Í apríl 2014 sendi Ken B. Rasmussen, fyrrverandi blaðamaður á vikublaðinu Se & Hør, frá sér bókina „Livet, det forbandede”. Kvisast hafði að í bókinni væri „eldfimt efni” eins og það var orðað. Dagblaðið BT kynti undir þessum orðrómi í nokkrar vikur fyrir útkomu bókarinnar með því að fjalla um innihald hennar, sem blaðið sagði „safaríkt”.
Þegar bókin „Livet, det forbandede” kom í verslanir í lok apríl (2014) kom í ljós að BT hafði síður en svo ýkt í lýsingum sínum. Innihaldið var safaríkt í meira lagi.
Höfundurinn kallar bókina skáldsögu. Í henni er lýst lífinu og vinnubrögðunum á slúðurblaðinu Set & Hørt. Engum sem til þekkja dylst að þrátt fyrir að bókin sé kölluð skáldsaga fjallar hún um fyrrverandi vinnustað höfundar, vikublaðið Se & Hör. Því sem lýst hafði verið sem „eldfimu” efni í bókinni reyndust vera frásagnir af því að fyrrverandi starfsmaður greiðsluþjónustufyrirtækis í Danmörku hefði látið blaðamönnum Set & Hørt í té, gegn greiðslu, upplýsingar um greiðslukortanotkun fjölmargra þekktra Dana, á árunum 2008 – 2011. Trúnaðarupplýsingar sem starfsmaðurinn (sem ætíð er nefndur tys-tys kilden, suss-suss heimildin) hafði aðgang að vegna vinnu sinnar.
Lögreglurannsókn
Skemmst er frá því að segja að bókin vakti strax geysimikla athygli. Lögreglan hafði frá því að dagblaðið BT greindi fyrst frá innihaldi bókarinnar fylgst grannt með og þar á bæ hófst rannsókn strax daginn eftir útkomu bókarinnar. Útgáfufyrirtækið Aller, eigandi Se & Hør, hóf sama dag innanhússrannsókn vegna málsins. Dönsk dagblöð fullyrtu að mjög væri tekið að hitna undir nokkrum starfsmönnum Se & Hør og allmargir fyrrverandi starfsmenn blaðsins væru ekki alveg í rónni. Á daginn kom að þessar fullyrðingar reyndust réttar.
Heimsendingarþjónusta Aller
Um mánaðamótin apríl – maí 2014 var mikið að gera í því sem nokkrir danskir miðlar kusu að kalla ”Heimsendingarþjónustu Aller”. Útgáfufyrirtækið sendi allmarga starfsmenn heim, í ótímabundið leyfi eins og forstjóri útgáfunnar orðaði það í viðtali við DR, danska sjónvarpið. Útgáfa blaðsins stöðvaðist um tíma.
En það fækkaði ekki einungis starfsfólkinu á kontórnum hjá Se & Hør, lögreglan lagði hald á fjölmargar tölvur, síma og margs konar gögn hjá blaðinu. Úgáfufyrirtækið vildi ekki una því að lögregla legði hald á, og notaði, gögn í eigu blaðsins og málið endaði fyrir Hæstarétti Danmerkur sem heimilaði notkun gagnanna.
Nokkrir fyrrverandi stjórnendur Se & Hør grunaðir
Það reyndist ekki orðum aukið að margir fyrrverandi stjórnendur og starfsmenn Se & Hør hefðu ástæðu til að vera órólegir.
Meðal þeirrar var Henrik Qvortrup, sem á þessum tíma var helsti stjórnmálaskýrandi sjónvarpsstöðvarinnar TV2 og einn þekktasti fréttahaukur landsins, sagði upp strax eftir útkomu bókarinnar en hann var ritstjóri Se & Hør á árunum 2001 – 2008. Það var í ritstjóratíð hans sem kaup á hinum leynilegu greiðslukortaupplýsingum hófust. Henrik Qvortrup var strax eftir að bókin kom út settur á skrá grunaðra hjá lögreglunni. Það gilti líka um Kim Henningsen sem var ritstjóri blaðsins á árunum 2009 – 2012 og sjö eða átta aðra sem unnið höfðu á blaðinu. Athygli vakti að meðal grunaðra var Ken B. Rasmussen, höfundur bókarinnar sem varð til þess að málið komst upp.
Tys-tys kilden
Lögreglan vildi í upphafi ekki staðfesta að suss-suss heimildin sem svo er nefnd í bókinni, væri í raun til. Ekki voru þó liðnir margir dagar af maímánuði 2014 þegar talsmaður lögreglu greindi frá því að suss-suss heimildin hefði gefið sig fram við lögreglu. Um væri að ræða 45 ára karlmann sem starfað hafði hjá greiðsluþjónustufyrirtækinu PBS (heitir núna NETS) og hafði selt Se & Hør upplýsingar um kortanotkun þekktra Dana. Slíkar upplýsingar gerðu blaðinu kleift að fylgjast með (kortleggja!) ferðir þessa fólks og senda blaðamenn til að elta fólk uppi og birta svo fréttir og myndir í blaðinu. Suss-suss heimildin hafði í að minnsta kosti 662 skipti, kannski miklu oftar, látið blaðinu í té slíkar upplýsingar. Fyrir þetta hafði hann fengið greiddar að minnsta kosti 430 þúsund krónur (tæpar 9 milljónir íslenskar) en hugsanlega mun meira.
Flókin rannsókn sem teygir anga sína víða
Eins og áður sagði hófst rannsókn málsins í byrjun maí fyrir rúmum tveimur árum. Hún reyndist mjög umfangsmikil og einskorðast ekki við suss-suss heimildina og upplýsingar sem þaðan komu. Gögn sem lögreglan hefur undir höndum benda til að Se & Hør hafi borgað starfsmanni SAS, starfsfólki á Ríkisspítalanum, á Amalienborg (konungshöllinni), starfsfólki á Kastrup flugvelli og síðast en ekki síst einhverjum innan lögreglunnar fyrir upplýsingar af ýmsu tagi. Í janúar 2015 tilkynnti lögreglan að rannsókn yrði að mestu lokið í maí á þessu ári og þá hæfust málaferli. Þá voru tólf einstaklingar á lista grunaðra ásamt útgáfufyrirtækinu Aller Media, eiganda Se & Hør.
Átta einstaklingar ákærðir auk útgáfufyrirtækisins
Fyrir nokkrum dögum, nánar tiltekið 6. júlí, voru ákærurnar gefnar út. Alls eru átta einstaklingar ákærðir, meðal þeirra ritstjórarnir fyrrverandi, Henrik Qvortrup og Kim Henningsen, bókarhöfundurinn Ken B. Rasmussen og suss-suss heimildin (nafnið hefur ekki verið gefið upp). Auk einstaklinganna átta, sem allir nema tveir hafa verið nafngreindir, sætir útgáfufyrirtækið Aller Media ákæru. Réttarhöldin hefjast í september næstkomandi.