Í kosningakerfi Pírata liggur nú fyrir tíu liða stefna sem ætlar er að auka tekjur ríkissjóðs um allt að 100 milljarða króna á ári og tekjur sveitafélaga um 10-15 milljarða króna á ári. Tilgangurinn er sagður vera að liðka fyrir uppbyggingu velferðar, sérstaklega heilbrigðis- og menntakerfi, á Íslandi með hagræðingu og tilfærslu fjármuna í ríkisrekstri, skattlagningu fjármagnseigenda, stóriðju og kvótaeigenda sem og útskiptingu íslensku krónunnar sem gjaldmiðils. Á meðal þess sem lagt er til er að hækka fjármagnstekjuskatt, bjóða upp aflaheimildir og láta stóriðju borga fullan tekjuskatt.
Í stefnunni er auk þess lagt til að Íslandsbanki verði seldur erlendum banka og „söluandvirðið notað til að fjármagna lífeyriskerfi opinberra starfsmanna sem er í raun gjaldþrota“. Í greinargerð sem fylgir með stefnunni segir að hallinn á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) og lífeyrissjóðum sveitarfélaga sé í heild tæpir 600 milljarðar króna, og er vísað í fjárlög ársins 2016 því til stuðnings.
Stefnan hefur verið lögð fram í kosningakerfi Pírata og stendur kosning um hvern lið hennar nú yfir. Hún byggir m.a. á þegar samþykktri sjávarútvegsstefnu og stefnu um bann við þunnri fjármögnun. Kosningu lýkur eftir tvo daga og þá liggur fyrir hverjir liðanna tíu verða hluti af grunnstefnu Pírata í aðdraganda næstu kosninga.
Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar mælast Píratar með 27,7 prósent fylgi. Það er nánast sama fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn mælist með. Þessir tveir flokkar væru þeir einu sem gætu myndað tveggja flokka meirihlutastjórn að loknum kosningum í haust miðað við fylgisstöðu flokka í dag. Samandregið þá eru miklar líkur á því að Píratar verði í lykilstöðu við stjórnarmyndun eftir nokkra mánuði.
Skattahækkanir bornar af „breiðustu bökum þjóðfélagsins"
Ragnar Hannes Guðmundsson, stjórnsýslufræðingur og cand oecon viðskfræðingur, og Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri hýsingarfyrirtækisins 1984, eru höfundar tillagnanna. Ragnar bendir á að til þess að bæta útgjöld til heilbrigðismála í samræmi við innihald undirskriftasöfnunar sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar stóð fyrir og 85 þúsund manns skrifuðu undir, þurfi þau útgjöld að verða ellefu prósent af vergri landsframleiðslu. Þau þurfi því að hækka um 60 milljarða króna á ári. Tillögur þeirra miði að því að tekjur hins opinbera vaxi um 100 milljarða króna á ári, og því sé umtalsvert eftir til að nýta til annarrar uppbyggingar í velferðarkerfinu. Auk þess miða tilögurnar við að tekjur sveitafélaga, sem mörg hver glíma nú við umtalsverðan rekstrarvanda, hækki um 10-15 milljarða króna á ári.
Tillögurnar eru róttækar og ljóst að þær munu ekki falla öllum í geð. Í þeim er t.d. lagt til að fjármagnstekjur verði hækkaður úr 20 prósentum í 30 prósent. Það muni skila ríkissjóði 15 milljörðum króna í viðbótartekjur. Í greinargerð sem fylgir þeirri tillögu segir að 10-11 prósent ríkustu Íslendingarnir eigi 70-75 prósent af eignum landsmanna og „þannig að ætla má að nær öll hækkunin yrði borin af breiðustu bökum þjóðfélagsins“. Gert er ráð fyrir því að frítekjumark verði hækkað til að hlífa smærri fjármagnseigendum í þessari aðgerð. Ragnar og Mörður rökstyðja þessa með því að benda á að fjármagnstekjuskattur sé tiltölulega lágur á Íslandi miðað við nágrannalönd okkar, þar sem 30 prósent sé algengt skattflutfall.
Í tillögum þeirra er einnig gert ráð fyrir að aflaheimildir verði boðnar upp í samræmi við sjávarútvegsstefnu Pírata. Gert er ráð fyrir að þriðjungur uppboðstekna renni til sveitarfélaga i gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga eða sambærilegan sjóð. Árlegar viðbótatekjur ríkissjóðs af þessari aðgerð eiga að vera 20 milljarðar króna á ári en sveitarfélaga um tíu milljarðar króna.
Stóriðja borgi meiri skatta og brjóta upp fákeppni í sölu lyfja
Þá er lagt til að stóriðja og stærri fyrirtæki verði látin borga fullan tekjuskatt í samræmi við þegar samþykkta stefnu Pírata um þunna fjármögnun. Árlegar viðbótatekjur ríkissjóðs af þessari aðgerð eru um fjórir milljarðar króna. Auk þess gera tillögurnar ráð fyrir að gistináttagjald verði hækkað svo að meðatalsupphæð þess verði 400 krónur á gistinótt. Það renni óskert til þess sveitarfélags þar sem gist er og er áætlað að þetta skili þremur milljörðum króna á ári.
