Í fyrradag voru kynnt gögn um mögulega lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands. Þar á meðal var ítarleg skýrslu bankans Kviku, en Sigurður Atli Jónsson, forstjóri bankans, kynnti hana á blaðamannfundi, sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hélt. Í skýrslunni frá Kviku var farið yfir sæstrengsverkefnið heildstætt.
Helstu atriði sem tengjast sæstrengnum voru til umfjöllunar, í kjölfar fundarins, en mörg atriði til viðbótar við þau sem tengjast kostnaði og verkfræðilegum forsendum verkefnisins geta einnig haft mikið um framgangs málsins.
1. Brexit-kosningarnar í Bretlandi, sem þegar hafa valdið miklum pólitískum glundroða í Bretlandi, geta haft mikil áhrif á verkefnið. Með formlegri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, sem ekki hefur átt sér stað ennþá og óvissa er um hvernig verður útfærð, missir Bretland aðgang að niðurgreiðslusjóðum Evrópusambandsins þegar kemur að uppbyggingu orkumannvirkja, nema sérstaklega verði um það samið. Þessi nýi pólitíski veruleiki Bretlands gæti því haft áhrif á framhald málsins, af hálfu Breta.
2. Sæstrengurinn milli Íslands og Bretlands yrði um þúsund kílómetra langur, og sá lengsti í heiminum miðað við núverandi stöðu. Bretar eru hins vegar með mörg verkefni á teikniborðinu, þegar kemur að sæstrengjum, eða níu talsins. Þetta var eitt af því sem var nefnt á blaðamannafundinum.
3. Hvers vegna eru mörg risavaxin sæstrengjaverkefni nú í skoðun hjá Bretum og raunar mörgum fleiri þjóðum? Ástæðan er meðal annars krafa um að styrkja orkukerfi þjóða heimsins, með tengingum, til að stuðla að betri nýtni orkunnar og skapa forsendur fyrir umhverfisvænni orku, sem svo stuðlar að minni mengun. Parísarsamkomulagið svonefnda, þar sem þjóðir heimsins skuldbundu sig til aðgerða gegn hlýnun jarðar og mengun af mannavöldum, ýtir enn frekar undir lagningu sæstrengja.
4. Kostnaður við sæstrenginn milli Íslands og Bretlands er álitinn á bilinu 750 til 1000 milljarðar króna, sé heildarframkvæmdin skoðuð. Það er tengimannvirki, viðbótarvirkjarnir og styrking raforkukerfisins á Íslandi. Hægt er að fara ýmsar leiðir við fjármögnun verkefnisins. Ekki er gert ráð fyrir að ríkið fjármagni sæstrenginn og eigi hann.
5. Verkefnisstjórn sæstrengs hefur nú skilað lokaskýrslum til iðnaðar- og viðskiptaráðherra vegna umræddra verkefna. Meðal þess sem þær skýrslur fela í sér er heildstæð kostnaðar- og ábatagreining og mat á áhrifum sæstrengs á efnahag, heimili og atvinnulíf, kortlagning á eftirspurn eftir raforku næstu árin, raforkuþörf sæstrengs og hvernig mæta eigi henni, mat á afgangsorku, áhrif á flutningskerfi raforku, ýmis tæknileg atriði, mat á nýtingu jarða og rekstri smærri virkjana, umhverfisáhrif, þróun orkustefnu Evrópusambandsins og reynsla Noregs.
6. Ragnheiður Elín lagði áherslu á aðríkisstjórnin sem nú heldur um þræðina, myndi ekki taka neina ákvörðun um verkefnið, heldur frekar reyna að stuðla að meiri upplýsingu og dýpri umræðu.
7. Kostnaðar- og ábatagreining á sæstreng til Bretlands leiðir í ljós að verkefnið nær ekki lágmarksarðsemi nema til komi beinn stuðningur frá breskum stjórnvöldum, segir í tilkynningu stjórnvalda. Þessi staða, það er að Bretar þurfi að borga með því að eða að styrkja það sérstaklega, hefur raunar legið fyrir frá því sæstrengshugmyndin var rædd á nýjan leik. Á síðustu sex áratugum hefur sæstrengshugmyndin komið til umræðu reglulega, en núna þykir alveg óumdeilt að verkefnið er tæknilega mögulegt.
8. Vegna sérstöðu verkefnisins þarf að sérsníða viðskiptalíkan, stuðningskerfi og regluverk fyrir verkefnið. Að því gefnu að það gangi eftir geta jákvæði áhrif á landsframleiðslu verið umtalsverð (1,2-1,6%). Miðað við forsendur verkefnisins, sem horft er til í skýrslu Kviku um það, þá gæti ábati fyrir Íslands og Bretland numið tæplega 200 milljörðum króna.
9. Rammaáætlun um virkjun og verndun, þar sem línurnar eru lagðar til framtíðar litið, mun skipta sköpum um sæstrengsverkefnið, og raun segja til um hvort það er yfir höfuð möguleiki.
10. „Það er ekki þörf á tveimur Kárahnjúkavirkjunum. Og það hefur hvergi komið fram að mér vitandi, og svo sannarlega ekki í þessari skýrslu og ekki í neinu sem við höfum lagt til. Skýrslan gerir eingöngu ráð fyrir að það séu um 250 megavött úr hefðbundnum virkjunum eins og við þekkjum þær, sem er ígildi einnar Hrauneyjarfossvirkjunnar eða innan við helming af einni Kárahnjúkavirkjun.“ Þetta sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, þegar hann var spurður út í hvað þyrfti að virkja mikið til að sæstrengurinn gæti orðið að veruleika.