Pundið kostar nú 165 krónur, en fyrir tveimur viðskiptadögum, nánar tiltekið á fimmtudaginn í siðustu viku, þá kostaði það um 180 krónur. Á föstudaginn veiktist pundið gagnvart íslensku krónunni um 6,16 prósent, og í dag er veikingin um 2,6 prósent.
Ástæðan fyrir þessum snöggu og miklu breytingum, hjá einu af okkar stærstu viðskiptaþjóðum, er rakin til Brexit kosninganna svonefndu, 23. júní, þar sem 52 prósent kjósenda í Bretland kaus með því að Bretland færi úr Evrópusambandinu (ESB), 48 prósent vildu að Bretland yrði áfram hluti af ESB. Afgerandi mikill munur var á viðhorfum eftir aldri, en eldra fólk vildi frekar fara úr ESB en yngra fólkið vera áfram.
Óvissan
Fjárfestar hafa tekið niðurstöðunni illa, og það sem verra er: „það er ekkert plan,“ eins og það var orðað í umfjöllun Bloomberg. Fjárfestar vita ekki hvað tekur við, og svo virðist sem bresk stjórnvöld séu ekki með það á hreinu heldur. Samkvæmt sáttmála ESB þá hafa þjóðir, sem ákveða að segja sig úr ESB, tvö ár til að framkvæma úrsögnina. Á þeim tíma eru samningar aðildarríkjanna við önnur ríki og heimsálfur, viðskiptasamningar þar á meðal, ekki settir í uppnám.
Þetta er ekki úrslitaatriði í huga fjárfesta, sé mið tekið af því hvernig fjallað er um málin hér Vestanhafs. Það vantar skýrari skilaboð um hvað Brexit þýðir í reynd. Bandaríkjadalur hefur styrkst mikið gagnvart pundi, frá því að niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni var ljós. Á tveimur viðskiptadögum hefur staðan gjörbreyst. Nú fæst 1,3 pund fyrir hvern Bandaríkjadal, en fyrir atkvæðtagreiðsluna fékkst liðalega 1,6 pund. Þetta eru miklar og djúpar sveiflur, og greinilegt að fjárfestar eru að leita „skjóls“ í Bandaríkjdal, og þá einkum og sér í lagi ríkisskuldabréfum.
Viðskiptasamningar haldi
Bandarísk stjórnvöld hafa þegar gefið það út, að viðræðum um viðskiptasamninga milli Bandaríkjanna og Bretlands muni hefjast fljótt, en öll kurl eru þó ekki komin til grafar ennþá. Pólitísk óvissa er það sem helst skelfir markaðina. Samband Bretlands við umheiminn markast að miklu leyti af ESB aðildinni og efnahagslegum forsendum sambandsins, jafnvel þó Bretland sé með eigin mynt og sjálfstæða peningastefnu Englandsbanka. Alþjóðlegir fjárfestar hafa horft til þess að ákveðin festa sé fyrir hendi, með aðild Breta að ESB, undanfarin 43 ár.
Boris Johnson, helsti talsmaður Leave-hreyfingarinnar og fyrrverandi borgarstjóri í London, hefur sagt að Bretland geti staðið traustum fótum utan ESB, og það muni verða raunin. Lítið hefur þó heyrst frá honum eftir atkvæðagreiðsluna, nema þá almennt tal um að Bretar geti vel bjargað sér utan ESB. Í gær lét hann hafa eftir sér að pundið væri nú með „svipaðan styrk“ og á árunum 2013 og 2014. Fjölmiðlar hafa velt því fyrir sér hvað hann eigi við með þessum orðum, þar sem gengi gjaldmiðla er borið saman aðra, og þá sagt hvort það sé að styrkja eða veikjast gagnvart þeim. Johnson nefndi ekkert slíkt, og nánast hvernig sem á málin er litið, þá er veiking pundsins gagnvar helstu viðskiptamyntum heimsins, nær fordæmalaust.
Miklir hagsmunir fyrir Íslands
Þó ekki sé vitað hvernig málinu verður lent, hvað efnahagspólitískt samband Bretlands við umheiminn varðar, þá liggja miklir hagsmunir Íslands undir. Þegar hefur náðst samkomulag milli EFTA-ríkjanna um fyrstu viðbrögð við Brexit-kosningunum, en ekki liggur fyrir enn hvernig tenging EFTA-rkíkjanna við Bretland verður til framtíðar litið. Ekki er talið tímabært að bjóða Bretum aðild að EFTA strax, þár sem greining þarf að fara fram og hagsmunamt hvers og eins ríkisins einnig. Þá liggur fyrir að öll kurl eru ekki komin til grafar en í Bretlandi, og því ekki vitað enn hverjar forsendur fyrir hugsanlegri aðild Bretlands að EFTA verða, eða geta mögulega orðið.
Það er mikið í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf. Útflutningur á vörum og þjónustu til Bretlands nam 120 milljörðum í fyrra, og um 19 prósent af erlendum ferðamönnum hefur komið frá Bretlandi. Það er rótgróið viðskiptaland Íslands þegar kemur að sjávarútvegi, og annar vöruútflutningur til landsins hefur verið vaxandi.
Eitt þeirra flugfélaga sem hefur flutt marga ferðamenn til landsins, á vaxtarárum í ferðaþjónustunni undanfarin ár, er Easy Jet. Það hefur lækkað mikið í verði, eins og mörg önnum félög í Bretlandi, en þegar þetta er skrifað hefur markaðsvirði þess lækkað um 22 prósent á tveimur viðskiptadögum. Krefjandi tími gæti beðið þess, haldi pundið áfram að veikjast gagnvar alþjóðlegum myntum.
En eins og Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, hefur ítrekað bent á, undanfarna daga, þá munu íslensk stjórnvöld kappkosta að tryggja íslenska hagsmuni, eftir því sem kostur er, og fylgjast grannt með því hvernig málin þróast. Hvernig það verður gert, nákvæmlega, á eftir að koma í ljós.