Ný loftslagsstefna Reykjavíkurborgar hefur verið samþykkt í borgarráði Reykjavíkurborgar. Stefnt er að því að borgin verði kolefnahlutlaus fyrir árið 2040 og að grænar áherslur ráði för í allri ákvörðunartöku borgarinnar. Reykjavík er fyrsta opinbera samfélagið á Íslandi til að lýsa yfir slíkum markmiðum. Loftlagsáætlunin verður svo endurskoðuð á fimm ára fresti í takti við Parísarsáttmálann sem Ísland hefur undirritað.
Björn Blöndal, formaður Borgarráðs, segir að um stefnuna sé sátt í öllum flokkum. Einn fyrirvari hefur þó verið gerður við stefnuna í borgarráði; Sjálfstæðismenn áskilja sér rétt til að fylgja eftir sérstökum áherslum sem ekki eru nefndar í stefnunni og lúta að samgöngumálum, mengun og flæði umferðar.
Til að vega upp á móti þeirri losun sem óhjákvæmilega verður til á vegum borgarinnar og íbúa hennar verður möguleg kolefnisbinding með skógrækt og endurheimt votlendis innan borgarmarkanna kortlögð.
Dagur B. Eggertsson hefur sagt í samtali við Kjarnann að þétting byggðar teljist til helmings þeirra aðgerða sem borgin getur gripið til í loftslagsmálum. „Ef við fylgjum ekki þéttingu byggðar eftir, þá munum við ekki ná þeim árangri sem við þurfum í [loftslagsmálum],“ sagði Dagur í samtali við hlaðvarpsþáttinn Þukl 2. desember síðastliðinn. Hann sagðist einnig vona að borg og ríki gætu unnið vel saman í loftslagsmálunum. „Þar þurfa allir að vinna saman,“ segir hann.
Íslenska ríkið miðar við að minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 50 til 75 prósent árið 2050 miðað við árið 1990. Sú stefnumörkun var sett árið 2007 og gildir enn, en víst er að þegar ný stefnumótun verður kláruð í kjölfar innleiðingar Parísarsáttmálans. Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hyggist mæla fyrir þingsályktunartillögu í upphafi þings í ágúst um sáttmálann og fullgildingu þeirra skuldbindinga sem Ísland mun gangast við. Enn á eftir að semja við Evrópusambandið um „sanngjarna hlutdeild“ Íslands í sameiginlegu loftslagsmarkmiði Íslands og ESB.
„Borgin skiptir miklu máli þegar kemur að því að hafa frumkvæði í aðgerðum til að sporna gegn loftslagsbreytingum,“ skrifar Björn Blöndal í tölvupósti til Kjarnans. „Borgir um allan heim hafa í raun farið fram úr ríkisvaldi í loftslagsmálum. Þar skiptir miklu að hafa frumkvæði að því að vekja almenning til vitundar um breytt neyslumynstur.“
„Borgir um allan heim hafa í raun farið fram úr ríkisvaldi í loftslagsmálum. Þar skiptir miklu að hafa frumkvæði að því að vekja almenning til vitundar um breytt neyslumynstur.“
Samkvæmt loftslagsstefnunni hyggist borgin ætla að virkja borgarbúa til að lifa með loftslagsvænni hætti. Til þess verður opnað vefsvæði þar sem almenningi gefst kostur á að kynna sér leiðir til að minnka úrgang frá heimilum og stunda vistvænni lifnaðarhætti. Um leið ætlar borgin að fjölga grendargámum og stuðla að frekari flokkun úrgangs.
Björn segir mikilvægt að sveitarfélögin standi öll saman að þessum markmiðum og hjálpi íbúum að lifa á vistvænni hátt. Ríkisvaldið verði einnig að ganga í takt við þróunina, „þó ekki sé með öðru en að lög og reglur styðji við aðgerðir til að sporna gegn loftslagsbreytingum frekar en að hindra þær,“ skrifar Björn og áréttar að borgin hafi átt í góðu samstarfi við ríkið í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París.
Grænt í forgang
Loftslagsstefna Reykjavíkurborgar er í tveimur hlutum. Annar hlutinn fjallar um markmið í rekstri borgarinnar. Í meginatriðum er markmiðið að vera kolefnishlutlaust fyrir árið 2040 og að allar ákvarðanir í rekstri borgarinnar verði byggðar á grænum áherslum; um það verði ekkert val. Öll svið borgarinnar og starfstaðir hennar eiga að taka þátt í grænum skrefum, sérstöku loftslagsverkefni stjórnsýslunnar í borginni, eigi síðar en í árslok 2016.
