Nýtt námslánakerfi fjármagnað að mestu með vöxtum og á að auka skatttekjur

Samkvæmt nýju frumvarpi fá íslenskir námsmenn í fyrsta sinn beina styrki sem dreifast jafnt á alla. Á móti verða settar hömlur á lántöku og vextir hækkaðir. Tilgangurinn er að ná fram milljarðaaukningu á þjóðarframleiðslu.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti frumvarpið fyrir helgi.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti frumvarpið fyrir helgi.
Auglýsing

Nýtt námslána/námsstyrkjakerfi var kynnt fyrir helgi og búið er að afgreiða frumvarp vegna þess úr ríkisstjórn og þingflokkum beggja stjórnarflokka. Um er að ræða algjöra byltingu á aðkomu ríkisins að fjármögnun nemenda á meðan að á lánshæfu námi stendur. Tekið verður upp styrkjakerfi, lánshæfistími styttur og full framfærsla verður í boði. Á móti verða vextir námslána hækkaðir, alls kyns þök sett á námslána- og námsstyrkjatöku og eldra fólk og doktorsnemar munu ekki lengur fá styrki eða lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN).

Ljóst er að breytingarnar verða umdeildar. Það sést strax á þeim umræðum sem orðið hafa um málið í kjölfar þess að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti það fyrir helgi.

Illugi er raunar ekki óvanur því að áherslur hans í þeim viðkvæma málaflokki sem menntamál eru séu umdeildar. Flestar eiga tillögur hans þar það sameiginlegt að stefna að auknum þjóðhagslegum ávinningi fyrir samfélagið. Og LÍN-breytingarnar eru einn liður í mun stærri áformum hans til að ná slíkum. Aðrar mikilvægar breytur í þeirri vegferð eru t.d. rafræn samræmd próf, sem þreytt verða frá og með næsta hausti, sem gera góðum nemendum kleift að fara beint úr níunda bekk inn í framhaldsskóla, kjósi þeir svo. Þá hefur framhaldsskólanámið verið stytt niður í þrjú ár í nær öllum framhaldsskólum landsins í stjórnartíð Illuga og nú á breytingin á LÍN að búa til sterka fjárhagslega hvata til að klára háskólanám sem fyrst.

Auglýsing

Niðurstaðan á að verða sú, ef áætlun Illuga gengur upp, að íslenska menntakerfið skili háskólamenntuðu fólki inn á vinnumarkaðinn mun yngra en nú er. Í nýja kerfinu er enda möguleiki á því að fara í framhaldsskóla 15 ára, í háskóla 18 ára og útskrifast þaðan með BA eða BS-gráðu 20-21 árs.

Samkvæmt útreikningum mennta- og menningamálaráðherra eiga þessar kerfisbreytingar að skila aukinni þjóðarframleiðslu upp á 23 milljarða króna árlega. Stytting framhaldsskólanáms á að skila 15,5 milljörðum króna og blandað námsstyrkjakerfi 7,5 milljörðum króna.Sú auknign á þjóðarframleiðslu á síðan að skila um níu milljörðum krónum árlega í hærri skatttekjum.

Í þessum útreikningum er reyndar gert ráð fyrir að allir þeir sem skila sér út á vinnumarkaðinn fyrr muni fá meðallaun. Ekki liggur fyrir að svo verði, og í raun er það ólíklegt sem stendur. Nær öll ný störf sem verða til á Íslandi í dag eru enda láglaunastörf í ferðaþjónustu eða tengdum greinum. Fólkið sem sinnir þeim störfum er að miklu leyti flutt inn, enda ekki um störfin sem íslenska menntakerfið er að mennta Íslendinga til að sinna að ræða.

Beinir styrkir fyrir alla í stað óbeinna styrkja fyrir suma

Frumvarp til laga um námslán og og námsstyrki var birt á vef Alþingis í gær. Stærstu breytingarnar sem samþykkt þess mun hafa í för með sér eru þær að tekið verður upp styrkjakerfi. Samkvæmt því munu allir í háskólanámi eða sem stunda iðn- og verknám, geta fengið 65 þúsund krónur greiddar í styrk á mánuði níu mánuði ársins fyrir að vera í skóla. Styrkurinn er ekki tekjutengdur og því geta þeir sem hann þiggja unnið með skóla án þess að það skerði greiðslu á styrknum.

