Áhrifafólk í Samfylkingunni virðist skiptast nokkuð jafnt á milli Magnúsar Orra Schram og Oddnýjar G. Harðardóttur í formannskjörinu sem nú stendur yfir. Enginn þingmaður eða borgarfulltrúi hefur lýst yfir formlegum stuðningi við Helga Hjörvar eða Guðmund Ara Sigurjónsson.
Árni Páll Árnason, fráfarandi formaður Samfylkingarinnar, ætlar ekki að taka afstöðu til stakra frambjóðenda.
„Það er offramboð í íslenskum stjórnmálum af fyrrverandi formönnum sem þvælast fyrir eftirmönnum sínum. Flokksfólk á að taka sína afstöðu án afskipta frá mér,” segir Árni Páll við Kjarnann.
Magnús með Össur og Oddný með Jóhönnu
Meðal þeirra sem hafa lýst yfir stuðningi við framboð Magnúsar Orra eru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og fyrrverandi varaformaður flokksins, Katrín Júlíusdóttir, fráfarandi varaformaður, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður og ráðherra flokksins, Valgerður Bjarnadóttir þingkona, og Vilhjálmur Þorsteinsson, fyrrverandi gjaldkeri flokksins.
Meðal stuðningsmanna Oddnýjar eru Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður og forsætisráðherra flokksins, þingkonurnar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi og Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi ráðherra og framkvæmdastýra flokksins.
Áhrifakonur gagnrýna framboð harðlega
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður og ráðherra Samfylkingarinnar, hefur gagnrýnt formannsframboðin, þar sem hún sagði að „forystumaður Samfylkingarinnar í Landsdómsmálinu hefur stigið fram og telur sig vel til forystu fallinn.” Þar vísar hún í að Magnús Orri og Oddný greiddu atkvæði um að draga hana ásamt fleiri ráðherrum fyrir Landsdóm.
Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi talsmaður flokksins þegar hann var stofnaður, sagði við RÚV á dögunum að formannsframbjóðendurnir væru ekki ferskir og ekki það sem þurfi til að ná Samfylkingunni upp úr þeirri djúpu kreppu sem hún er í.
Formannskjörið hófst á hádegi laugardaginn síðastliðinn með rafrænni kosningu og verður tilkynnt um nýjan formann klukkan 18 næstkomandi föstudag, 3. júní. Landsfundur hefst á hádegi þann dag og stendur í tvo daga. Á kjörskrá eru um 17 þúsund manns.