„Hvað eru Bretar að hugsa?“ sagði einn pabbinn, þegar við feðgar vorum að koma í skólann í morgun, við 109. stræti, milli Broadway og Amsterdam, vestanmegin á Manhattan. Nemendur í skólanum þar koma frá yfir 90 löndum. Skólasamfélagið í PS 165 er því eins og þverskurður af alþjóðavæddum heimi.
Pabbinn, sem sjálfur kemur frá Egyptalandi, var að velta fyrir sér niðurstöðunni úr Brexit-kosningunum svonefndu, en eins og kunnugt er, og fjallað hefur verið um ítarlega í dag á vef Kjarnans og annars staðar, þá kusu Bretar gegn áframhaldandi veru í Evrópusambandinu (ESB) í þjóðaratkvæðagreiðslu. Leiðtogar ESB hafa þrýst á Breta um að flýta formlegri útgöngu og eyða óvissu um hvernig staðið verður að því. David Cameron, forsætisráðherra, hefur þegar tilkynnt um afsögn sína.
„Ég fæ í magann. Sáu þið tölurnar frá mörkuðunum í morgun?“ sagði annar pabbinn, þegar við gengum til baka frá stofunni þar sem börnin hittast í Pre-K. Sá kemur frá Hollandi, og hefur oft í vetur minnst á það, hversu slæmt er að finna fyrir uppgangi fordóma, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Honum finnst þetta sýnilegra, en áður. Hann er ekki einn um það.
Sögulegir tímar
Stutt samtöl sem þessi, hafa örugglega verið mörg hjá fólki víða um heim í dag. Hvað þýðir Brexit fyrir pólitísk landslag í heiminum, og þar með talið Ísland? Engin skýr svör liggja fyrir, en sé mið tekið af fyrstu viðbrögðum á fjármagnsmörkuðum, hér í hjarta hinnar kapatalísku veraldar í New York, þá virðist sem niðurstaðan í kosningunum hafi komið mörgum fjárfestum á óvart. Það er eitt að vita af möguleikanum, en annað að reikna með því í fjárfestingum. Strax við opnun fyrstu markaða var ljóst að það stefndi í svartan föstudag. Í Asíu opnuðu markaðir með bólgnum rauðum tölum lækkunar. Nikkei vístalan í Japan féll um 7,8 prósent, og hlutabréf skráð í kauphöllinni í Shanghai féllu um þrjú prósent. Þá var augljóst á fyrstu merkjum frá markaðnum, að fjármunir voru að færast hratt yfir í bandarísk ríkisskuldabréf og gull, að því er fram kom í morgunpósti Bloomberg í morgun.
Á Íslandi sást þetta meðal annars á því, að gengi pundsins
veiktist um 6,16 prósent gagnvart krónunni, og kostaði pundið tæplega 170 krónur
eftir lokun markaða. Á sama tíma styrktist gengi Bandaríkjadals gagnvart
krónunni um 1,9 prósent, og kostaði dalurinn um 125 krónur við lokun.
Mikil áhrif, en hvaða áhrif?
Fleira mætti telja til, sem sýnir glögglega viðbrögð fjárfesta við þessum tíðindum. Þannig lækkaði verð á hráolíu í verði um tæplega fimm prósent. Tunnan kostar nú 48 Bandaríkjadali á markaði í Bandaríkjum. Hlutabréf hafa fallið mikið í verði um nær allan heim. Hlutabréf í bönkum hafa lækkað enn meira, eða um allt að 30 prósent. Mesta lækkunin var hjá Royal Bank of Scotland, sem breska ríkið á meirihluta í, og Barclays, en þessi bresku bankar lækkuðu um ríflega 20 prósent að markaðsvirði í dag.
Aðeins á dögunum æsilegu, haustið 2008, hafa sést viðlíka tölur á mörkuðum. Í Þýskalandi hafa hlutabréf fallið um tæplega sjö prósent og vísitala Nasdaq í Bandaríkjunum hefur fallið um þrjú prósent, sem telst mikil dagslækkun.
Vantraustið, sem fjárfestar sýna breskum markaði, er því algjört í dag, og það sem verra er þá virðast ekki vera nein svör uppi um hvað sé framundan. Einhverra hluta vegna, er ekkert plan um hvernig standa skuli að útleið Bretlands úr ESB. Hvað þýðir þetta framvegis fyrir atvinnufrelsi, frjálsa för fólks og sameiginlega rannsóknarstarf ESB-landa? Svörin við þessu eru engin, enn sem komið er, en aðlögunartími að þessi ákvörðun er tvö ár samkvæmt lögum og reglum ESB.
Talar fyrir samvinnu
Frá pólitíska sviðinu héðan í Bandaríkjunum, óma ólíkar raddir, þegar Brexit-niðurstaðan er annars vegar. Á sama tíma og Donald J. Trump, sem allt stefnir í að verði fulltrúi Repúblikana í forsetakosningunum í nóvember, fagnar niðurstöðunni – meira að segja í Bretlandi – þá hefur Barack Obama, Bandaríkjaforseti, talað fyrir mikilvægi þess að Evrópa sé í nánu pólitísku samstarfi og að Bretland sé hluti af ESB. Þetta hefur hann raunar margítrekað, og gerði sér sérstaklega far um að fara til Bretlands og ítreka þessa skoðun sína, í aðdraganda kosninganna. En það hafði ekki áhrif, frekar en varnaðarorð fjölmargra annarra þjóðarleiðtoga og talsmanna alþjóðasamstarfs. Ein þeirra sem eyddi púðri í að skýra það fyrir umheiminum, að útganga Breta myndi hafa mikil alþjóðapólitísk og efnahagsleg áhrif, var Christine Lagarde, framkvæmdstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hún og allir aðrir, sem tjáðu sig í aðdraganda kosninganna, eiga það sameiginlegt að geta ekki svarað því með neinni vissu hver áhrifin verða til lengri tíma, á efnahag Breta.
