Hrottaleg árás á þjóðhátíðardegi Frakklands
Minnst 84 eru látnir eftir árás á fjölda manns í Nice í Frakklandi á þjóðhátíðardag Frakka, 14. júlí. Vöruflutningabíl var ekið á fjölda fólks þegar það fylgdist með flugeldasýningu.
Að minnsta kosti 84 fórust í árásinni í Nice í Frakklandi, þegar 31 árs gamall Frakki ók vöruflutningabíl inn í hóp fólks sem fagnaði Bastilludeginum, þjóðhátíðardegi Frakka, á Promenade des Anglais-breiðgötunni í gærkvöldi. Fleiri eru slasaðir eftir árásina, margir alvarlega. Meðal þeirra látnu eru tíu börn. Þetta er í þriðja sinn á tveimur árum sem mannskæðar árásir eru gerðar á óbreytta borgara í Frakklandi.
Hér að neðan má sjá valdar ljósmyndir af eftirmálum árásarinnar.

Fjölmargir slasaðir
Mynd: EPA
Fjöldi fólks slasaðist í árásinni eftir að hafa orðið fyrir vörubílnum. Vitni segja árásarmanninn hafa sveigt bílinn til hægri og vinstri, að því er virtist til að valda sem mestum skaða.

Skaut á fólk út um gluggann
Mynd: EPA
Árásarmaðurinn er sagður hafa skotið á fólk út um glugga bílsins á meðan hann ók yfir fólk sem varð í vegi hans. Mikill fjöldi fólks hafði komið saman við strandlengjuna í Nice til að fylgjast með árlegri flugeldasýningu í tilefni af þjóðhátíðardegi Frakka sem var í gær, 14. júlí.

Minnst 84 létust
Mynd: EPA
Promenade des Anglais er gríðarlega fjölfarið breiðstræti sem nær frá flugvellinum í Nice í vestri eftir allri strandlengjunni að gamla bænum í austri. Milli umferðargötunnar og strandarinnar er stór göngugata þar sem fólkið hafði safnast saman. Árásarmaðurinn ók í austurátt inn í mannhafið sem hafði komið saman til að fagna þjóðhátíðardeginum.

Skutu manninn til bana
Mynd: EPA
Lögregla náði að stöðva ferð árásarmannsins og skjóta hann til bana. Þá hafði hann ekið um tvo kílómetra eftir Promenade des Anglais-breiðstrætinu.

Mikið um fjölskyldufólk
Mynd: EPA
Margir komu saman við ströndina í Nice til að fylgjast með flugeldasýningunni, ekki síst fjölskyldufólk með börn. Fjöldi barnakerra voru skildar eftir á breiðstrætinu þegar foreldrar komu sér og börnum sínum í öruggt skjól frá ódæðismanninum og hryllingnum sem blasti við í kjölfar árásanna.

Rannsókn hafin
Mynd: EPA
Rannsókn lögreglu hófst strax í nótt. Búið er að bera kennsl á árásarmanninn og nafngreina hann sem Mohamed Lahouaiej Bouhlel. Hann var 31 árs gamall Frakki sem átti rætur að rekja til Túnis. Lögregla hafði skotið margsinnis á vörubílinn áður en henni tókst að stöðva för árásarmannins.

Sorgarbönd
Mynd: EPA
Svörtum slaufum var komið fyrir á fánastöngum við Elysee-höll í París á föstudagsmorgun eftir árásirnar. Franska fánanum var víða flaggað í hálfa stöng og þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Frakklandi.

Ólýsanlegur hryllingur
Mynd: EPA
Mikil ringulreið greip um sig í Nice þegar fólk sá hvað gerst hafði og þegar það flúði ströndina. Íslensk kona sem stödd var í Nice segist hafa hlaupið í átt að höfninni í austri í um 45 mínútur eftir skipun lögreglu. Í morgun lagði fólk blóm við breiðstrætið til að minnast þeirra sem myrtir voru í árásinni.

Þakkaði viðbragðsaðilum
Mynd: EPA
Francois Hollande, forseti Frakklands, flaug til Nice í morgun til að kynna sér ástandið og ávarpa viðbragðsaðila. Hann flutti hnartnæma ræðu þar sem hann lagði áherslu á samstöðu þjóðarinnar andspænis hryðjuverkaógninni. Hann sagði hræðilegt að hugsa til þess að um 50 börn væru milli heims og helju á sjúkrahúsi eftir árásirnar.