Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, vinnumarkaðsfræðingur og dósent á félagsvísindasviði Háskóla Íslands, segir greinilegt að eitthvað mikið sé að í skipulaginu á vinnumarkaðnum í ljósi þess að svo virðist sem að ekki sé hægt að gera kjarasamninga hjá ákveðnum hópum. Það sé samt sem áður bagalegt að stjórnvöld kippi ítrekað úr sambandi þeim samningsrétti launafólks sem sé stjórnarskrárvarinn og varði mannréttindasáttmálann.
„Það virðist vera í lagi hjá fjölmennum hópum eins og verslunarfólki og iðnaðarmönnum,“ segir hann. „En svo eru afmarkaðir hópar sem hafa mikil völd í samfélaginu þar sem verkfall hefur víðtæk áhrif, sem virðast ekki ná að semja, og þar er verið að beita verkfallsvopninu.“
Nauðsynlegt að endurskoða skipulagið í heild
Gylfi segir þessa hópa, sem beita verkfallsvopninu, yfirleitt ekki vera þá launalægstu.
„Það þarf að skoða skipulagið og vinnulagið í kring um þetta,” segir hann. „Eins og Hicks bendir á, eru verkföll bein afleiðing misheppnaðs kjarasamningaferils þar sem samningsmarkmið hafa ekki verið nægilega skýr og oft og tíðum ákveðið ósamræmi á milli væntinga þeirra sem koma að samningaborðinu.“
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra tók í svipaðan streng á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hann sagði greinilegt að eitthvað þurfi að endurskoða í kerfinu í ljósi þess að þessir litlu hópar, sem geta í raun sett samfélagið á hliðina með verkföllum, séu að fara fram á mun meiri launahækkanir heldur en gengur og gerist í kjarasamningum.
„Það er eitthvað að í þessu kerfi“
Gylfi bendir á í því ljósi að bæði læknafélögin hafi þurft 88 samningafndi til að ná saman.
„Það er eitthvað að í þessu kerfi, skipulagi og regluverki. Vinnulöggjöfin frá 1938 býr til rammann um hvernig á að haga þegar deilur eru á vinnumarkaði hvernig eigi að leiða þær til lykta,“ segir hann og bætir við að í tilfelli flugumferðastjóra þá voru þeir að koma úr löngum kjarasamningi, til fimm ára, en þeir hafi dregist aftur úr á þeim tíma. Sumir hópar njóti ekki launaskriðsins og að vissu leyti sé því ekki gott að vera með langa samninga.
Lög á aðgerðir flugumferðarstjóra vegna kjaradeilu þeirra sem Alþingi samþykkti á miðvikudagskvöld eru fimmtándu kjaraaðgerðalögin frá árinu 1985. Samkvæmt nýju lögunum hafa flugumferðarstjórar til 24. júní til að semja, en takist það ekki verður skipaður gerðardómur til að úrskurða um laun þeirra.
Fimmtán lög vegna verkfallsaðgerða síðan 1985
Lög á aðgerðir vegna kjaradeilna hafa verið nokkuð algeng síðustu ár. Á árunum 1985 til 2010 gripu stjórnvöld tólf sinnum inn í kjaradeilur, við lítinn fögnuð verkalýðshreyfinga. Á sama tíma voru 166 verkföll verið. Á árunum 2011 til 2016 hafa fimm lög verið sett á vegna kjaradeilna, með flugvirkjalögunum meðtöldum.
Í grein Gylfa og Friðriks Friðrikssonar lögfræðings frá árinu 2010, Lög og verkföll á Íslandi frá 1985 til 2010, er farið yfir allar lagasetningar sem stjórnvöld hafa sett á starfstéttir vegna kjaradeilna og verkfalla á tímabilinu. Gylfi vinnur nú að frekari viðbótum við greinina í ljósi aðgerða stjórnvalda undanfarin ár vegna kjaradeilna.
