Íslenska þjóðfylkingin (ÍÞ) ætlar að bjóða fram til Alþingis í næstu kosningum og eru listar farnir að myndast í öllum kjördæmum. Flokkurinn leggur mikla áherslu á herta innflytjendalöggjöf, bann við iðkun íslam og vill vinna gegn fjölmenningu.
Fjölmennur aðalfundur
ÍÞ hélt aðalfund í fyrradag á Café Catalínu í Kópavogi þar sem formaður og varaformaður var kosinn. Að sögn Helga Helgasonar formanns mættu um 130 manns á fundinn, þar af fóru 22 í flokksstjórn.
„Vísir af listum eru þegar byrjaðir að myndast í öllum kjördæmum. Við vinnum að því í sumar og þeir verða tilbúnir í haust. Þess vegna er það mjög ákveðið hjá okkur að klára það í sumar og setja upp kjördæmisráð,“ segir Helgi í samtali við Kjarnann. Hann segir ákveðin grundvallaratriði skilja ÍÞ frá stefnumálum annarra flokka, eins og til dæmis að banna skólahald múslima, byggingu moska og notkun búrka.
„Þessi stefna kemur fyrst og fremst fram vegna þess sem er að gerast í nágrannalöndunum. Þar smygla blaðamenn sér inn í moskur og afhjúpa þar sjaríaráð þar sem er predikað hvernig það eigi að hundsa danskt samfélag og hvernig eigi að grýta fólk,“ segir Helgi og bætir við að Íslendingar á Norðurlöndunum hafi sett sig í samband við flokkinn og lýsa yfir stuðningi við stefnuna.
Vilja ekki tvímenningu
Í stefnuskránni segir að ÍÞ vilji einungis styðja við þá innflytjendur sem aðlagast íslensku samfélagi.
„Við erum fyrst og fremst að hugsa um fólk sem hefur fengið ríkisborgararétt,“ segir Helgi. „Það var til dæmis flott stelpa frá Ísafirði, innflytjandi býst ég við, hvort hún dúxaði í skólanum, og fór í upphlut á útskriftina. Það er bara þetta sem við erum að tala um. Við viljum ekki tvímenningu. Að hér búi tvær þjóðir með sitthvora menninguna.“
Spurður hvort Helgi sé sammála ummælum Donalds Trump, forsetaframboðsefni Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, um að meina múslimum aðgöngu í landið segir hann að það hafi ekki verið rætt.
Það var til dæmis flott stelpa frá Ísafirði, innflytjandi býst ég við, hvort hún dúxaði í skólanum, og fór í upphlut á útskriftina. Það er bara þetta sem við erum að tala um. Við viljum ekki tvímenningu.
Stórefld löggæsla og aukin þátttaka í varnarmálum
Flokkurinn hafnar alfarið aðild Íslands að ESB og TISA og vill Ísland úr Schengen og EES. Þá styður ÍÞ „kristin gildi og viðhorf.“ Þá segist flokkurinn virða trúfrelsi, en hafni þó trúarbrögðum sem séu andstæð stjórnarskrá, sem sé til dæmis islam. Flokkurinn vill herta innflytjendalöggjöf og að hælisleitendur verði sendir úr landi innan tveggja sólarhringa ef þeir fái ekki samþykkt hæli á þeim tíma. Lögð er áhersla á stóreflda löggæslu í landinu og þátttaka Íslands í varnamálum verði aukin. Flokkurinn vill einnig að lífeyrissjóðskerfið verði endurskoðað, lögum um fjármálafyrirtæki breytt og persónuafsláttur hækkaður.
Flugvöllinn áfram í Vatnsmýri
Í grunnstefnu ÍÞ segir að flokkurinn „vilji standa vörð um fullveldi, sjálfstæði og íslenska menningu.“ Áhersla er lögð á einstaklingsfrelsi, aukið beint lýðræði, takmörkun ríkisafskipta, náttúruvernd, friðsöm og haftalaus milliríkjaviðskipti. Flokkurinn segist ætla að beita sér fyrir aukni jafnvægi í byggðum landsins, málefnum fjölskyldna og heimila. Þá eru málefni öryrkja og aldraðra í öndvegi. Flokkurinn vill skuldaleiðréttingu íbúðalána, nýjan gjaldmiðil og hækkun persónuafsláttar. Flugvöllinn vilja flokksmenn hafa áfram í Vatnsmýri.
Hægri grænir urðu ÍÞ og Ásmundi boðið með
Guðmundur Franklín Jónsson hætti sem formaður Hægri grænna eftir síðustu Alþingiskosningar og var Helgi kosinn formaður í kjölfarið. Í febrúar var það svo ákveðið að leggja þann flokk niður og stofna nýjan flokk á nýrri kennitölu, Íslensku þjóðfylkinguna.
Í mars bauð ÍÞ Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, að ganga til liðs við flokkinn. Ásmundur hafði þá lýst þeirri skoðun sinni að hann vildi skoða alvarlega að loka landamærunum og senda flóttafólk aftur til síns heima. Féllu þau orð á þingi í tilefni þess að hælisleitandi hótaði að kveikja í sér vegna óánægju með afgreiðslu Útlendingastofnunar á hælisumsókn hans.
„Með hliðsjón af því að forysta Sjálfstæðisflokksins leyfir ekki skoðanafrelsi og hefur fordæmt eðlileg og öfgalaus varúðarsjónarmið Ásmundar, þá hvetur stjórnin Ásmund að ganga í okkar raðir og býður hann velkominn,“ sagði Helgi í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í kjölfarið.
Facebookhópur ÍÞ hefur rúmlega 1.000 meðlimi. Þar inni tjáir fólk sig mest um málefni tengd innflytjendum, hælisleitendum eða islam. Útganga Bretlands úr ESB er líka rædd þar og skoðanir gegn Evrópusambandinu almennt eru áberandi.