Einangrunarhagkerfið?
Breska hagkerfið er ólíkt flestum öðrum ESB-ríkjum að því leyti að það er með breska pundið og sjálfstæðan seðlabanka, Englandsbanka, sem bakbein, ef svo má að orði komast. Evran er ekki gjaldmiðill þess, og í því liggur mikill munur, sé mið tekið af efnahag ríkja eins og Þýskalands, Frakklands og Ítalíu. Úrsögn Bretlands mun hins vegar augljóslega veikja efnahagslega umgjörð á Evrópusambandssvæðinu, að mati álitgjafa helstu álitsgjafa hér vestra. Meðal annars þess vegna virðast stærstu fjármálafyrirtæki Bandaríkjanna hafa verið búin að búa sig undir mögulega úrsagnarniðurstöðu. Þannig bárust fréttir af því í dag að Morgan Stanley væri þegar farinn að undirbúa flutning á starfsemi, sem væri með tvö þúsund störf undir, til Frankfurt og Dublin.
Staða efnahagsmála í Bretlandi hefur farið batnandi undanfarin misseri. Atvinnuleysi er um fimm prósent, en hagvöxtur hefur verið lítill, eins og er víðtækt vandamál í allri Evrópu.
Eitt af því sem Brexit-niðurstaðan sýnir glögglega er mikill skoðanamunur ungra og gamalla kjólsenda. Þannig vildu 73 prósent þeirra sem eru í yngsta kjósendahópnum, 18 til 24 ára, að Bretland yrði áfram í ESB, en 60 prósent 45 ára og eldri vildu að Bretland færi úr sambandinu.
Bretland er þjónustustórveldi, sem hagkerfi, en um 78 prósent af störfum í landinu eru tengd þjónustu af ýmsum toga. Í höfuðborginni London hefur fjármálaþjónusta – í City hverfinu svonefnda – vaxið hratt á undanförnum árum, en blikur eru nú á lofti, þar sem stærstu fjámálastofnanir heimsins þurfa að spyrja sig að því, hvort sé rétt að stýra starfsemi frá landi sem hefur valið að einangra sig pólitískt frá innri markaði Evrópu. Svo virðist sem Morgan Stanley hafi svarað þessu neitandi, en ekki er víst að allir geri það. Með útgöngu Bretlands fer þriðja fjölmennasta ríki ESB úr sambandinu, og þar með 65 milljónir manna. Þýskaland er fjölmennast með 81 milljón íbúa og Frakkland er álíka stórt og Bretland, með 66 milljónir. Ítalía er með tæplega 61 milljón íbúa. Þessi ríki hafa verið hryggjarstykkið í Evrópusambandinu áratugum saman, og úrsögn Bretlands er einstök og söguleg, á nánast alla mælikvarða.
Vita það ekki sjálfir
Pabbinn frá Egyptalandi spurði í morgun, hvað Bretar væru að hugsa, og þó hann hafi gert þetta á hlaupum, þá er þetta lykilspurning, sem þeir virðast ekki vera með svarið við sjálfir. Í það minnsta ekki strax. Staða Bandaríkjanna, sem efnahagsveldis, gæti styrkst við þetta, en það gæti verið á kostnað pólitískrar samvinnu, þvert á landamæri. Það eru svörin sem flestir álitsgjafar hafa komið með fram í umræðuna, á þessum örlagaríka degi.
Hvað Ísland varðar, eru miklir hagsmunir í húfi. Um 19 prósent erlendra ferðamanna koma frá Bretlandi, og hefur vöxturinn í ferðum þaðan verið með ólíkindum síðustu ár. Þá seljum við vörur og þjónustu fyrir um 120 milljarða á ári til Bretlands, og flytjum inn vörur og þjónustu fyrir um 90 milljarða. Viðskiptasambandið er sterkt og byggir á áratugasögu, ekki síst þegar kemur að viðskiptum með þorsk. Þessa hagsmuni þurfa íslensk stjórnvöld að leggjast yfir, og reyna að finna leiðir til að verja þá, og hugsanlega nýta tækifæri sem geta falist í því að Bretar hafi valið að standa utan ESB eins og Ísland, Noregur og Sviss gera. Einhverskonar hagsmunabandalag ríkja, sem eru utan ESB, gæti orðið sterkara við þetta, þó erfitt sé að segja til um það. Innviðir Bretlands gætu líka tekið breytingum, einkum ef Skotland endurmetur stöðu sína og stendur sjálfstætt eftir.
Margir fá vafalítið „í magann“, eins og hollenski pabbinn, en nú mun reyna á að ný ríkisstjórn í Bretlandi, sem tekur við stjórnartaumunum á næstu mánuðum, leiði landið inn í nýjan veruleika sem í augnablikinu er hulinn óvissuskýi. Heimsmyndin er breytt.