Flugfreyjur 1985
Félagar í Flugfreyjufélagi Íslands fóru í verkfall þann 23. október 1985, en verkallið var bannað með lögum degi síðar. Rökin voru meðal annars þau að með verkfallinu myndi fjöldi ferðamanna þessa stærsta flugfélags landsins þurfa að breyta ferðaáætlunum sínum. Mjólkurfræðingar 1986
Félagsmenn Mjólkurfræðingafélags Íslands fóru í verkfall 24. mars 1986. Lög voru sett á degi síðar með þeim rökum að kröfur þeirra væru langt umfram það sem eðlilegt geti talist og auk þess fæli verkfall þeirra í sér mikla röskun í mjólkurframleiðslu og verðmætatjóni. Farmenn 1986
Félagsmenn í Skipstjórafélagi Íslands og Sjómannafélagi Reykjavíkur sem störfuðu á farskipum fóru í verkfall 30. apríl 1986, en það var stöðvað með bráðabirgðalögum 9. maí 1986 og voru lögin síðar samþykkt. Rökin voru að verkfallið hafi valdið verulegri röskun á flutningum til og frá landinu og skapað erfiðleika í helstu útflutningsgreinum. Arnarflug 1986
Félagsmenn í Flugvirkjafélagi Íslands, þ.e. flugvirkjar og flugvélstjórar sem störfuðu hjá Arnarflugi hf., fóru í verkfall 10. júlí 1986, en það var stöðvað með bráðabirgðalögum 11. júlí 1986 sem voru síðar staðfest. Rökin voru meðal annars þau að ef vinnudeilan haldi áfram muni hún hafa í för með sér stöðvun alls millilandaflugs og innanlandsflugs félagsins og „sennilega gera verkefni þess að pílagrímaflugi frá Alsír til Jeddah að engu, en það á að hefjast 19. júlí n.k.“ er segir í athugasemd með frumvarpinu. Bráðabirgðalög um aðgerðir í efnahagsmálum 1988
Með þessum lögum voru allar vinnustöðvanir sem áttu að bæta kjör fólks á annan hátt en lögin gerðu ráð fyrir bannaðar í heilt ár. Þetta var gert til að tryggja að tryggja aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að verja gengisbreytingu krónunnar. Brottfall kjarasamninga BHMR 1990
Alþingi mat það svo að koma yrði í veg fyrir víxlverkanir launa og verðlags og fella úr gildi launahækkunarákvæði kjarasamninga milli aðildarfélaga BHMR og fjármálaráðherra frá maí 1989 og hliðstæð ákvæði í kjarasamningum aðildarfélaga BHMR við aðra viðsemjendur. Lögin voru kærð til Hæstaréttar, sem dæmdi fjármálaráðherra til greiðslu umsamdra launahækkana. Herjólfur 1993
Félagsmenn Stýrimannafélags Íslands sem störfuðu á Herjólfi fóru í verkfall 3. febrúar 1993, en það var bannað 23. mars, sjö vikum síðar. Rökin voru meðal annars þau að verkfallið hafi haft áhrif á atvinnuöryggi annarra skipverja og þeirra sem vinna á skipinu. Verkfallið hafi valdið margvíslegri röskun, tjóni og vöruskorti í Vestmannaeyjum. Sjómenn 1994
Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands utan Vestfjarða, Vélstjórafélags Íslands, Vélstjórafélags Suðurnesja og Vélstjórafélags Vestmannaeyja fóru í verkfall á fiskiskipum 2. til 5. janúar 1994. Verkfallið var stöðvað með bráðabirgðalögum 14. janúar, sem voru samþykkt. Rökin voru þau að ítrekaðar sáttatilraunir hafi ekki borið árangur og vinnudeilan hafi valdið víðtæku atvinnuleysi meðal annarra launþega. Deilan muni hafa alvarlegan skaða fyrir íslenskt atvinnulíf og valda óbætanlegu tjóni.Sjómenn 1998
Félagsmenn í samtökum sjómanna á fiskiskipum fóru í verkfall 3. febrúar 1998, en á þeim tíma voru vinnustöðvanir bannaðar. Alþingi setti lög á verkfallið eftir tæpa tvo mánuði. Sjómenn 2001
Félagsmenn samtaka sjómanna á fiskiskipum fóru í verkfall 16. mars 2001 og samtök útvegsmanna settu verkbann á sjómenn frá sama tíma. Vinnustöðvunum var frestað til 1. apríl. Löggjafinn mat það sem svo að vinnustöðvunin myndi óleyst valda óbætanlegu tjóni fyrir atvinnulífið og ríkir almannahagsmunir voru í húfi. Grunnskólakennarar 2004
Félag grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands sem störfuðu hjá sveitarfélögum fóru í verkfall 20. september 2004, en verkfallsaðgerðir þeirra voru bannaðar samkvæmt lögum. Alþingi stöðvaði verkfallið 13. nóvember, Flugvirkjar 2010
Flugvirkjar hjá Icelandair fóru í verkfall 22. mars 2010 en vinnustöðvanir voru bannaðar. Síðustu kjarasamningar flugvirkja voru framlengdir til 30. nóvember. Atvinnuflugmenn 2014
Félagsmenn Félags íslenskra atvinnuflugmanna hjá Icelandair fóru í verkfall 9. maí 2014. Lög voru sett á verkfallið sex dögum síðar, 15. maí, með þeim rökum að það hafi áhrif á um sex hundruð flug til og frá landinu og um hundrað þúsund farþega. Gríðarlegir samfélagslegir og efnahagslegir hagsmunir væru í húfi. Sjómenn 2014
Félagsmenn Sjómannafélags Íslands sem störfuðu á Herjólfi fóru í verkfall 5. mars 2014, en því var frestað með lögum til og með 15. september 2014. Lögin voru samþykkt 2. apríl, þó að ekki hafi verið um algert verkfall að ræða heldur yfirvinnubann og vinnustöðvun um helgar. Rökin voru þau að aðgerðirnar hafi neikvæð áhrif á atvinnustarfsemi í Vestmannaeyjum og íbúa sem reiða sig á Herjólf til að komast til og frá eynni. BHM og hjúkrunarfræðingar 2015
Hluti aðildarfélaga Bandalags háskólamanna fóru í verkföll á mismunandi tímum árið 2015 og hjúkrunarfræðingar fóru í ótímabundið verkfall 27. maí. Lög voru sett á kjaramál þessara hópa og verkföll þeirra bönnuð. Rökin voru þau að tjónið sem verkföllin höfðu valdið hafi verið mikið og viðræður hafi reynst árangurslausar. Lögin voru samþykkt 13. júní 2015. Flugumferðarstjórar 2016
Alþingi var kallað saman á miðvikudagskvöld 8. júní til að samþykkja lög innanríkisráðherra á yfirvinnubann flugumferðarstjóra. Þeir hafa frest til 24. júní til að ná samningum, ellegar verður skipaður gerðardómur sem ákveður laun þeirra. Rökin voru fyrst og fremst neikvæð áhrif aðgerðanna á ferðaþjónustuna á Íslandi.