Í tillögunum er einnig að finna stefnu um að brjóta upp fákeppni í sölu lyfja með það að markmiði að lækka lyfjaverð. Þessi stefna er í samræmi við tilmæli Ríkisendurskoðunar um að bæta aðgengi Íslendinga að stærri lyfjamörkuðum til að draga úr lyfjakostnaði. Áætlað er að ríkissjóður geti sparað um tvo milljarða króna með þessari leið.
Landsbankinn ríkisbanki en Íslandsbanki seldur
Píratar eru líka að móta sér stefnu um hvað eigi að gera við bankana sem ríkið á að öllu leyti í dag, Landsbankann og Íslandsbanka. Í tillögunum segir að Landsbankinn skuli vera áfram í eigu íslenska ríkisins og að hann greiði sjö til tíu milljarða króna árlega í arð til ríkissjóðs af starfsemi sinni. Þá eigi að sameina Íbúðalánasjóð (ÍLS) og Landsbankann sem geri það að verkum að „fjáraustur ríkissjóðs til ÍLS hætti“.
Ein merkilegasta, og líkast til umdeildasta, tillagan sem lögð er fram snýr að því að selja eigi Íslandsbanka að öllu leyti til erlends banka og að söluandvirðið verði notað til að fjármagna lífeyriskerfi opinberra starfsmanna sem sé í raun gjaldþrota. Í greinargerð sem fylgir tillögunni segir: „Með sölu Íslandsbanka er tekist á við hinn gríðarlega halla á lífeyriskerfi LSR og mögulega sveitarfélaga en sú tala er í heild tæpir 600 milljarðar. Skynsamlegt væri að fjárfesta fjármuni LSR alla erlendis sem og að selja Íslandsbanka erlendum banka. Þetta eykur áhættudreifingu LSR og Íslands, dregur úr ofhitnun í litlu hagkerfi og eykur samkeppni á bankamarkaði.“
Áætlaður sparnaður með því að láta vænt söluandvirði Íslandsbanka renna óskipt í að greiða upp ófjármagnaðar lífeyrissjóðsskuldir er sagður vera um 20 milljarðar króna á ári.
Þetta er þó ekki eina tillagan sem snýr að lífeyrissjóðakerfi landsmanna. Einnig er lagt til að kerfið verði lýðræðisvætt og að sjóðsfélagar kjósi alla stjórnarmeðlimi í lýðræðislegum kosningum. Í greinargerð segir að í lífeyrissjóðum landsmanna liggi einhver mestu völd í íslensku samfélagi. „Þeim er stjórnað á ólýðræðislegan hátt af örfáum einstaklingum sem skipaðir eru af atvinnurekendum og forsvarmönnum stéttarfélaga[…]Píratar vilja því að stjórnir lífeyrissjóða verði alfarið skipaðar lýðræðislegan hátt af sjóðsfélögum sjálfum. Hver sjóðsfélagi skuli hafa jafnan framboðs og atkvæðisrétt til stjórnar síns sjóðs og á það bæði við greiðendur og lífeyrisþega og án tillits til stéttarfélagsaðildar. Þar með er kollvarpað kerfi þar sem launagreiðendur og forsvarsmenn stéttarfélaga gangi að þessum sætum vísum og eigendur fjárins annast eftir það vörslu þess og ávöxtun.”
Annar gjaldmiðill spari 30-40 milljarða á ári
Að lokum er lagt til að tekin verði upp alþjóðlegur, gjaldgengur gjaldmiðill á Íslandi til að auka hagsæld og samkeppnishæfni landsins, ná fram almennri vaxtalækkun fyrir alla landsmenn og ríkissjóð. Þá verði verðtrygging t.d. ekki lengur umræðuefni, enda henni sjálfhætt með upptöku annars gjaldmiðils.
Þótt að Seðlabanki Íslands hafi komist að þeirri niðurtstöðu að skynsamlegast væri fyrir Íslendinga að taka upp evru ef skipt er um mynt, þar sem þorri viðskipta Íslands er við Evrópu, þá taka Píratar ekki afstöðu til þess hvort að taka ætti upp þann gjaldmiðil. Fyrst þurfi þjóðin að tjá sig um afdrif Íslands um aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Hins vegar er ljóst að með upptöku alþjóðlega nothæfs, stöðugs gjaldmiðils væru komnar forsendur fyrir verulegri vaxtalækkun á Íslandi. Ríkissjóður, fyrirtæki og landsmenn allir spara stórfé.
Áætlaður kostnaður við að halda í krónuna er um 150-200 milljarðar á ári í hagkerfi með um 2000 milljarða verga landsframleiðslu (GDP). Það er því ávinningur sem nemur allt að 10% af vergri landsframleiðslu í því að losa íslenskt samfélag við krónuna. Það er ein mesta og mikilvægasta kjarabót sem hægt væri að veita þjóðinni á skömmum tíma.”
Að mati tillöguhöfunda myndi nýr gjaldmiðill spara ríkissjóði á bilinu 30 til 40 milljarða króna á ári í vaxtakostnað. „Alþýða landsins borgar þetta fé útlendingum og þeim tíu prósent Íslendinga sem eiga þrjá fjórðu eigna í landinu. Þetta er því án nokkurs vafa einhver einfaldasta og stærsta kjarabót fyrir alla landsmenn sem hægt er að ná fram.”