Háskólanemar sem eru í námi fagna ugglaust margir hverjir því að fá beina styrki á meðan að á námi þeirra stendur. Ekki er víst að fögnuðurinn verði jafn mikill hjá þeim sem þurfa einnig að taka umtalsverð lán, til dæmis vegna framfærslu fjölskyldu, og greiða þau til baka án tekjutengingar að námi loknu.Til að fá styrkinn þarf að sýna 73 prósent námsframvindu. Þ.e. það þarf að ná 73 prósent þeirra eininga sem teljast til fulls náms á hverri önn til að fá hann greiddan.  Hægt er að fá styrkinn greiddan í 45 mánuði, eða í gegnum fimm skólaár. Ef nemandi lýkur BA- eða BS-gráðu og tekur síðan tvö ár í mastersnám þá á hann rétt á styrknum allan þann tíma. Sú greiðsla sem íslenskra ríkið greiðir viðkomandi í styrk, nýti hann sér styrkinn allan þann tíma sem hann má, verður þá rétt tæplega þrjár milljónir króna.

Í kynningu sinni á málinu hefur Illugi Gunnarsson ítrekað sagt að það sé réttlætismál að jafna þær upphæðir sem greiddar eru út sem styrkir úr námsfjármögnunarkerfinu. Það kann að hljóma skökk fullyrðing í eyrum sumra, enda beinir styrkir ekki verið hluti af því kerfi hingað til.

Það hefur hins vegar verið þannig að fólk hefur getað komið sér í gríðarlegar námslánaskuldir sem aldrei fást greiddar, einfaldlega vegna þess að fólki endist ekki ævin til að greiða þær tilbaka. Eins og staðan er í dag fá um 20 prósent lánþega um 75 prósent „ríkisstyrkja“. Þannig fengu t.d. þeir sem tóku 20 hæstu lánin hjá LÍN alls 661 milljón krónur lánaðar. Áætlanir LÍN gera ráð fyrir að þeir muni ná að greiða til baka 81 milljón króna. Það þýðir að „styrkur“ til þessa 20 manna hóps er upp á 580 milljónir króna.

Hærri vextir borga að mestu fyrir styrki

Frumvarp Illuga á að koma í veg fyrir að svona mikil lánssöfnun á niðurgreiddum vöxtum sé möguleg. Þótt áfram verði lánað, og nú upp að fullri framfærslu (188 þúsund krónur á mánuði) í stað 90 prósent áður, þá verður í mesta lagi hægt að fá lánað í sjö ár og ekki meira en 15 milljónir króna.  Óljóst er hversu mikið áhrif þetta mun hafa.

Í kynningum mennta- og menningamálaráðuneytisins segir að 99 prósent þeirra sem séu með námslán taki undir 18 milljónum króna í lán. Því hefðu 0,5 prósent námslánataka, auk þeirra sem eru með heildarlán upp á 15-18 milljónir króna, lent í vandræðum ef nýja kerfið væri við lýði. Þeir hefðu þá þurft að sækja sín viðbótarlán á einkamarkað, til dæmis til Framtíðarinnar, námslánasjóðs sem rekinn er af sjóðsstýringarfyrirtækinu GAMMA og lánar nemum allt að þrettán milljónir króna á 8,25 prósent verðtryggðum vöxtum eða 11,25 prósent óverðtryggðum vöxtum.

