Fjölmiðlafyrirtækið 365 miðlar hagnaðist um 22 milljónir króna á árinu 2015. Það er töluverður viðsnúningur eftir 1,4 milljarða króna tap á árinu 2014. Ef skattaskuld, sem fyrirtækið greiddi í fyrra hefði verið færð í rekstrareikning í fyrra, hefði 365 tapað um 350 milljónum króna. Þess í stað var hin greidda skattaskuld færð sem krafa, þar sem stjórnendur 365 viðurkenna ekki niðurstöðu skattayfirvalda og ætla með málið fyrir dómstóla.
Rekstrarhagnaður samsteypunnar fyrir fjármagnskostnað, afskriftir og skatta (EBITDA) var 955 milljónir króna en hann var neikvæður um 427 milljónir króna árið áður. Því er um umtalsverðan viðsnúning að ræða þar. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi 365 miðla fyrir árið 2015.
Uppistaðan í jákvæðri niðurstöðu í rekstri fyrirtækisins er vegna þess að seld þjónusta og aðrar tekjur hækkuðu um rúman einn milljarð króna á milli ára í 11,2 milljarða króna. Ekki er sundurliðað í ársreikningi 365 miðla hvaðan þessar tekjur koma.
Skuldir orðnar tíu milljarðar króna
Þar kemur hins vegar fram að 320 milljónir króna hafi verið greiddar inn sem nýtt hlutafé, líkt og Kjarninn greindi frá fyrir skemmstu. Árið áður var greitt inn 445 milljónir króna í nýtt hlutafé og því hafa hluthafar samtals sett inn 765 milljónir króna á tveimur árum.
Til viðbótar hafa skuldir 365 miðla vaxið nokkuð hratt og eru nú alls um tíu milljarðar króna. Þær hækkuðu um rúman milljarð króna í fyrra. Þar munar mest um endurfjármögnun á langtímalánum fyrirtækisins í fyrrahaust, þegar það færði sig úr viðskiptum hjá Landsbankanum og yfir til Arion banka. Við þá breytingu jukust langtímaskuldir 365 miðla úr 3,6 milljörðum króna í 4,8 milljarða króna. Í ársreikningnum segir að þessi breyting hafi leitt til lækkunar á endurgreiðslubyrði fyrirtækisins á næstu árum, sem þýðir að lengt hafi verið umtalsvert í lánum þess. Allar eignir 365 miðla eru veðsettar sem trygging fyrir endurgreiðslu lána fyrirtækisins hjá Arion banka. Vaxtagjöld lækkuðu við þetta úr 568 milljónum króna í 541 milljón króna.
Greiddi skattaskuld en gjaldfærði hana ekki
Auk þess greiddi fyrirtækið 372 milljón króna skattaskuld sem er tilkomin vegna öfugs samruna þegar félagið Rauðsól, þá í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, keypti fjölmiðla 365 út úr gamla 365 í nóvember 2008 á 1,5 milljarð króna og með yfirtöku á hluta af skuldum félagsins. Gamla 365 ehf., sem var endurnefnt Íslensk afþreying ehf., fór í þrot og kröfuhafar þess töpuðu 3,7 milljörðum króna.
Þrátt fyrir að þessu skuld hafi verið greidd - en bæði Ríkisskattstjóri og Yfirskattanefnd hafa úrskurðað um hana- þá ætlar 365 ekki að una niðurstöðunni og undirbýr dómsmál á hendur íslenska ríkinu vegna hennar. Þess vegna er upphæðin færð sem krafa í efnahagsreikningi 365 líkt og hún muni fást endurgreidd. Í ársreikningnum segir: „Ef niðurstaða dómstóla verður í samræmi við úrskurð Yfirskattanefndar mun það hafa marktæk áhrif á eiginfjárstöðu“.
Þá kemur fram að samstæða 365 hafi gert samninga um kaup á dagskrárefni fyrir 3,1 milljarð króna sem séu „til afhendinga við sýningu“. Þarna er meðal annars um að ræða samning um sýningu á leikjum úr enska boltanum, sem endursamið var um í lok síðasta árs. Ljóst er að þessi skulbinding er nokkuð umfangsmikil, enda hækkar liðurinn úr úr 1,7 milljarði króna á milli ára, eða um 1,4 milljarða króna.
Laun og lán til hluthafa
Þrátt fyrir að 365 miðlar skuldi háar fjárhæðir þá bókfærir félagið einnig miklar eignir. Alls eru þær 12,9 milljarðar króna, og hækka um 1,5 milljarð króna á milli ára. Uppistaðan í eignum félagsins eru óefnislegar eignir, að mestu viðskiptavild, upp á 6,6 milljarðar króna. Auk þess er liður sem nefnist „dagskrárbirgðir“ metinn á rúma tvo milljarða króna og handbært fé, sem eru óbundnar bankainnstæður, var 651 milljónir króna í lok síðasta árs. Handbært fé var 32 milljónir króna í lok árs 2014.
Þá á fyrirtækið skattainneign upp á 703 milljónir króna. Hún er tilkomin vegna sameiningar 365 og IP-fjarskipta, áður móðurfélags Tals, á árinu 2013. Í ársreikningi stendur að „hvorki samstæðan né félagið mun greiða tekjuskatt á árinu 2016 vegna yfirfæranlegra skattalegra tapa frá fyrri árum“. Alls nemur yfirfæranlegt skattalegt tap 365 3,8 milljörðum króna.
Stöðugildum hjá 365 fækkaði úr 391 í 364 á árinu 2015. Alls greiddi fyrirtækið um þrjá milljarða króna í laun og launatengd gjöld, sem er um 100 milljónum krónum minna en árið áður. Laun og aðrar greiðslur til stjórnar og æðstu stjórnenda voru samtals 223 milljónir króna auk þess sem 365 greiddi 89 milljónir króna vegna launa, verktakagreiðslna og ráðgjafalauna til tveggja hluthafa og aðila tengdum þeim. Athygli vekur einnig að kröfur 365 á tengda aðila fara úr sex milljónum króna í 107 milljónir króna á milli ára. Ekki er tilgreint um hvaða hluthafa er að ræða.
Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir og félög á hennar vegum eru langstærsti eigandi 365, með 74,27 prósent hlut. Eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson, starfar sem ráðgjafi hjá fyrirtækinu og kemur umtalsvert að stjórnun þess, en hann var áður aðaleigandi 365. Auk hennar eiga fjárfestingasjóðurinn Auður 1 (15,8 prósent) og félagið Grandier S.A., sem skráð er í Lúxemborg en sagt í eigu Sigurðar Bollasonar (9,52 prósent) stóra eignarhluti í félaginu.