Eitt lykilatriðanna í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum er að auka mælingar á þeim þáttum sem tengjast losun gróðurhúsalofttegunda. Það er mikilvægt til að hafa yfirsýn hvar megi gera betur og einnig til að auka skilvirni og hagræða í rekstri. Þess vegna verður gert grænt bókhald yfir notkun jarðefnaeldsneytis, orkunotkun, úrgangsmagn og losun gróðurhúsalofttegunda. Bókhaldið verður svo birt árlega á vefsíðu Grænna skrefa.
Lykilhugtök samfélaga um allan heim þegar kemur að loftslagsaðgerðum eru tvö: aðgerðir og aðlögun. Aðgerðirnar eiga að miða að því að sporna við þeim breytingum sem þegar eiga eftir að verða en aðlögunin er mikilvæg til að samfélög geti þrifist í breyttum veruleika sem fylgir þeim loftslagsbreytingum sem eru óhjákvæmilegar. Borgin ætlar þess vegna að ráðast í frekara mat á flóðahættu og öðrum þáttum sem okkur þykja sjálfsagðir í dag eins og aðgengi að hreinu vatni.
Íslenskt forskot
Samgöngur eru helsti mengunarvaldur á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg hefur raunverulega forskot á aðrar borgir í heiminum vegna þessa, enda þurfa stærstu borgir í heimi að stuðla að orkuskiptum við húshitun og rafmagnsnotkun á heimilum. Í Reykjavík veldur húshitun og rafmagnsnotkun nær engri losun gróðurhúsalofttegunda. Rafmagnið fáum við úr vistvænum vatnsaflsvirkjunum og við notum jarðhita til húshitunar.
Markmið borgarinnar miða þess vegna helst að því að draga úr losun í samgöngum. Í drögunum er markmiðið að hlutdeild bílaumferðar verði 58 prósent árið 2030, almenningssamgöngur telji 12 prósent og gangandi og hjólandi umferð verði 30 prósent. Búið er að gera ráð fyrir þessu í aðalskipulagi Reykjavíkur og borgarbúar eru þegar farnir að taka eftir breytingum á umferðaræðum og göngustígum sem eiga að stuðla að þessu. Árið 2040 er markmiðið svo að bílaumferð og almenningssamgöngur muni ekki menga neitt.
Til að ná þessu markmiði er einnig ætlunin að efla almenningssamgöngur verulega með hraðvögnum eða léttlestum. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa þegar fallist á tillögur um svokallaða Borgarlínu sem á að vera hryggjarstykkið í samgöngukerfi svæðisins. Ljóst er að þessi áform munu kosta gríðarlega fjármuni en að samfélagslegur ávinningur sé mun meiri, eins og dæmi sýna í borgarsamfélögum sem farið hafa þessa leið.
„Þessi vinna mætti að mínu mati vera komin lengra,“ viðurkennir Björn þegar hann er spurður hversu langt samstarfið um borgarlínuna er komið. „Það er þó svo að öll sveitarfélögin hafi samþykkt svæðisskipulag sem gerir ráð fyrir borgarlínu og í raun breyttum samgönguháttum. Það er risaskref. Næsta skref er að ráðast í beinar aðgerðir til að byggja undir borgarlínuna.“
„Það er þó svo að öll sveitarfélögin hafi samþykkt svæðisskipulag sem gerir ráð fyrir borgarlínu og í raun breyttum samgönguháttum. Það er risaskref.“
Þessi efling almenningssamgangna á að fara fram í nokkrum skrefum. Að sögn Björns er fyrst á dagskrá að koma upp forgangsreinum fyrir strætó. Þannig munu vagnarnir geta gengið oftar og hraðar um stofnleiðir og um leið gera strætó að fýsilegri kosti fyrir marga. „Ég vil meina að það þurfi að ganga hratt í það mál, helst þannig að framkvæmdir hefjist strax í ár og á næsta ári. Sveitarfélög þurfa að sjá um að greiða fyrir þessu í deiliskipulagi hvert á sínum stað.“
Fleiri rafhleðslustöðvar á kostnað bensínstöðva
Auk þess að efla vistvænar almenningssamgöngur þá verða settir upp hvatar fyrir almenning til að stuðla að orkuskiptum í umferðinni. Í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur verða settar upp rafhleðslustöðvar víða, enda er reiknað með að rafvæðing bílaflotans sé farsælasta og fljótlegasta leiðin í orkuskiptum í samgöngum á Íslandi. Enn vegur hreina raforkan þungt og gefur Reykjavík forskot á aðrar borgir.
Til að mæta aukinni raforkunotkunn Reykvíkinga þarf hins vegar að framleiða meira rafmagn og þess vegna er gert ráð fyrir að kannaður verði fýsileiki þess að reisa vindmyllugarð innan borgarmarkanna í samvinnu við Orkuveituna.
