauðsynlegt að flýta kosningum. Það hafi þó verið niðurstaðan og hann eigi ekki von á öðru en að við það verði staðið. Sigríður Andersen segir að það verði að vera mjög sérstakar ástæður til að rjúfa þing áður en umboð þeirra samkvæmt stjórnarskránni renni út. „Það er umhugsunarefni hvort að slíkar aðstæður hafi verið fyrir hendi þegar hugmynd um kosningar í haust var fyrst nefnd.“
Ásmundur Friðriksson segist hafa viljað klára sína vakt til fjögurra ára og að það hafi verið ástæðulaust að boða til þingkosninga í haust.