Vextir á verðtryggðum lánum sem LÍN veitir verða hins vegar þrjú prósent. Þótt vissulega sé um betri kjör að ræða en bjóðast á einkamarkaði þá munu vextirnir hækka umtalsvert frá því sem nú er. Raunar munu þeir þrefaldast. Auk þess verða settar ýmsar skorður gagnvart lántöku hjá LÍN sem ekki eru til staðar í dag. Hámarksárafjöldi sem lán eru veitt verður styttur niður í sjö ár. Námsaðstoð mun skerðast eftir 50 ára aldur og verður ekki veitt eftir 60 ára aldur. Endurgreiðslur lána munu hefjast einu ári eftir námslok í stað tveggja eins og nú er. Eina undantekningin frá þessu verður heimild til að fresta helmingi hvers gjalddaga námslána vegna kaupa á fyrsta íbúðarhúsnæði í allt að 60 mánuði. Endurgreiðslu allra námslána á síðan að vera lokið fyrir 67 ára aldur. Þá verður tekjutenging afborganna felld út. Þessar breytingar eiga að tryggja betri heimtir námslána.

Slíkt mun enda verða nauðsynlegt ef styrkjakerfið á að ganga upp. Samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu verður viðbótarkostnaður ríkisins vegna þess umfangsmikla styrkjakerfis sem nú er verið að taka upp einungis vera um einn milljarður króna á ári. Sú upphæð getur hækkað eða lækkað ef eftirspurn eftir styrkjum verður meiri eða minni en áætlanir gera ráð fyrir. Afgangurinn af kostnaðinum til að reka kerfið kemur frá skerðingum á námslánum sem fást ekki greidd og með því að rukka þrefalt hærri vexti en gert er í dag.

Frumvarpið gagnrýnt

Þótt frumvarpinu hafi almennt verið fagnað, sérstaklega þeirri breytingu að koma á föstum styrktargreiðslum til þeirra sem stunda háskólanám, þá hefur það einnig verið gagnrýnt.

Sú gagnrýni hefur sérstaklega snúið að tvennu: annars vegar afnámi tekjutengingar á endurgreiðslum og hins vegar vegna þess að nýja kerfið mun gera t.d. doktorsnemum og öðrum sem af einhverjum ástæðum taka lengri tíma en sjö ár í háskólanám nær ókleift að fá námslán síðustu námsárin.

Afnám tekjutengingar gerir það að verkum að allir þurfa að borga það sama til baka af lánunum óháð tekjum sínum. Endurgreiðslurnar ákvarðast af höfuðstól láns, lánstíma og vöxtum, líkt og á venjulegum bankalánum. Það þýðir að tekjulágir einstaklingar, t.d. sem mennta sig til starfa sem eru ólíklegri til að skila háum tekjum, þurfa að greiða mun hærri greiðslur á ári en þeir hafa gert hingað til. Á sama tíma hefur lánstími verið styttur frá því sem nú er. Hið félagslega hlutverk LÍN verður því minnkað með breytingunum.

Á meðal þeirra sem þetta hafa gagnrýnt er  Agnar Freyr Helgason,hagfræðingur og doktor í stjórnmálafræði. Agnar sat einnig um tíma sem fulltrúi stúdentaráðs Háskóla Íslands í stjórn LÍN.

Hann segir á Facebook-síðu sinni að breytingarnar leggist ákaflega illa í hann. „Þær munu vissulega koma ákveðnum hópum vel og þá sérstaklega námsfólki sem hefur enga þörf fyrir námslán (það mun nú fá mánaðarlegan styrk í stað þess að fá ekkert áður). Á móti kemur að breytingarnar muna auka greiðslubyrði ákveðinna hópa umtalsvert, m.a. þeirra sem eru fyrir í viðkvæmri stöðu. Þannig geta einstaklingar sem taka mikil námslán (t.d. vegna framfærslu barna), eru tekjulágir að námi loknu eða hefja námsferilinn seint á ævinni búist við því að bera skarðan hlut frá borði.


Þingmenn hafa einnig gagnrýnt frumvarpið. Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar, sagði framsetningu þess vera sykurhúðaða og að mörgum spurningum væri ósvarað. Þá sagði Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, við RÚV að breytingarnar myndu draga úr jöfnuði til náms. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, telur útilokað að frumvarpið verði afgreitt fyrir þinghlé, sem fyrirhugað er á næstu dögum. 

