Niðurstaða Chilcot-rannsóknarinnar á þætti Breta í Íraksstíðinu er ljós. Tony Blair gerði mistök, hann leiddi Breta í stríð án þess að það væri orðið nauðsynlegt og hann ýkti ógnina sem stafaði af Saddam Hussein, þáverandi einræðisherra Íraks.
John Chilcot, sem leiddi rannsóknina, sagði í morgun að ljóst væri að þeirra mati að Bretland hafi ákveðið að taka þátt í innrásinni í Írak áður en aðrar leiðir til lausnar málsins höfðu verið fullreyndar. Það var ekki síðasta úrræðið að fara í stríð á þeim tímapunkti sem það var gert. Chilcot segir einnig að Blair hafi viljandi gert meira úr ógninni sem stafaði af einræðisherranum þegar hann reyndi að afla stuðnings þingmanna við hernaðaraðgerðir. Hann treysti um of á sjálfan sig og eigin sannfæringu, frekar en að hlusta á sérfræðinga leyniþjónustunnar. Hann hafi hunsað viðvaranir um afleiðingarnar.
Bush hunsaði ráð Breta
George Bush, forseti Bandaríkjanna, og stjórnvöld í Bandaríkjunum almennt hunsuðu ítrekað ráðleggingar Breta um það hvernig ætti að meðhöndla Írak eftir innrásina, þar með talið hvaða hlutverk Sameinuðu þjóðirnar áttu að hafa og hvernig ætti að stjórna olíupeningum Íraka. Allri innrásinni er lýst í skýrslunni sem misheppnaðri. Bretland hafði að auki engin áhrif í Írak eftir innrásina. Bandaríkjamenn skipuðu sendiherrann Paul Bremer til að leiða stjórn landsins eftir innrásina og Bretland hafði eftir það nánast ekkert að segja, þrátt fyrir náið samband Blair og Bush.
Lofaði að vera með Bush „sama hvað“
Minnisblöð sem Blair sendi Bush varpa ljósi á náið samband þeirra, en minnisblöðin voru birt ásamt skýrslunni í morgun. Þau sýna meðal annars að Blair og Bush ræddu opinskátt sín á milli um það að koma Saddam Hussein frá völdum allt frá árinu 2001, aðeins mánuði eftir árásirnar 11. september.
„Ég efast ekki um að við þurfum að takast á við Saddam. En ef við förum í Írak núna myndum við missa arabaheiminn, Rússland, líklega hálft Evrópusambandið og ég óttast áhrifin af öllu þessu á Pakistan. Engu að síður er ég viss um að við getum búið til áætlun fyrir Saddam sem hægt er að fylgja eftir síðar,“ skrifaði Blair í október 2001. Skömmu síðar, í desember 2001, skrifar hann að Írak sé vissulega ógn vegna þess að það hafi möguleika á að koma sér upp gjöreyðingarvopnum. „En einhver tengsl við 11. september og AQ (Al-Kaída) eru í besta falli mjög hæpin.“ Almenningsálitið á alþjóðavísu væri líklega ekki með þeim, utan Bretlands og Bandaríkjanna, þar sem ekki væri stuðningur við hernað þótt fólk vildi án efa losna við Saddam.
Blair lagði til að málið yrði byggt upp á lengri tíma, og í millitíðinni ætti að grafa undan Saddam.
Í minnisblaði í júlí 2002 segist Blair svo vera með Bush, sama hvað, og leggur áherslu á að það að koma Saddam frá sé það rétta í stöðunni.
Herinn var illa búinn
Þá segir í skýrslunni að breski herinn hafi verið illa búinn og illa hafi verið staðið að allri skipulagningu. Varnarmálaráðuneyti Bretlands hafi skipulagt innrásina í flýti og hafi svo verið lengi að bregðast við ógnum í Írak, eins og notkun betri sprengja, sem urðu mjög mörgum hermönnum að bana.
Að auki er leyniþjónusta Bretlands harðlega gagnrýnd og sögð hafa gert mörg mistök. Upplýsingar um ætluð gereyðingarvopn Saddams Hussein hafi verið gallaðar, en þær voru notaðar til grundvallar ákvörðuninni um að fara í stríðið. Gengið var út frá því alla tíð að gereyðingarvopnin væru til staðar en aldrei skoðað hvort Saddam hefði losað sig við þau, sem var svo raunin.
Engu að síður var það mat leyniþjónustunnar að Írak væri ekki mikil eða yfirvofandi ógn. Íran, Norður-Kórea og Líbýa voru öll talin stærri öryggisógnir bæði þegar kom að kjarnorkuvopnum og efnavopnum. Leyniþjónustan taldi að það myndi taka Írak fimm ár að búa til vopn af þessu tagi.
Blair biðst afsökunar en samt ekki
Tony Blair hélt blaðamannafund í dag þar sem hann útskýrði sína hlið á málinu. Hann sagði að skýrslan sýndi að hann hafi tekið allar ákvarðanir í góðri trú, og það yrði líka að horfa til þess hvort heimurinn væri betri í dag ef Saddam hefði ekki verið komið frá völdum. Hann sjálfur væri þeirrar skoðunar að svo væri ekki. Hann myndi ekki biðjast afsökunar á því að Saddam Hussein hafi verið komið frá völdum. Hann myndi heldur aldrei viðurkenna að þeir fjölmörgu hermenn sem létust í stríðinu hafi dáið án tilgangs.
Þetta var „erfiðasta, eftirminnilegasta og kvalafyllsta ákvörðun sem ég tók á mínum tíu árum sem forsætisráðherra Bretlands.“ Hann sagði að mat á ýmsu hafi reynst vera rangt eftir á, eftirleikurinn af innrásinni hafi verið erfiðari en búist var við, og bæði blóðugri og lengri. Hann lýsti yfir sorg, eftirsjá og baðst afsökunar. „Ákvarðanirnar sem ég tók hef ég borið með mér í 13 ár og mun gera það áfram svo lengi sem ég lifi. Það verður ekki dagur í lífi mínu sem ég endurupplifi ekki og hugsi aftur um það sem gerðist.“