Að minnsta kosti 12 sitjandi þingmenn ætla ekki að gefa kost á sér í komandi Alþingiskosningum. Þar af eru flestir í Framsóknarflokknum, þrír þingmenn og einn ráðherra. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, gaf það út í dag að hún ætli ekki að gefa kost á sér í oddvitasæti í Reykjavík og ætli þar með að láta af þingmennsku. Ekki er ólíklegt að með þessu sé hún að veita Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra rými til reyna við oddvitasætið. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindarráðherra Framsóknarflokksins, ætlar líka að hætta, sem og Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og Páll Jóhann Pálsson þingmaður.
Fæstir hætta hjá VG
Í þingmannaliði Samfylkingar ætla þau Katrín Júlíusdóttir varaformaður og Kristján Möller, fyrrverandi ráðherra, að segja skilið við þingið. Hjá Bjartri framtíð eru það þau Brynhildur Pétursdóttir og Róbert Marshall sem ætla að hætta. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, er sá eini hjá VG sem ætlar að hætta eftir kjörtímabilið.
Fer fylgið með Helga?
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, tilkynnti óvænt um helgina að hann ætlaði ekki að halda áfram á þingi og beita sér heldur í grasrótarstarfi flokksins. Það verður áhugavert að sjá hvort sú ákvörðun muni hafa áhrif á gengi Pírata í skoðanakönnunum, en þeir hafa mælst með mesta fylgið undanfarna mánuði. Helgi hafði áður sagst ætla að halda áfram á þingi, en í viðtali við Kjarnann í vor viðurkenndi hann þó að hann vildi hvorki halda áfram að vera þingmaður né verða ráðherra. Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, gaf út í dag að hún vilji leiða listann í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Hún tók sæti á Alþingi þegar Jón Þór Ólafsson hætti eftir tveggja ára þingsetu.
Endurnýjun í Sjálfstæðisflokknum
Sjálfstæðisflokkurinn missir þrjá reynslumikla stjórnmálamenn úr sínum röðum í haust. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi ráðherra og varaformaður flokksins, og Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður ætla ekki að bjóða sig fram á ný. Ragnheiður hefur að vísu ekki útilokað að bjóða sig fram fyrir Viðreisn þegar hún hefur verið innt eftir því.
Maður kemur þó í manns stað, en þær Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður Ólafar Nordal innanríkisráðherra, hafa báðar tilkynnt að þær ætli að bjóða sig fram til Alþingis í komandi kosningum fyrir flokkinn.