Því er enn nokkuð í land að mikla breyting á námsfjármögnun Íslendinga sem Illugi Gunnarsson hefur lagt fram verði að veruleika. Og óljóst hvort samstaða náist um það fyrir kosningar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í dómsal í dag.
„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
Það er mat ákæruvaldsins að Marek sé ekki að segja nákvæmlega allt sem hann muni frá deginum sem bruninn á Bræðraborgarstíg varð. Verjandi fer fram á að ef hann verði fundinn sekur og ósakhæfur verði hann ekki dæmdur til öryggisgæslu.
Kjarninn 5. maí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir ljóst að spennandi tímar séu framundan, vegna fyrirhugaðrar sölu ríkisins á hluta af hlut sínum í Íslandsbanka.
Íslandsbanki hagnaðist um 3,6 milljarða á fyrsta ársfjórðungi
Eigið fé Íslandsbanka nam 185 milljörðum króna í lok mars. Bankastjórinn segir spennandi tíma framundan, í ljósi þess að stefnt sé að skráningu bankans á verðbréfamarkað að undangengnu útboði á hluta af hlut ríkisins í honum.
Kjarninn 5. maí 2021
Höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúninu
Arion hagnast um 6 milljarða á þremur mánuðum
Þrátt fyrir lága vexti og efnahagssamdrátt var hagnaður Arion banka á fyrsta fjórðungi þessa árs mun meiri en á sama tímabili í fyrra.
Kjarninn 5. maí 2021
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
„Þeirra er ævintýralega ósanngjarna lýðræðið sem við búum við“
Björn Leví segir að skipting sæta milli þingflokka sé mjög ójöfn. Auðveldasta lausnin til að leysa vandamálið sé að fjölga jöfnunarsætum – það sé ekki flókið né ósanngjarnt.
Kjarninn 5. maí 2021
Samkvæmt því sem segir í nafnlausum skoðanadálki Morgunblaðsins í dag „gæti orðið bið á því“ að blaðið sendi fulltrúa sinn á fund félaga í BÍ til þess að ræða umdeilda skoðanaauglýsingu Samherja sem beindist gegn fréttamanninum Helga Seljan.
Morgunblaðsmenn ekki spenntir fyrir því að ræða auglýsingu Samherja við félagsmenn BÍ
Í ritstjórnardálki í Morgunblaðinu segir að það „gæti orðið bið á því“ að yfirmenn blaðsins þekkist boð um að mæta á fund félaga í Blaðamannafélaginu til að ræða siðferðileg álitaefni í tengslum við birtingu umdeildrar auglýsingar frá Samherja á mbl.is.
Kjarninn 5. maí 2021
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Umræða um málefni innflytjenda gengur fram af þingmanni – Skömm að tala málið niður
Þingmaður Vinstri grænni segir að Íslendingar eigi að sýna þann þroska að geta sinnt útlendingamálum með almennilegum hætti og gera það sem best – „við sem rík þjóð“. Umræða Miðflokksmanna hafi gengið fram af henni í gær.
Kjarninn 5. maí 2021
Þriðjungur fyrstu ferðagjafarinnar fór til tíu fyrirtækja
Nú stendur til að endurnýja ferðagjöf stjórnvalda til að örva eftirspurn innanlands. Rúmur helmingur þeirra sem áttu rétt fyrstu ferðagjöfinni hafa nýtt hana. Á meðal þeirra sem fengu mest í sinn hlut voru eldsneytissalar og skyndibitakeðjur.
Kjarninn 5. maí 2021
Hluti þingliðs Miðflokksins á björtum og fallegum sumardegi fyrr á kjörtímabilinu.
Stillt upp á lista hjá Miðflokknum í öllum kjördæmum
Fimm manna uppstillingarnefndir munu setja saman framboðslista Miðflokksins í öllum kjördæmum landsins fyrir komandi kosningar, en ekki kosið í sæti á lista á félagsfundum. Fylgi flokksins hefur verið í nokkurri lægð að undanförnu.
Kjarninn 5. maí 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None