Engin dagsetning verður ákveðin fyrir komandi kosningar fyrr en Alþingi kemur saman á ný í ágúst og vinna verður hafin við þau mál sem þarf að afgreiða. Stór mál eins og búvörusamningarnir, LÍN, afnám gjaldeyrishafta og verðtryggingar bíða þingmanna eftir sumarfrí og erfitt er að gera sér grein fyrir því hvernig þau munu vinnast. Ríkisstjórnin mun leggja fram frumvarp um afnám verðtryggingar fljótlega eftir að þing kemur saman á ný. Þetta herma heimildir Kjarnans.
Áfram stefnt að kosningum í haust
Ríkisstjórnarflokkarnir stefna báðir að því að flýta kosningum en menn eru tregir til þess að ákveða dagsetningu þar sem afgreiðslu mála er forgangsraðað ofar. Með öðrum orðum; fyrst þarf að afgreiða þau mál sem þarf að klára, svo verður gengið til kosninga. Alþingi kemur saman á ný þann 15. ágúst og gerir dagskráin ráð fyrir 13 þingfundardögum, að Eldhúsdeginum meðtöldum. Dagsetningin 22. október hefur verið nefnd og samkvæmt heimildum Kjarnans stefna allir flokkar, að Framsóknarflokkinum undanskildum, að þeirri dagsetningu. Þá ber að taka fram að Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, hefur ítrekað sagst vilja kjósa í haust, þó að hann hafi ekki getað nefnt ákveðna dagsetningu. Línan innan Sjálfstæðisflokksins hallast mun meira í átt að kosningum í október.
Línur að skýrast á listunum
Yfir tíu flokkar stefna að því að bjóða fram til Alþingis. Listar VG og Pírata í Norðausturkjördæmi eru tilbúnir, en víða verða líka haldin prófkjör og hefur fjöldi fólks tilkynnt um framboð fyrir hina ýmsu flokka. Sem dæmi má nefna Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, aðstoðarmann innanríkisráðherra, Björn Val Gíslason, varaformann VG, og Gunnar Hrafn Jónsson, fréttamann á RÚV, og ætlar hann á lista fyrir Pírata.
Sviðið opið fyrir Lilju
Framsóknarflokkurinn er að missa nokkra fyrirferðarmikla þingmenn frá borði eftir þetta kjörtímabil. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og Páll Jóhann Pálsson eru öll að hætta á þingi. Með þessu opnast sviðið fyrir Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra til að gefa kost á sér í oddvitasæti í Reykjavík, en það er alls óvíst hvort hún láti af því verða.
Vigdís segir í viðtali við DV í dag að það sé mikill fengur fyrir flokkinn að hafa fengið Lilju. Það þurfi engan snilling í markaðsmálum til að sjá að það væri best fyrir flokkinn ef hún sjálf mundi leiða Reykjavíkurkjördæmi suður og Lilja Reykjavíkurkjördæmi norður.
„En ég mun auðvitað ekki gefa kost á mér svo að hún gæti valið sitt kjördæmi ef hún hefur áhuga,“ segir Vigdís í DV.
Ekki lægra fylgi hjá Framsókn síðan í hruninu
Framsókn hefur verið að berjast í bökkum undanfarin misseri og hefur fylgið hríðfallið af flokknum í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri. Síðast í gær mældist flokkurinn í könnun MMR með 6,4 prósenta fylgi og hefur það ekki verið eins lágt síðan í desember 2008. Flokkurinn tapaði fimm prósentustigum milli kannanna.
Sigmundur heldur áfram
Kjördæmasamband Framsóknarfélaganna í Reykjavík óskaði í vikunni eftir framboðum á lista flokksins og á fólk að skila inn framboðum í síðasta lagi föstudaginn 12. ágúst. Til stendur að halda miðstjórnarfund hjá flokknum í ágúst, en á þeim fundi verður síðan boðað til flokksþings og er hægt að gera það með tiltölulega skömmum fyrirvara. Á flokksþingi verður kosið um nýja forystu, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður og fyrrverandi forsætisráðherra, mun að öllum líkindum gefa kost á sér þar til endurkjörs sem formaður.
Um þetta segir Vigdís í DV að ef Sigmundur fer fram og geldur afhroð sé sú staða skýr, sem og ef hann vinni stórsigur. Hún studdi Höskuld Þórhallsson í formannskjörinu 2009. Þá segir hún líka að ef Lilja færi í formannsframboð og Sigmundur hætti mundi hún styðja hana.