Mikill skortur er á boðlegum almenningssalernum um allt land, og ekki er útlit fyrir að það breytist mikið í sumar. Stjórnstöð ferðamála ætlaði upphaflega að vera tilbúin með tillögur um forgangsröðun staða þar sem nauðsynlegt þykir að fjölga salernum fyrir ferðamenn í apríl síðastliðnum. Nú er stefnt að því að ljúka því verkefni í júní, en ljóst er að lítið mun gerast til viðbótar í salernismálum fyrir ferðamenn í sumar þar sem það tekur langan tíma að koma upp viðunandi aðstöðu, jafnvel þó hún eigi bara að vera til bráðabirgða.
Stjórnstöð ferðamála hóf vinnu tengda salernismálum í febrúar síðastliðnum. Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, sagði frá því í skýrslu um ferðamál sem hún lagði fyrir Alþingi í apríl síðastliðnum að síðar í þeim mánuði væru áætluð verklok. Af því varð hins vegar ekki.
Hluti af þessu verkefni er skýrsla sem verkfræðistofan EFLA gerði fyrir Stjórnstöð ferðamála um stöðu og uppbyggingu salernismála á ferðamannastöðum á Íslandi. Sú skýrsla var kynnt fyrir nokkrum dögum og er fyrsta áfangaskýrsla af þremur sem birtar verða um þessi mál.
Slæmt ástand víðast hvar
EFLA gerði úttekt á 66 vinsælum ferðamannastöðum um allt land, sem allir eru annað hvort innan þjóðgarðs, fólkvangs, friðlands, friðlýst náttúruvætti eða friðlýstar náttúruminjar. „Því er mikilvægt að byggja upp aðstöðu á þessum stöðum sem tekið getur á móti þeim fjölda ferðamanna sem staðina sækja og er viðunandi salernisaðstaða nauðsynlegur hluti þeirrar uppbyggingar,“ segir EFLA í skýrslu sinni.
„Við marga af helstu ferðamannastöðum landsins er salernisaðstaða mjög fátækleg og sumstaðar hreinlega ekki til staðar,“ segir ennfremur í samantekt EFLU. „Þar sem hún er til staðar er hún oft á höndum einkaaðila sem bjóða upp á salerni fyrir sína viðskiptavini, t.d. bensínstöðvar, matsölustaðir og minjagripabúðir.“ Allir sem rætt var við fyrir skýrsluna voru sammála um að mikill skortur sé um allt land á boðlegum almenningssalernum, sem séu undir eftirliti þjónustuaðila og opin eru allan sólarhringinn alla daga ársins.
Bráðabirgðasalerni slegin út af borðinu
Í skýrslunni sem EFLA gerði fyrir Stjórnstöð ferðamála kemur fram að kannað hafi verið hvort fýsilegt væri að koma upp bráðabirgðasalernum frá og með sumrinu í sumar til þess að takast á við ástandið þar sem það er hvað verst. Haft var samráð við Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, skipulagsfulltrúa, Ferðamálastofu og fleiri en niðurstaðan var sú að það væri ekki fýsilegt að koma upp bráðabirgðasalernum þar sem þörfin er mest.
Margar ástæður voru nefndar fyrir því að fara ekki í gerð bráðabirgðasalerna. Segja má að margar þeirra eigi það sameiginlegt að einfaldlega hafi ekki verið ráðist í verkefnið nógu snemma. Það þurfi framkvæmdaleyfi til að setja niður rotþrær og ekki sé tími til að sækja um öll leyfi fyrir sumarið. Sömu sögu er að segja af sjálfum klósettunum, því bestu bráðabirgðaklósettin eru með fjögurra mánaða afhendingartíma og væru því aldrei tilbúin fyrr en eftir sumarið.
Þá ríkir óvissa um reksturinn á salernunum auk þess sem deilur við landeigendur koma sums staðar í veg fyrir alla uppbyggingu. Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Ferðamálastofa settu sig líka öll upp á móti bráðabirgðalausnum vegna þess að þær töldu hættu á að slíkar lausnir myndu hægja á eða stöðva uppbyggingu á varanlegum lausnum.
Hundruðum milljóna úthlutað í salernismál
Af þessum 66 stöðum sem skoðaðir voru þóttu aðeins 19 þeirra vera í lagi. Allir aðrir staðir voru ýmist við þolmörk, aðstöðu ábótavant eða ástandið talið slæmt. Níu staðir komu verst út allra, þar sem talið er nauðsynlegt að ráðast í úrbætur á klósettmálum. Það eru Jökulsárlón, Goðafoss, Dettifoss, Seljalandsfoss, Grábrók, Látrabjarg, Hjálparfoss, Dyrhóley og Kerið.
Við Hjálparfoss og Dyrhólaey verður bætt úr í sumar með styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Í Dyrhólaey á að koma upp aðstöðu í sumar. Við Seljalandsfoss sótti sveitarfélagið þar um styrk í sama sjóð til að geta stækkað salernisaðstöðu, en fékk ekki styrk til þess.
Búið er að úthluta um 300 milljónum króna í úrbætur í salernismálum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða á þessu ári og síðasta.