Um leið verður jarðefnaeldsneytisstöðvum fækkað á höfuðborgarsvæðinu. Kjarninn greindi frá því í desember í fyrra að bensínstöðvum hafi fjölgað mikið hér á landi undanfarin ár, þvert á þróun víða annarsstaðar í Evrópu. Samkvæmt Samkeppniseftirlitinu er þetta vegna þess að samkeppnismarkaður með eldsneyti á Íslandi er ekki nægilega virkur. Væri eðlilegt ástand hér þar ætti bensínstöðvum að fækka um allt að 30 prósent. Ætla má að með aukinni rafvæðingu bílaflotans verði eftirspurn eftir eldsneyti minni eins og þörfin fyrir bensínstöðvar.
Í áætluninni verða hvatar skilgreindir sem miða að fækkun bensínstöðva. „Markmiðið verði að dælur fyrir jarðefnaeldsneyti innan borgarmarkanna verði 50% færri árið 2030 og að mestu horfnar árið 2040,“ segir í stefnunni.
Ein þeirra aðgerða sem þarf að ráðast í til að þessi áætlun verði að veruleika er að rýna í allt regluverk borgarinnar með það að markmiði að ryðja úr vegi hindrunum þar. Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem gerði athugasemd við loftslagsstefnuna og áskildi sér rétt til að þrýsta á stýrihóp um aðgerðirnar um sérstakar áherslur í samgöngumálum, um mengun og flæði umferðar.
Skipaflotinn raftengdur
Einn mesti mengunarvaldur á Íslandi er skipaflotinn. Sjávarútvegurinn hefur griðarlegra hagsmuna að gæta í loftslagsmálum enda reiða fyrirtækin sig á auðlindir sem gætu hugsanlega yfirgefið lögsöguna ef hitastig sjávar hækkar og hafið súrnar, eins og rannsóknir benda til að þegar sé farið að gerast. Stærsta höfn landsins er í Reykjavík og þess vegna er mikilvægt að byggja upp vistvæna innviði fyrir sjávarútveginn þar. Í áætlunum borgarinnar er stefnt að rafvægðingu Faxaflóahafnar með samstarfi við ríkið, orkusölufyrirtæki og aðrar hafnir.
Í höfninni ganga stærstu togarar og kranar fyrir olíu við löndun enda hefur ekki verið unnt að tryggja togurunum nægt rafafl til að knýja frystikerfi og kana. „Hafnirnar hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að koma þessum búnaði upp og því [er] lagt til að það verði gert með fjárstuðningi ríkisins,“ segir í minnisblaði Gísla Gíslasonar, hafnarstjóra í Reykjavík, sem vitnað er í í áætlun borgarinnar.
Landnýtingin enn lykilatriði
Í öllum áformum borgaryfirvalda er þétting byggðar forsenda þess að framtíðarsýnin verði að veruleika. Landnýting borgarlandsins þarf að verða betri til þess að hámarka ábata af borgarlínunni og bættu almenningssamgöngukerfi; til þess að stytta ferðir borgarbúa og búa til hvata fyrir þá til að nota síður mengandi einkabíla.
Þessi sýn er kortlögð og útfærð ítarlega í Aðalskipulagi Reykjavíkur sem samþykkt var árið 2010. Þar hefur verið lögð áhersla á uppbyggingu borgarinnar á auðum eða illa nýttum svæðum nærri kjarna borgarinnar, í stað þess að þenja borgarlandið út. Einnig er þar kortlagt hvernig hjólastígar eiga að verða til á kostnað bílaumferðar í borginni.
Skipulagið sem unnið er eftir núna hefur ekki verið óumdeilt. Ber þar helst að nefna lokun Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni þar sem fyrirhugað er að reisa nýtt íbúðahverfi og þjónustukjarna. Fjölgun hjólreiðastíga hefur einnig verið gagnrýnd, sérstaklega þar sem bílaumferðargötur hafa verið þrengdar til að koma fyrir umferð hjólandi og gangandi vegfarenda.
Þegar kemur að landnýtingu má heldur ekki gleyma að mikilvæg aðgerð til þess að ná kolefnahlutleysi borgarinnar er jarðrækt. Skógrækt og endurheimt votlendis er viðurkennd mótvægisaðgerð gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Loftslagstefna borgarinnar er nokkuð róttæk í íslenskum veruleika. Hvorki ríki eða önnur sveitarfélög hafa lagt fram svo róttæka áætlun í loftslagsmálum en er þeim til eftirbreytni ef pólitískur vilji er til þess að standa við markmiðin sem Ísland undirritaði í New York í apríl, sjálfan loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hyggist leggja fyrir alþingi þingsályktunartillögu um að sáttmálinn verði færður í lög hér á landi og Ísland standi við þær skuldbindingar sem enn á eftir að semja um við Evrópusambandið.
Tengt efni
Samtal við Dag B. Eggertsson borgarstjóra í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París, 2. desember 2016.