Margir Danir ráku upp stór augu að morgni sólstöðudags 21. júní þegar þeir sáu grænlenska þjóðfánann blakta við hún á opinberum stofnunum og byggingum í Danaveldi. Sumir héldu að Grænlendingar stæðu fyrir þessu og væru með tiltækinu að vekja athygli á sjálfstæðisbaráttu sinni, eða kannski væri þetta bara svona prakkaraskapur. Strætisvagnarnir sem aka um götur bæja og borga skörtuðu grænlenskum fánaveifum en á hátíðis- og tyllidögum aka þeir með danskar fánaveifur og sömuleiðis á afmælisdögum fjölskyldu Margrétar Þórhildar. Dönsku fánadagarnir hafa lengi verið sautján talsins, en verða framvegis nítján. Ástæða þess að grænlenski fáninn hékk við hún 21. júní er sú að forsætisráðherra Danmerkur ákvað að Grænland og Færeyjar fengju sinn fánadag. Grænlenski fánadagurinn verður sólstöðudagurinn, sem er þjóðhátíðardagur Grænlendinga. Færeyski fánadagurinn verður hins vegar 29. júlí á Ólafsdeginum, þjóðhátíðardegi Færeyinga sem jafnframt markar upphaf Ólafsvöku. Fram til þessa hefur enginn fáni annar en danski þjóðfáninn, Dannebrog, blakt á opinberum flaggstöngum í Danmörku.
Flaggstangatalningin
Í janúar sl. bárust forstöðumönnum danskra ríkisfyrirtækja og stofnana ríkisins bréf frá fjármálaráðuneytinu. Þótt þeir væru ýmsu vanir þegar kemur að erindum og fyrirspurnum frá því virðulega ráðuneyti var innihald bréfsins ólíkt öllu því sem áður hafði borist. Þeim var semsé gert að telja þær flaggstangir sem tilheyrðu viðkomandi stofnun og senda fjármálaráðuneytinu upplýsingarnar. „Maður er nú öllu vanur úr þessari átt“ sagði forstöðumaður einnar ríkisstofnunar og bætti við „hvað skyldu þeir háu herrar vilja fá talið næst?“ Ekki kom þó til þess að óskað væri eftir upplýsingum um fjölda handlauga og fatahengja, eins og einn forstöðumaður lét reyndar fylgja með þegar hann upplýsti að hjá sinni stofnun væri ein flaggstöng, sem því miður hefði nýlega brotnað.
Fjölmiðlarnir gerðu sér mikinn mat úr þessu talningamáli sem þeir kölluðu „Flagstangsgate“ og veltu fyrir sér tilganginum. Embættismennirnir voru þögulir sem gröfin, vísuðu á forsætisráðherrann þegar spurt var.
Forsætisráðherra upplýsir um málið
Nokkrum dögum eftir að talningarskipunarbréfið var sent út upplýsti forsætisráðherrann um málið á fésbókarsíðu sinni. Sér væri mjög hlýtt til Grænlendinga og Færeyinga (Sólrun, eiginkona ráðherrans, er færeysk) og nú hefði hann ákveðið að Grænlendingar og Færeyingar fengju sérstakan fánadag. „Þegar farið var að ræða um þetta kom í ljós að í fórum ríkisins voru engar upplýsingar til um fjölda opinberra flaggstanga í konungsríkinu,“ sagði ráðherrann. Til að allar stofnanir gætu fengið þjóðfánana væri nauðsynlegt að vita hve marga þyrfti að útvega. Ráðherrann tilkynnti svo síðar að fánadagarnir yrðu 21. júní fyrir Grænland og 29. júlí fyrir Færeyjar.
534 opinberar flaggstangir
Svör við spurningu ráðuneytisins bárust fljótt og vel. Opinberar flaggstangir reyndust 534 talsins. Nokkrir forstöðumenn tilkynntu um brotnar stangir en það stæði til bóta. Þegar stangafjöldinn lá fyrir gátu embættismenn fjármálaráðuneytisins pantað þann fjölda fána sem til þurfti og þeim var svo komið til stofnana ríkisins um land allt og sendiráða Danmerkur víða um heim.
Grænlendingar stoltir og glaðir
Grænlendingar sem danskir fjölmiðlar töluðu við á sólstöðudeginum sögðust bæði vera stoltir og hrærðir þegar þeir sæju þjóðfánann blakta við hún á opinberum byggingum. Sumir lýstu jafnframt mikilli ánægju með þetta frumkvæði forsætisráðherrans, hann hefði með þessu hefði sýnt Grænlendingum hlýhug, sem stundum skorti hjá dönskum ráðamönnum. 29. júlí kemur svo röðin að færeyska fánanum.