Fari svo að Bretar fari úr Evrópusambandinu (ESB), eftir þjóðaratkvæðagreiðslu 23. júní næstkomandi, þá gæti það haft „feykimikil“ áhrif fyrir Ísland. Þetta segir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Ástæðan er sú, að Bretar myndu þurfa að endurskoða í hvaða farvegi viðskiptasamningar og viðskiptasambönd ættu að vera, í ljósi breyttrar alþjóðapólitískrar stöðu. „Í fyrsta lagi færist Ísland frá Evrópusambandinu, eða það það frá okkur, eftir atvikum. Grundvöllur íslensks efnahagslífs hefur meðal annars verið að selja Bretum þorsk í Fish and chips – sjálfan þjóðarréttinn. Við útgöngu Breta fer eflaust af stað umræða um stöðu Bretlands og annarra nágrannaríkja ESB. Bretland, við [Ísland], Norðmenn, Sviss og slík ríki þurfa öll aðkomu að innri markaði ESB og við útgöngu Breta hljóta menn að ræða hvernig sú tenging sé best fyrir komið fyrir öll þessi ríki. Þar með gæti orðið til einskona ytra Evrópusamband með Íslandi, Bretland, Noregi, Sviss og ef til vill litlu örríkjunum, Andorra, San Marino og Ermasundseyjunum,“ segir Eiríkur Bergmann.
Mikið undir
Sé mið tekið af nýjustu könnunum í breskum fjölmiðlum, þá eru töluverðar líkur á því að Bretar yfirgefi ESB, næstum hnífjöfn staða hefur komið út í könnum. Um 49 prósent vilja úr sambandinu en 51 prósent vilja vera áfram, af þeim sem gefa upp afstöðu sína, samkvæmt könnun sem Sky fréttastofan greindi frá í síðustu viku. Kannanir hafa sýnt töluverða fylgissveiflu í átt að meiri andstöðu við ESB, en greinilegt er þó að ekki hafa allir gert upp hug sinn.
Þrátt fyrir að ýmsir þjóðarleiðtogar og forystufólk alþjóðasamstarfs, svo sem Barack Obama Bandaríkjaforseti og Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hafi talað fyrir því að Bretar verði áfram í sambandinu, þá virðist sem það sé ekki að hafa mikil áhrif í Bretlandi. Andstæðingarnir gagnrýna slíkt tal, og hefur Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri í London, sagt að ákvörðunin sé einungis mál Breta og komi öðrum ekkert við.
Lagarde lét hafa eftir sér í gær, að það væri óumdeilt að þátttaka Bretlands í ESB hefði styrkt efnahagslíf Bretlands. Hún vildi ekki svara spurningum beint um atkvæðagreiðsluna, og bar því við að hún vildi með því votta fjölskyldu bresku þingkonunnar Jo Cox, sem myrt var í fyrradag, virðingu sína. Hún var ötull baráttumaður fyrir opnara Bretlandi, og vildi Lagarde ekki, sökum þessi hve umræðan um þessi mál er viðkvæm, fara inn á eldimt deilumál. Forystumenn í breskum stjórnmálum hafa sameinast, hvar í flokki sem þeir standa, um að láta hið skelfilega morð ekki magna upp ómálefnlega umræðu í Bretlandi.
Lok, lok og læs
Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði í viðtali við þýska vikuritið Der Spiegel, um liðna helgi að Bretland myndi ekki fá aðgang að innri markaði ESB ef það stæði fyrir utan sambandið. Stokka þyrfti spilin upp á nýtt, og það gæti reynst erfitt úrlausnarefni.
Schäuble var spurður hvort Bretum stæði til boða að ganga í evrópska efnahagssvæðið (EES) eftir útgöngu úr ESB og gera svipaðan samning og Ísland, Noregur, Liechtenstein eða Sviss hafa við sambandið. „Það mun ekki ganga,“ sagði hann. „Þá þyrfti landið að fylgja reglum klúbbsins sem það vill hætta í. Ef meirihluti kjósenda í Bretlandi velur að samstarfinu sé slitið verður það ákvörðun gegn sameiginlega markaðinum. Annað hvort ertu með eða ekki.“
Ekki sammála
Andstæðingar veru Bretlands í Evrópusambandinu hafa bent á að orð eins og þessi, um að innri markaðurinn kunni að lokast, séu ekkert nema orðin tóm, þar sem alþjóðavætt viðskiptalíf heimsins opni á frjálsa samninga sem Bretar ættu ekki að hræðast. Auk þess hljóti Bretar, eins og önnur ríki sem standi utan ESB, að geta samið um aðgang að innri markaðnum til lengdar litið, þar sem í því felast beinir hagsmunir ESB. Bretar séu með breska pundið og sjálfstæðan seðlabanka, Englandsbanka, sem geti hagað sinni stefnu að vild, og geri það nú þegar. Breytingin þurfi ekki að vera dramatísk.
Kosningabarátta fylkinganna tveggja, með og á móti útgöngu Bretlands, fer nú að ná hámarki sínu og hefur heldur herst á áróðrinum. Á vef Guardian er kosningabaráttan útskýrð á einfaldan hátt. Þeir sem telja Bretlandi best borgið utan ESB hafa lagt árherslu á minninguna um breska heimsveldið, hugarfar Breta á stríðsárunum og Thatcher-tímann á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Auk þess sem mikið er rætt um efnahagslegt sjálfstæði landsins og mikilvægi pundsins og sjálfstæðrar peningastefnu. Fyrir þeim er ESB ofríkisfullt, dýrt og ólýðræðislegt; og innflutningur fólks í álfuna veldur þeim hugarangri.
Þeir sem vilja halda sambandinu við ESB minna á það hversu vel Evrópusamstarfinu hefur tekist að stilla til friðar í heimsálfu sem logaði áður í deilum. Þar er einnig lögð áhersla á hversu vel fjórfrelsið hefur komið sér fyrir alla þátttakendur í samstarfi ESB-ríkja, og að sameiginleg stefnumál og markmið, t.d. á sviði orku- og umhverfismála, muni skipta heimsbyggðina miklu máli á næstu árum og áratugum. Þar þurfi að ríkja einhugur og mikið samstarf.
Meðal þeirra sem sem styðja áframhaldandi veru Bretlands í ESB eru allir leiðtogar allra stærstu stjórnmálaflokka á Bretlandi, þar með talið David Cameron forsætisráðherra Íhaldsflokksins, en innan þess flokks er andstaðan mest. Allir helstu leiðtogar Evrópusambandsríkjanna hafa einnig hvatt Breta til að kjósa áframhaldandi aðild. Valið standi að miklu leyti um samstöðu og samstarf, eða einangrunarafstöðu.